Besta sumar allra tíma

Sólin hefur skinið glatt síðustu daga og vikur og það virðist ekki vera neitt lát á góða veðrinu. Nú er tími til að njóta og finna rétta jafnvægið á milli slökunar og þess að vera að gera eitthvað. Sálfræðingurinn Jonathan Alpert skrifar stutta grein á vefinn inc.com um hvað við getum gert til að fá sem mest út úr sumrinu og mæta vetrinum endurnýjuð á sál og líkama. Og hver veit nema þetta verði besta sumar allra tíma.

  1. Hvaða væntingar höfum við til sumarsins. Eru þær raunhæfar eða óraunhæfar. Langar okkur til útlanda, ferðast innanlands, skipta um vinnu eða skipta um húsnæði. Er þetta ekki aðeins of. Munið að sumarið er í mesta lagi þrír mánuðir og ef fólk ætlar sér um of veldur það streitu. Það borgar sig að stilla væntingunum í hóf og velja og hafna í staðinn fyrir að ætla að gera allt á þessum fáu vikum.
  2. Yfirleitt ætlar fólk að koma sér í form í september eða janúar. En er ekki gráupplagt að nota sumarið til að koma sér í form. Það er hægt að gera með því að stunda göngur, hjólreiðar eða fara í sund. Hæfileg útivist gerir öllum gott.
  3. Það má líka nota sumarfríið til að læra eitthvað nýtt. Fara á matreiðslunámskeið í útlöndum eða læra nýtt tungumál. Það góða er að í leiðinni kynnast menn nýju fólki og eignast nýja vini.
  4. Ein leiðin til að lengja sumarið er að taka frí eftir hádegi á föstudögum eða bara allan föstudaginn. Þennan aukafrídag má svo nýta í að gera eitthvað skemmtilegt eða fara í þriggja daga útilegu.
  5. Það má líka nota sumarið til að búa til nýjar hefðir. Til dæmis geta afi og amma ef þau eru ættuð utan af landi boðið börnum og barnabörnum í heimsókn á slóðir forfeðranna einu sinni á ári. Slíkt styrkir fjölskylduböndin og fólk kemst nær uppruna sínum. Í vetur verður svo hægt að rifja upp skemmtilegar minningar úr ferðinni.
  6. Slökktu á tölvunni og símanum. Það er ótrúlega endurnærandi að vera ótengdur þó það sé ekki nema í nokkrar klukkustundir. Það er hvíld í því að vita að enginn getur haft samband við þig. Tímann sem fólk er ótengt getur það notað til að uppgötva nýja hluti upp á eigin spýtur.

 

 

S

Ritstjórn júní 19, 2019 08:18