Leikhúsið er list stundarinnar og ekkert jafnast á við þau hughrif sem grípa mann á góðum sýningum. Elly er þannig sýning, saga konu sem hrífst auðveldlega, af tónlist og tónlistarmönnum. Elly Vilhjálms fann tónlistina hríslast um sig, frá tám upp í hvirfil og til baka sömu leið þegar hún stóð í fjörunni fyrir neðan Merkines og söng fyrir litla skýið yfir víkinni og þannig leið mér þegar ég sá og heyrði Katrínu Halldóru Sigurðardóttur túlka líf hennar og list í Borgarleikhúsinu í kvöld.
Katrín Halldóra hefur einstaklega blæbrigðaríka rödd og í hvert skipti sem hún opnar munninn og syngur tekst henni að leika á ótal strengi hjartans og kveikja alls konar tilfinningar meðal áheyrenda sinna. Það brást ekki í kvöld né heldur hæfileikar hennar til að túlka unga saklausa stúlku, særða konu, sorgmædda móður og þroskaða sjálfstæða manneskju. Hún hefur eitthvað sérstakt við sig þessa unga leikkona, einhverja nærveru og útgeislun sem hrífur alla.
Hið sama má segja um Björgvin Franz Gíslason. Hann nær að bregða sér í ótal hlutverk í þessari sýningu og vera trúverðugur í þeim öllum. Frá honum stafar einhverri orku sem allir smitast af, enda frábær listamaður þar á ferð. Hjörtur Jóhann Jónsson skilar sínu einnig vel en hlutverk hans gefa kannski ekki sama tilefni til flugeldasýninga og þau Katrín Halldóra og Björgvin Franz fá. Það er gaman að sjá Sigurð Ingvarsson í hlutverki Jóns Páls Bjarnasonar. Hann hefur sakleysislegt og unggæðislegt yfirbragð sem passar einkar vel við persónuna sem honum er ætlað að skapa. Katla Margrét Þorgeirsdóttir bregður sér einnig skemmtilega í nokkur hlutverk en tókst best upp þegar hún túlkaði Sigrúnu Jónsdóttur söngkonu því þar fékk hún tækifæri til að koma á framfæri veruleika söngkvenna þessa tíma. Slúðrið og fordómarnir sem mættu þeim fyrir það eitt að vilja vinna við tónlist.
Sýningin er byggð á ævisögu Margrétar Blöndal, Elly. Sú bók var að mestu byggð á viðtölum við þá sem þekktu Elly því aðrar heimildir voru af skornum skammti. Gísla Erni Garðarssyni og Ólafi Egilssyni tekst einstaklega vel að vinna úr efninu og skapa heilstæða og áhrifamikla sögu.
Það er ekki hægt annað en minnast á hljómsveitina. Þar er valinn maður í hverju rúmi. Örn Eldjárn, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Hjörtur Ingvi Jóhannsson, Þorvaldur Þór Þorvaldsson og síðastur en ekki sístur Aron Steinn Ásbjarnarson. Hann leikur listavel á saxfóninn en dugar einnig til að leika dansara, rútubíl og ýmislegt annað. Það verður ekki af aðstandendum þessarar sýningar tekið að þau eru öll fjölhæf. Búningahönnun Stefaníu Adolfsdóttur er stórkostleg og auðséð að hún hefur lagt sig fram við að endurskapa andblæ þeirra ára þegar Elly söng á skemmtistöðum borgarinnar og fólk dansaði.
Þótt sýningin Elly hafi verið tekin upp aftur og þarna sé margt eins er samt eitthvað nýtt á ferð á sviðinu. Ég get ekki alveg sett fingurinn á hvað það er en mér finnst eins og sumum atriðum hafi verið breytt og allt er einhvern veginn dýpra og áhrifameira núna en var. Það var meiri léttleiki yfir sýningunni í fyrra skiptið. Þarna er líka ástríða, áhugi og já, væntumþykja. Það er því ekkert að því að sjá Elly aftur, og jafnvel aftur og aftur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.