Íslenskar sakamálasögur eru fjölbreyttar, skemmtilegar og spennandi. Þeir höfundar sem hafa lagt fyrir sig þessa bókmenntagrein hér á landi eru undantekningalaust hæfileikaríkir og kunna vel að skapa bæði persónur og andrúmsloft. Satu Ramö er þar engin undantekning. Aðalsöguhetjan í hennar fyrstu bók, Hildur, er áhugaverð og flott og þegar maður lokar bók með þeirri tilfinningu að geta varla beðið eftir framhaldinu veit það sannarlega á gott.
Satu er finnsk en hefur verið búsett hér á landi í tuttugu ár. Hún kom hingað sem skiptinemi til að stunda háskólanám í þjóðfélagshagfræði en skipti um skoðun og fór að læra íslenskar bókmenntir og þjóðháttarfræði í staðinn. Hún er búsett á Ísafirði ásamt manni sínum og tveimur börnum. Hildur kom fyrst út í Finnlandi árið 2022 og þegar hafa komið út þar þrjár aðrar, Rósa & Björk, Jakob og Rakel. Það er Erla Elíasdóttir sem þýðir söguna um Hildi og gerir það einstaklega vel.
Leyndir þræðir
Hildur Rúnarsdóttir er rannsóknarlögreglumaður á Ísafirði en yfir henni og fjölskyldu hennar hvílir þungur skuggi. Systur hennar tvær hurfu þegar þær voru börn og síðan hefur ekkert til þeirra spurst. Foreldrar Hildar létust skömmu síðar í bílslysi en hún á móðursystur sína, Tinnu, að. Allt frá því að litlu stúlkurnar hurfu hafa sótt að Hildi þungar og erfiðar tilfinningar þegar eitthvað slæmt er í vændum. Hún finnur það á sér. Tinna, frænka hennar, segir þetta ættarfylgju. Skömmu eftir að finnskur lögreglunemi, Jakob, kemur í starfsnám á lögreglustöðinni á Ísafirði finnst gamall barnaperri látinn undir snjóflóði. Í ljós koma ákveðin tengsl við morð á þekktum, samviskulausum lögfræðingi í Reykjavík og nú reynir á hæfileika Hildar til að rekja þræðina. Hún fær líka nýja vísbendingu í máli systra sinna og hver veit nema loksins fáist einhver svör um örlög þeirra.
Þótt Satu hafi ekki skrifað skáldsögur áður hafði hún gefið út bæði prjónabækur og handbækur um Ísland. Í Covid sótti að henni einhver tómleikatilfinning og hún hóf að skrifa sína fyrstu skáldsögu. Í bígerð er að skrifa sex bækur í seríunni um Hildi lögreglukonu, Jakob og Betu á lögreglustöðinni á Ísafirði. Bækurnar hafa þegar hlotið metsölu í Finnlandi og þrjár þeirra hafa verið þýddar á ensku en að auki hefur útgáfurétturinn verið seldur til tólf annarra landa. Það er ekkert undarlegt að lesendur séu spenntir því Satu kann vel þá list að búa til áhugaverða fléttu, leiða lesandann áfram frá einni vísbendingu til annarrar og skapa spennu. Það er óhætt að hlakka til næstu bókar eftir þennan höfund.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.