Sonurinn eftir Michel Rostain er átakanleg og áhrifamikil bók. Hún fjallar um sorg föður sem hefur nýlega misst rétt tuttugu og eins árs son sinn úr bráðaheilahimnubólgu og hvernig hann berst við að skilja það sem hefur gerst og sætta sig við missinn. Þótt sorgin sé vissulega í forgrunni hér er þetta einnig saga manns og sambands hans við barn sitt og athyglisverð lýsing á tveimur persónum.
Sagan er einstaklega vel skrifuð og Michel tekst klæða efnið í þann búning að lesandinn hrífst með. Á stundum er hún bráðskemmtileg og fyndin og þess á milli íhugul og djúp. Það eru ótal smáatriði í þessar bók sem eru svo vel unnin og úthugsuð að maður les þau aftur og aftur bara til að njóta. Þetta er mjög raunsönn lýsing á sorg enda hefur höfundurinn sjálfur upplifað það sem hann skrifar um. Sjónarhornið er ansi frumlegt en það er látinn sonurinn, Leó, sem horfir á föður sinn að handan og veltir fyrir sér viðbrögðum hans og tilraunum til að komast í gegnum dagana. Af og til skín húmor sonarins og kímni vel í gegn og léttir andrúmsloftið.
Bókin er stutt og maður les hana í einum rykk og þótt sorgin sé yfirþyrmandi skín vonin í gegn og lesandinn nær að skilja að þótt dauðinn sé miskunnarlaus er lífið gjöf. Minningarnar eru gjöf og að hafa átt og misst er betra en að hafa aldrei átt ástvin.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.