Man ekki eftir mér öðruvísi en með nefið ofan í bókum

Fyrir svona um það bil einni og hálfri öld þótti það hinn versti ljóður á ráði kvenna að þær lægju í bókum. Tröllskessan Gilitrutt var send til að kenna húsfreyju þá lexíu að betur færi að spinna og iðja en liggja og lesa og Jónas Hallgrímsson segir okkur að systir hans vildi ekki láta fréttast að hún væri að reyna sig við að yrkja í smásögunni Grasaferð. Til allrar lukku var Silja Aðalsteinsdóttir ekki fædd á þeim tímum því bókelskari manneskja er vandfundin. Hún er fyrir löngu komin á eftirlaunaaldur en hefur enn ekki getað slitið sig frá bókunum.

Hvenær kviknaði þessi ástríða þín fyrir bókum og veistu hvers vegna það var? „Ég man ekki eftir mér öðruvísi en með nefið ofan í bókum,“ segir Silja hugsandi á svip, „eða eltandi mömmu á röndum, biðjandi hana að segja mér sögur. Hún var svolítið góð í að segja mér, einkum ævintýri og ég varð snemma læs og mér fannst það bara nýr og dásamlegur heimur sem bækurnar opnuðu.“

Bókaunnendur skiptast að sumu leyti í tvö horn. Sumir heillast af textanum, hvernig hann er samansettur og hvernig höfundar nota orð meðan aðrir láta söguþráðinn leiða sig og sjá ljóslifandi fyrir sér þær myndir sem höfundur dregur upp. Er það fyrst og fremst söguheimurinn sem heillar þig eða orðin og hvernig höfundar nota þau?

„Ég hef aldrei hugsað þetta svona. Ég er sjúk í sögur, kjaftasögur og alls konar sögur og finnst mjög gaman að renna mér í gegnum bækur sem eru ekkert nema bara söguþráður en svo verð ég ástfangin af höfundum sem kunna að nota orð. Ég man þegar ég las bók Hallgríms Helgasonar, Þetta er allt að koma, sem var hans önnur bók, þá hugsaði ég: Hvar hefur maðurinn lært þetta? Hvernig kann svona mörg orð og hvaðan kemur þetta ríkidæmi, þessi orðaauðlegð? Ég held að þetta sé nú svarið, það eru orðin sem heilla mig mest. Og þegar ég er að skrifa sjálf langar mig stundum svo mikið að hafa víðari orðaforða og geta slegið um mig. Á hinn bóginn finnst mér líka að ég megi ekki vera önnur manneskja, það fari mér ekki sem persónu að þykjast vera stórkostlegri skríbent heldur en ég er.“

Silja með Bubba Morthens sem hún kallar fósturson sinn.

Öll tilgerð óþægileg

Þessi hógværð er dæmigerð fyrir Silju en allir sem hafa lesið eitthvað eftir hana vita að hún hefur einstakt vald á íslensku máli og orðaforðinn er bæði ríkulegur og vel notaður.

„Öll tilgerð finnst mér óþægileg,“ bætir hún við en Silja er íslenskufræðingur og með meistaragráðu í bókmenntafræði. „Ég lærði íslensku og ensku í háskólanum. Ég veit ekki hvort ég hefði farið í ritlist ef hún hefði verið komin þá. Ég hef aldrei haft neinar langanir til að verða rithöfundur. Þótt ég hafi skrifað hundruð blaðsíðna um ljóðagerð hefur mig aldrei langað til að yrkja. Ég kann hins vegar svo vel að meta fólk sem yrkir falleg ljóð. Ég hugsa að ég hafi valið alveg rétt að fara í íslensku og það nám hefur gagnast mér ákaflega vel.“

En hvað hafðir þú hugsað þér að námi loknu, stefndi hugurinn í kennslu? „Já, ég útskrifaðist með BA-próf 1968 og þá sótti ég um starf í hinum nýja Hamrahlíðarskóla. Guðmundur Arnlaugsson, fyrsti rektor skólans, sem ég þekkti svolítið úr menntó og fannst alveg dásamlegur maður, hafnaði mér vegna þess að ég var bara með BA-próf. Hann leit svo stórt á sinn skóla að hann vildi eingöngu ráða kandídata – sem var bara mjög flottur metnaður hjá honum. Sennilega hefði ég verið þar til æviloka ef hann hefði hleypt mér þar inn fyrir dyr, það er ég alveg viss um. Andi skólans og allt sem hann stóð fyrir var einhvern veginn svo í takti við mig og mínar hugmyndir og hugsjónir. En hann bjargaði mér með því að hafna mér.

Ef hann hefði ráðið mig hefði líf mitt orðið voðalega einhæft. Ég fór í staðinn að kenna stundakennslu við Háskólann og í Kennó; auk þess fór ég að þýða og lesa upp í útvarpið bara til að hafa tekjur. Þetta var náttúrulega óttalegt basl og vesen að vera á mörgum stöðum en auðvitað týpískur Íslendingur að vera í mörgum vinnum. Þessir vinnustaðir voru þannig sumir hverjir að ég gat haft krakka með mér og dætur mínar sátu bara og teiknuðu meðan ég flutti fyrirlestra eða sátu hjá hljóðmanninum uppi í útvarpi. Ég held að, eins og allt annað, hafi þetta farið á besta veg.“

Aðallega gaman að lesa bækur

En þetta var ekki allt. Næst fer Silja að skrifa bókarýni, ritstýra og skrifa leiklistargagnrýni. Hvernig kom það til?

„Ég varð ritstjóri Tímarits Máls og menningar árið 1982 en þá var ég búin að skrifa bókadóma í Þjóðviljann, Tímarit Máls og menningar og fleiri miðla. Maður fékk auðvitað ákveðna þjálfun í náminu í Háskólanum í að taka bækur fyrir og skrifa um þær. Mér fannst það gaman en aðallega fannst mér gaman að lesa þær og eignast þær og ef ég þurfti að skrifa um þær til að fá þær þá var það auðveld leið til að eignast góðar bækur.

Leikhúsgagnrýnin kom hins vegar mjög sérkennilega til. Ég var að kenna uppi í Háskóla árið 1978 og Bryndís Schram var að skrifa um leikhús í Vísi. Hún þurfti að skreppa eitthvert og komst ekki til að skrifa um leiksýningu í Iðnó. Þá hringdi hún í mig og spurði mig hvort ég vildi skrifa um þessa sýningu. Ég kom alveg af fjöllum því ég vissi ekki til þess að nokkur manneskja vissi af áhuga mínu á leikhúsi. Þetta var eiginlega eini munaðurinn sem við Gunnar leyfðum okkur. Við vorum bæði alveg brjáluð í leikhús. Ég hef aldrei hugsað þetta fyrr en núna en kannski hefur hún bara séð mig í leikhúsinu.. Við þekktumst reyndar pínulítið, ég og Bryndís. Við höfðum unnið saman á kvennablaðinu Hrund sem því miður dó mjög snögglega, lifði ekki nema átta mánuði eða svo. Margrét Heinreksdóttir var ritstýra þess blaðs. En Bryndís alla vega hringdi í mig og ég skrifaði um þessa sýningu í Vísi. Það varð ekki reglulegt framhald á því fyrr en nokkru seinna en ég var komin á bragðið, búin að fá bakteríuna. Eftir að fyrsta gagnrýnin birtist þá veit fólk af þér og fer að biðja þig að skrifa meira, svona gerist þetta bara.“

Með Hallgrími Helgasyni og Æsu Guðrúnu Bjarnadóttur en í fyrra kenndu þau skemmtilegt námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands, 60 kíló af Hallgrími.

Enn á launaskrá hjá Forlaginu

Um árabil var Silja menningarritstjóri DV og skrifaði þá og fylgdist vel með öllum menningarviðburðum og uppákomum á landinu og gerir enn. Hún sækir opnanir málverkasýninga, les ósköpin öll og í vetur kenndi hún bráðskemmtilegt námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands, 60 kíló af Hallgrími. Þar var farið yfir 60 kílóa bækur Hallgríms og Silja setti þær í bókmenntafræðilegt samhengi og opnaði augu nemenda fyrir efnistökum höfundar og ýmsum skemmtilegum stílbrögðum. Stendur eitthvað til í vetur sambærilegt eða allsendis ólíkt?

„Ég hef í rauninni aldrei hætt að vinna,“ segir hún. „Ég er enn á launaskrá hjá Forlaginu. Það er eins og ég sagði einu sinni við Kolbrúnu Bergþórsdóttur vinkonu mína, fólk eins og við, sem er með allar gömlu stafsetningar- og málfræðireglurnar í kollinum og getur lagað texta, ekki endurskrifað, heldur lagað, er deyjandi tegund. Þess vegna veit ég að þau hjá Forlaginu kunna vel að meta að geta sent til mín handrit og þó einkum prófarkir. Ég les talsvert af bókum hvers árs í próförk og er iðulega búin að lesa upp undir helming af skáldskapnum. Það er afskaplega þægilegt að vera viðræðuhæfur þegar maður kemur í jólaboðin.

Ég geri bara það sem mér er sagt að gera hjá Forlaginu, hvað sem það inniber. Svo er ég í kór. Senjórítukórnum og við erum að fara til Írlands í október. Ætlum að taka þátt í kóramóti í Derry á Norður-Írlandi. Það er Ágota Joó sem stjórnar, yndisleg, falleg og skemmtileg kona sem kom til að heimsækja systur sína á Ísafirði þegar hún var rétt rúmlega tvítug og hitti þar Ísfirðing og þá var ekki að sökum að spyrja.“

Ekki safnari í eðli sínu 

Nú er komið ritstjórnarnám á háskólastigi en Silja fór ekki í gegnum neitt slíkt. Öll hennar vinna byggist á tilfinningu, þekkingu hennar á málinu og auðvitað þeim smekk sem gríðarlegur bóklestur náði að þroska. Silju hefur sannarlega tekist að koma bókvitinu í askana. Ævisögur hennar og þýðingar eru lesendum að góðu kunnar og hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir, Skáldið sem sólin kyssti, ævisögu Guðmundar Böðvarssonar, Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðinguna á Wuthering Heights, sögu Emily Brontë og fjölmargar aðrar viðurkenningar fyrir verk sín. Árið 2015 var hún sæmd fálkaorðunni fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta. Hún á líka svo sannarlega þakklæti skilið fyrir að hafa snúið á snilldarlegan hátt bókum Jane Austen, Hroka og hleypidómum og Aðgát og örlyndi. En hvernig heldur maður við svona ástríðu og lætur neistann ekki dofna, verður þú aldrei þreytt á bókum?

„Ekki ennþá,“ segir Silja og brosir breitt. „Mér finnst mjög gott að vera á póstlista hjá leikhúsum, listasöfnum og bókaforlögum svo ég fái í pósthólfið mitt áminningu um að verið sé að opna nýja sýningu, frumsýna nýtt leikrit eða gefa út nýja bók. Ég veit ekki hvort ég væri jafndugleg ef ég fengi ekki slík boð. Mjög margt sem ég fæ til mín kveikir í mér og glæðir áhugann á að fara og kynna mér það nánar.“

En fyrir um það bil einu og hálfu ári seldi Silja húsið sitt og flutti í minni íbúð. Þá þurfti hún að losa sig við töluvert af bókum. Fyrir ástríðufullan bókaunnanda hlýtur það að hafa verið erfitt.

„Maðurinn minn var sagnfræðingur og hann var virkilegur safnari. Ég hef aldrei verið almennilegur safnari. Ég er nokkurn veginn laus við fíknir sem er svosem ágætt. Þegar hann hætti að kenna uppi í Háskóla flutti hann skrifstofuna sína í einu lagi í kjallarann á gamla húsinu okkar og fóðraði kjallaraíbúðina að innan með Billy-bókaskápum úr IKEA og fyllti þær af sagnfræðibókum. Það var ekkert svo voðalega erfitt fyrir mig að losa mig við þær. Ég geymdi auðvitað eitthvað af þeim, allar bækurnar eftir hann sjálfan til að mynda. En þetta voru ansi margir tugir kassa. Ég byrjaði á að bjóða fjölskyldunni heim og leyfði henni að velja. Síðan kom barnabarn með sagnfræðinema og þeir völdu og restin fór til Bjarna Harðarsonar og hann tók glaður við þessu öllu saman. Þetta voru auðvitað rosalega fínar bækur og margar ábyggilega fáséðar orðnar. Þetta var furðu þjáningarlaust en vissulega hef ég vaknað margan daginn og hugsað; á ég ekki þessa bók? Ég átti þessa bók! Það getur verið ansi sárt,“ segir Silja að lokum og kímnin skín úr augunum þótt undirrituð skilji vel þann söknuð sem getur vaknað eftir bók sem er nýlega farin jafnvel þótt hún hafi ekki verið opnuð í þónokkur ár.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 20, 2024 07:00