Benný Sif Ísleifsdóttir þjóðfræðingur sendi frá sér sínar fyrstu bækur árið 2018 og þá tvær í einu. Önnur var barnabók en hin skáldsagan Gríma og höfundurinn þá komin fast að fimmtugu. Tíma hennar fram að því hafði að mestu verið varið í að sinna uppeldi fimm barna og rekstri heimilis. Þegar hægjast tók um og ábyrgðin að minnka á mannmörgu heimili hóf hún háskólanám og líklega þarf ekki að koma á óvart að íslensku jólasveinarnir voru henni hugleiknir. Barnabókin Jólasveinarannsóknin spratt að nokkru leyti upp úr því. En þar með var brunnurinn ekki þurrausinn og fjórar nýjar skáldsögur og tvær barnabækur til viðbótar hafa komið úr smiðju hennar og glatt íslenska lesendur.
Þú byrjaðir frekar seint að skrifa, sem er reyndar ekki nýtt þegar íslenskir kvenrithöfundar eru annars vegar. Heldur þú að það hafi einhverju breytt varðandi hvernig bækur þú skrifar og söguefnin?
„Alveg ábyggilega,“ segir hún. „Að sumu leyti er ég samt fegin að ég byrjaði ekki fyrr. Ég held að þetta hafi verið réttur tími fyrir mig. Ég á fimm börn og byrjaði að skrifa þegar þau voru öll komin vel á legg og ég hafði lokið meistaranámi í þjóðfræði. Ég fann sjálfa mig í þjóðfræðinni, þar fundu áhugamál mín sér sameiginlegan farveg, íslenskan og gamli tíminn. Það var eins og ég væri komin heim og væri velkomin.“
Þekkir sjávarþorp
Sögusvið bóka þinna eru lítil þorp úti á landi, ýmist fyrir vestan en nú í þeirri nýjustu Speglahúsið, fyrir austan. Er einhver ástæða fyrir að þú kýst þannig umhverfi?
„Ég er auðvitað alin upp í sjávarplássi fyrir austan, Eskifirði, og pabbi var svo að vestan. Ég var rúmlega tvítug þegar hann lést og þar sem hann var skipstjóri hafði ég lítið af honum að segja öll uppvaxtarárin – en var mikil pabbastelpa. Eftir að hann dó áttaði ég mig á því hvað ég hafði í raun umgengist hann lítið og dálæti mitt á Vestfjörðum og öllu því sem vestfirskt er, er áreiðanlega tilraun til að kynnast honum betur. Skilja hvaðan hann kom og hver hann var. Togarajaxl sem ég sá alltof sjaldan.
Sjávarþorp þekki ég, þess vegna eru þau sögusvið minna bóka. Það er stutta svarið. Ég þekki fólkið, tengsl þess við staðinn og hvert annað, og ég skil það ábyggilega betur en borgarbúa. Auk þess þykja mér smábæir sjarmerandi og kostir og gallar þess að allir þekki alla eru uppspretta flókinna tilfinninga og viðhorfa sem mér finnst gaman að stúdera.“
Fæddist með fortíðarþrá
Konur, veruleiki þeirra, aðstæður og samskipti eru í forgrunni í bókum þínum. Þú gjarnan teygir þig aftur í tímann og sýnir að draumar, vonir og væntingar kvenna hafa ekki breyst neitt sérstaklega mikið þótt aðstæður hafi breyst. Er einhver sérstök ástæða fyrir að einmitt svona viðfangsefni vekja áhuga þinn?
„Frá því ég man eftir mér hefur mig dreymt um fortíðina. Ég er yngst í fimm systkina hópi og systkini mín tíndust burt eitt af öðru en ég saknaði þeirra tíma sem ég hafði aldrei upplifað; að vera ein af þeim og eiga lítið systkini. Ég held ég hafi fæðst með fortíðarþrá!
Foreldrar mínir voru á fimmtugsaldri þegar ég fæddist og mamma sagði mér frá fólkinu á staðnum og sögum sem tengdust umhverfinu og ég var ung farin að fletta Eskju, byggðasögu Eskifjarðar eftir Einar Braga, og leita eftir nöfnum og andlitum sem ég þekkti. Horfa á ljósmyndir af skólabörnum á þriðja áratug síðustu aldar, framan við barnaskólann sem ég sjálf gekk í, og furða mig á því að rosknir íbúar hefðu einu sinni verið börn. Í Eskju voru myndir af mömmu minni sem stelpu og ömmu minni sem ungri konu, mér þótti það stórmerkilegt og þráði með einhverjum hætti að hafa verið samtíða þeim. Tíminn var mér sífellt umhugsunarefni. Seinna lærði ég þjóðfræði þar sem allt er forgengilegt með einhverjum hætti og tilraun til björgunar er ávallt á elleftu stundu.
Sjávarpláss eru kvennastaðir, eða voru það að minnsta kosti, og eftir að ég fullorðnaðist velti ég fyrir mér kringumstæðum sjómannskvenna og áttaði mig á því að það voru ekki síður eiginkonurnar sem voru hetjulegar en sjómennirnir þeirra. Bæði móðir mín og tengdamóðir voru sjómannskonur og fimm barna mæður. Ég skildi hlutskipti þeirra betur þegar ég síðfullorðnaðist. Kannski er ég í og með í bókum mínum að velta fyrir mér hvort af þessu er stærri örlagavaldur í lífi fólks: aðstæður eða atgervi. Sitt er jú hvað gæfa og gjörvileiki.“
Íslenska uppáhaldsfagið í skóla
Í bókum þínum koma iðulega fyrir stórskemmtileg orðtök og málshættir, oft eitthvað sjaldgæft eða gleymt. Er það viljandi gert eða er tungutak þitt einfaldlega svona litríkt?
„Það er að minnsta kosti viljandi gert. Hvort tungutak mitt sé svona litríkt þurfa kannski aðrir að dæma um. Að því sögðu, þá var íslenska mitt uppáhaldsfag í skóla og ég lauk diplóma í hagnýtri íslensku við Háskóla Íslands áður en ég fór í þjóðfræðina.
Mér finnst sömuleiðis viðeigandi þegar verið er að skrifa sögulegar skáldsögur að tungutak endurspegli eða sé þokkalega sannfærandi fyrir það tímabil sem um ræðir. Ég legg mig fram um að hafa það sannfærandi.“
Speglar hafa löngum verið tákn hégómans, forgengileika og ákveðinna tálsýna. Allir þekkja hlutverk spegilsins í ævintýrinu um Mjallhvíti og hvernig Lísa hverfur inn í veröld spegilsins í framhaldi Lísu í Undralandi, Alice Trough the Looking Glass. Margir íslenskir lesendur muna líka eftir frásögn Sigurveigar Guðmundsdóttur kennara í ævisögunni, Þegar sálin fer á kreik, af því þegar hún lá ein og mátti ekki hreyfa sig vegna berklaveiki og spegillinn á veggnum varð hennar afþreying. Hann gerði henni kleift að sjá út og skynja lífið fyrir utan. Í nýjustu bókinni Speglahúsið er ein aðalpersónan lömuð og speglar tryggja henni útsýni yfir næsta umhverfi heimilis síns. Hafðir þú einhverja fyrirmynd að manneskju í þessum aðstæðum?
„Já! Þegar ég var lítil stelpa á Eskifirði var pabbi á sjó á Fáskrúðsfirði og þangað fór ég með mömmu að sækja hann,“ segir hún. „Og sjálfsagt fór ég líka með þegar honum var skutlað um borð aftur en því man ég ekki eftir. Í minningunni erum við mamma alltaf bara tvær í bílnum og þegar við keyrum fram hjá Sómastöðum í Reyðarfirði segir hún mér frá konu sem einu sinni lá þar á bekk undir glugga. Mér hefur alla tíð verið sagan minnisstæð en hún hefur setið svolítið óþægilega í barnsminninu. Ég vorkenndi konunni og það þrátt fyrir að spegill hefði verið festur skáhallt ofan við höfðalagið á rúminu þannig að hún gæti séð götuna fyrir utan. Eiginlega vorkenndi ég henni meira einmitt vegna spegilsins. Það fóru fáir um götuna, það var ekkert að sjá, en ég skildi hugsunina og þótt ég væri barn skildi ég hve þetta var máttlaus tilraun en vel meint.“
Konur alltaf að hugsa um fólkið sitt
Önnur aðalpersóna er að byrja nýtt líf úti á landi, ætlar losa sig undan ömmuskyldunum og rekstri fyrirtækis og njóta lífsins á sínum forsendum. Sem sé togstreita milli þess sem ætlast er til af konum, það mynstur sem þeim er ætlað og þess sem þær sjálfar vilja. Þetta virðist algengt þema í bókum þínum. Hvers vegna?
„Af því að konur eru upp til hópa sífellt að hugsa um fólkið sitt og það hamlar þeim! Vissulega gefur það þeim líka heilmikið en er kannski ekki alltaf án fórna. Sömuleiðis eiga margar hverjar erfitt með að þiggja aðstoð eða biðjast ásjár, eiga erfitt með að setja sínar þarfir framar þörfum barna sinna og barnabarna. Almennt séð finnast mér konur áhugaverðar og kvennamenning og femínismi stundum eins og bitar í púsli sem falla ekki sjálfkrafa hvor að öðrum og varla að idealískri heimsmynd,“ segir Benný Sif að lokum. Hún er um þessar mundir á ellefu daga hringferð um landið með öðrum rithöfundi, Ásu Marin, að lesa upp úr og kynna söguna sem hún segir í Speglahúsinu. En þar dvelur höfundur ekki bara í fortíðinni heldur einnig meðal nútímafólks með símann gróinn við fingurna. Fólks sem endurskapar raunveruleika sinn á samfélagsmiðlum og vænta má að þar sé að finna nokkuð skrumskælda spegilmynd af daglegu lífi þess.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.