Þegar sænski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Stieg Larsson lést óvænt í nóvember 2004 urðu miklar deilur milli sambýliskonu hans til þrjátíu ára, Evu Gabrielsson, og föður og bróður Stiegs. Þeir voru löglegir erfingjar hans því hann og Eva höfðu aldrei gifst. Ástæða þess var að hjón eru skyldug til að gefa opinberlega upp sameiginlegt heimilisfang sitt í Svíþjóð en Stieg hafði skrifað afhjúpandi greinar um margvísleg öfgasamtök og fengið líflátshótanir í kjölfarið. Parið hafði sótt um að fá að halda heimilisfangi sínu leyndu en sænsk yfirvöld ekki fallist á það.
Stieg var aðeins fimmtugur þegar hann dó og hafði nýlega lokið við þrjár bækur af því sem hann ætlaði að yrði tíu í bókaseríu um blaðamanninn Mikael Blomkvist og hina einstæðu Lisbet Salander. Hann hafði skrifað undir útgáfusamning en engan óraði fyrir þeim vinsældum sem bækurnar áttu eftir að njóta, ekki bara í Svíþjóð heldur um allan heim. Það voru því miklir peningar í húfi og faðirinn og bróðirinn ekki tilbúnir til að afsala sér réttinum til hugverkanna. Eva Gabrielsson fann erfðaskrá þar sem Stieg arfleiddi Umeå-deild Kommúnistaverkamannasambandsins að öllum eigum sínum en skjalið hafði ekki verið vottað af vitnum svo erfðaskráin var ógild. Málið var allt mjög umdeilt í fjölmiðlum og Eva naut almennt mikillar samúðar. Flestum fannst ákaflega óréttlátt að sambýliskona rithöfundarins færi algerlega slypp frá borði meðan faðir hans og bróðir mökuðu krókinn en Stieg hafði, að sögn Evu, lítið samband við þá meðan hann lifði.
Stieg hafði að stórum hluta alist upp hjá afa sínum og ömmu í Norður-Svíþjóð meðan foreldrar hans bjuggu í Stokkhólmi. Tvennt kom til, annars vegar að þau voru mjög ung þegar hann fæddist og hitt að pabbi hans, Erland, missti heilsuna vegna vinnu sinnar í málmbræðslu í Umeå. Hann þurfti að leita sér lækninga og efnin voru ekki mikil svo ákveðið var að skilja Stieg eftir hjá móðurafa sínum og ömmu. Hann var ársgamall þegar foreldrar hans fóru og níu ára þegar hann flutti til þeirra aftur eftir að afi hans lést. Afi hans var kommúnisti og hafði verið um tíma fangi í vinnubúðum nasista á stríðsárunum. Stieg varð fyrir miklum áhrifum af skoðunum hans. Móðir Stiegs, Vivianne, lést úr krabbameini árið 1991 aðeins 54 ára að aldri. Að sögn Evu átti hann lítið sameiginlegt með föður sínum og Joakim bróður sínum. Feðgarnir, erfingjar Stieg, buðu Evu háar fjárhæðir gegn því að hún hætti við málsókn gegn þeim en hún hafnaði því.
Undir stöðugum líflátshótunum
Í huga Evu snerist þetta aldrei um peninga. Hún vildi að verk Stiegs væru virt og öll umgengni um þau í hans anda. Meðal þess sem hún var mjög á móti var að selja kvikmyndaréttinn af bókunum til Hollywood-framleiðenda. Hún var einnig ákaflega ósátt við enska titilinn The Girl with the Dragon Tattoo og að stærðinni á tattúinu á baki Lisbet Salander er breytt í ensku útgáfunni. Hún og Stieg hittust fyrst aðeins átján ára gömul á mótmælum gegn Víetnamstríðinu. Hún heillaðist þá strax af einlægni hans og heiðarleika. Að hennar sögn voru margir ungir menn á þessum árum sjálfsánægðir og hrokafullir og barátta þeirra gegn valdhöfum snerist meira um að láta á sér bera og skemmta sér en raunverulegar hugsjónir. Stieg var algjör andstæða þess.
Þau settu upp hringa árið 1983 og sama ár fór Stieg að skrifa fyrir breska andfasíska tímaritið Searchlight. Það varð til þess að árið 1995 tók hann þátt í stofnun sambærilegs tímarits í Svíþjóð, Expo, hét það og var ætlað að berjast gegn hægri öfgaöflum innan Svíþjóðar. Skrif hans urðu hins vegar til þess að hann fékk endurteknar líflátshótanir og um ritstjórnarskrifstofur tímaritsins var setið. Meðal annars söfnuðust þar eitt sinn saman nýnasistar vopnaðir hafnaboltakylfum. Flestir lesenda Millenium-ritraðarinnar kannast hér án efa við að þeir Mikael Blomkvist eiga margt sameiginlegt og tímaritið Millenium líkist óneitanlega Expo.
Það var svo árið 1999 að sænskur blaðamaður, Peter Karlsson, slasaðist alvarlega eftir að bílasprengja sprakk í bíl hans og verkalýðsforinginn, Björn Söderberg, var skotinn til bana eftir að hafa flett ofan af nýnasista. Ógnin var því áþreifanleg og raunveruleg. Þetta hafði mikil áhrif á líf Evu og Stiegs. Þau fóru sjaldan út úr húsi og voru mjög meðvituð um allar öryggisráðstafanir. Eva er lærður arkitekt og sagnfræðingur og hún sagði til að mynda samstarfsmönnum sínum aldrei hver sambýlismaður hennar væri.
Brúðkaupið sem ekki varð af
Og þannig var staðan árið 2004 þegar þau voru í sumarfríi í sænska Skerjagarðinum. Stieg ítrekaði þá bónorð sitt og þau höfðu skipulagt að slá saman sameiginlegri fimmtugsafmælisveislu þeirra beggja og brúðkaupi. Af því varð hins vegar ekki því nokkrum mánuðum síðar fór Stieg á fund á ritstjórnarskrifstofum Expo og gekk stigana upp á sjöundu hæð því lyftan var biluð. Hann fékk hjartaáfall þegar upp var komið og þrátt fyrir að honum hafi verið komið með hraði á sjúkrahús dó hann sama dag.
Þau höfðu ætlað sér að stofna fyrirtæki saman til að halda utan um ritað efni beggja en Eva vann þá að bók um arkitektinn, Per Olof Hallman en eftir lát Stiegs kom í ljós að hann hafði ekki komið því í verk. Í fyrstu voru þeir Erland og Joakim jákvæðir í garð Evu og töldu engin vandkvæði á að koma á fót slíku fyrirtæki og að hún fengi yfirráð yfir því en þegar þeir gerðu sér ljóst hversu miklir peningar voru í húfi breyttist hljóðið í strokknum. Eva stóð uppi réttlaus og það eina sem hún átti með réttu var helmingurinn af litlu íbúðinni sem þau bjuggu í. Hún var skráð fyrir henni líka en annað af eigum Stieg rann til föður hans og bróður. Hún reyndi allt hvað hún gat að fá höfundaréttinn að bókunum en margt af þeim hugmyndum sem þar var að finna voru komnar frá henni. Hún hefur sagt í viðtölum að þótt Stieg hafi vissulega skrifað bækurnar og stíllinn, orðfærið og uppbyggingin sé hans hafi þau talað mikið um hugmyndirnar og útfært margar af þeim saman.
Einu tókst henni hins vegar að halda og það var fartölvu Stieg en í henni var að finna hálfklárað handrit að fjórðu bókinni og uppdrætti og hugmyndir að hinum sex sem hann hafði áætlað að skrifa. Eva gaf út endurminningar sínar árið 2011, Stieg and Me: Memories of My Life with Stieg Larsson. Meðhöfundur hennar að bókinni var Marie-Francoise Columbani. Sú bók lýsir djúpu og einlægu sambandi tveggja einstaklinga. Fólks sem eru jafningjar og deila ekki bara heimili og ást heldur einnig hugsjónum. Í kjölfarið gaf hún út bók um lagalega stöðu sambýlisfólks og hversu mikilvægt það er að ganga vel frá sínum málum sé fólk í sambúð en ekki gift.
Eva tapaði
Í dag eru deilurnar að baki og Eva tapaði. Hún hefur ekkert haft með að gera hvernig útgefandinn og feðgarnir réðu fyrst David Lagercrantz og nú nýlega Karin Smirnoff til að halda áfram að skrifa seríuna. Fyrsta bók Karinar, Í klóm arnarins, kom út á íslensku í ár. Þótt þetta sé ágæt spennusaga á hún lítið skylt við bækur Stiegs. Hann var mikill femínisti og það skín í gegn í Karlar sem hata konur og ekkert síður í Stúlkan sem lék sér að eldinum og Loftkastalinn sem hrundi. Hvorki David Lagerkrantz né Karin Smirnoff ná fyllilega að skila sama öfluga tóninum. Þeirra Lisbet Salander er vissulega sjálfstæð og kraftmikil manneskja en engan veginn sú sama og í fyrstu þremur bókunum.
Mjög var um það talað þegar bækurnar komu fyrst út að Lisbet væri klárlega byggð á Línu Langsokk en bent hefur verið á að hún beri ekki síður svip af sterkum konum í bókum annarra sakamálahöfunda en Stieg gerði sér að leik að koma með vísanir í verk Agöthu Christie, Söru Paretsky, Dorothy L. Sayers og fleiri uppáhaldshöfunda sinna í fyrstu bókunum. En Astrid Lindgren hefur án efa verið mikill og stór áhrifavaldur og Mikael Blomkvist og Kalli Blómkvist eiga margt sameiginlegt.
En bækurnar um Lisbet og Mikael eru ekki eini arfur Stieg Larssons. Fyrir fjórum árum kom út hjá Bjarti Veröld bókin Arfur Stieg Larsons eftir Jan Stocklassa. Hann er rithöfundur og blaðamaður sem fékk aðgang að kössum með gögnum úr fórum Stiegs Larssons í geymsluhúsnæði í Stokkhólmi. Mikið af efninu sneri að rannsóknum Stiegs á hægri öfgasamtökum í Svíþjóð en hluti af efnum um rannsókn hans á morðinu á Olof Palme. Kenningar rannsóknarblaðamannsins og spennusagnahöfundarins látna um það raunverulega morð eru mjög áhugaverðar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.