Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Ég er þreytt, reið en kannski mest hissa. Ég veit að ég á ekki að skrifa þegar ég er reið en ætla að gera það samt. Ég er meðal þeirra sem eru stimpluð sem afgangsstærð þjóðfélagsins. Ég er á biðlista eftir valkvæðri aðgerð. Stundum finnst mér einn staf vanta í orðið en það er bókstafurinn k – kvalkvæð aðgerð. Ég kalla ekki allt ömmu mína, en biðin á þessum lista tekur sannarlega toll af lífsgæðum.
Ég hlustaði á Silfrið á dögunum þar sem biðlistarnir voru ræddir. Tveir þátttakendur gerðu hálfgert grín af þessum lista. Þeir væru svo ungir að þetta kæmi þeim ekki við. þriðji var að agnúast út í að ríkið hefði samið við einkafyrirtæki sem væri út í hött. Heilbrigðisráðherra bætti litlu við umræðuna.
Sjúkratrygginar ríkisins voru í fréttum í vikunni. Stofnunin birti yfirlit yfir aðgerðir sem hafa verið gerðar hjá einkafyrirtækjum á þessu ári og þar með stytt hina alræmdu biðlista. Enn eru þeir hins vegar langir. Ég fékk spurningaskema frá Heilsuvernd í lok október þar sem mér var boðin aðgerð fyrir lok árs. Vildi ég þiggja það? Ég átti val um tvö einkafyrirtæki sem Sjúkratryggingar höfðu samið við. Það stóð ekki á svarinu mínu. Hvort ég vildi!! Næsta dag fékk ég upphringingu frá fyrirtækinu og þetta staðfest. Læknirinn hringir á eftir til þess að ákveða aðgerðardag, sagði stúlkan. Símtalið kom ekki. Nokkrum dögum seinna fékk ég tölvupóst þar sem læknirinn lýsir þessu útspili Sjúkratrygginga sem pólitískum ómöguleika. Fyrirtækið hans hafi lofað að taka að sér 100 aðgerðir það sem eftir lifir árinu en ég sé ekki búin að vera nægilega lengi á lista til þess að komast að. Því miður. Kannski í næstu lotu á nýju ári.
Þetta vekur upp spurningar um þessa biðlista. Á sínum tíma setti heimilislæknirinn mig á biðlista á fleiri en einum stað til þess að auka líkur á því að ég kæmist einhvers staðar að. Er það bara ég sem er margskráð? Varla. Hve eru margir á listunum búnir í aðgerð á annari sjúkrastofnun? Hve margir eru dánir og þar með hættir biðinni? Ef Sjúkratryggingar treystu sér til þess að lofa öllum biðlistahópnum aðgerð fyrir áramót er margt sem bendir til þess að sú stofnun hafi ekki yfirsýn yfir stærð hópsins.
Í síðustu viku fékk ég upphringju frá sjúkrastofnun á suðurvestur horninu. Viltu koma í aðgerð 30. nóv.? Ég þakkaði boðið fagnandi og fór að gera mín plön. Panta gistingu og skipuleggja. Þá kom annað símtal. Við þurfum að fresta aðgerð um eina viku. Já, já. Allt í lagi. Biðlistafólkið hefur ekki leyfi til þess að hafa neinar skoðanir. Bara að segja já og þiggja það sem að þér er rétt.
Kunningi minn þurfti á „valkvæðri“ aðgerða að halda. Hann býr í Reykjavík. Hann fór á biðlista og var loks sendur til Akureyrar. Ég fór á biðlista hér á Akureyri en er nú að fara suður í aðgerð. Ég hlakka ekki til ferðarinnar heim með samansaumaða rasskinnina í vetrarfærðinni daginn eftir aðgerð. En ég segji bara já.
Þessa dagana eru frambjóðendur að lofa öllu fögru. Ég myndi kjósa þann flokk sem lofar að gera ítarlega úttekt á hinum raunverulegu biðlistum og hvort ekki væri hægt að koma á betra skipulagi og samvinnu milli þeirra sem sinna þessum aðgerðum. Það væri líka æskilegt að frambjóðendur lofuðu líka að hætta þessu þreytandi tuði um það hvort það sé réttlætanlegt að semja við einkareknar stofnanir í þessu lýðræðissamfélagi sem við búum í. Ég er vissum að þeir munu fljótt skipta um skoðun þegar þeir sjálfir verða komnir á biðlistaaldur.
Og svona rétt í lokinn. Margir foreldrar skrá ungabörnin sín á leikskóla strax við fæðingu. Ég legg til að þeir sem eru að komast á eftirlaunaaldur skrái sig strax á biðlista vegna yfirvofandi k-valkvæðra aðgerða.