Skammdegisáætlun í stað áramótaheits

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

 Nýtt ár er byrjað með myrkri, covid og barrnálum í hverri glufu í sparistofunni.  Jólatréið er komið út á safnhaug og skrautið í kassa uppi á háalofti. Gott – enn ein jólin afstaðin!

Áramótin eru oft notuð til þess að strengja heit. Það er vinsælt að ætla að fara í aðhaldsaðgerðir eftir óhóflegt jólaát eða gera janúar áfengislausan, vera betri við börnin eða nota minni tíma á netinu og meiri tíma með fjölskyldunni. Oft verða þessi heit að engu á nokkrum dögum og eftir situr maður í skammdegismyrkinu, spældur yfir eigin veikleikum og því að maður skuli ekki einu sinni geta staðið við áramótaheitið um nýtt og betra líf.

Við sambýlisfólkið ræddum þessi áramótaheit yfir morgunverðinum í dag. Hvorugt okkar höfum haft það fyrir sið að strengja áramótaheit. Við vorum sammála um að kannski væri betra að gera nokkurs konar áramótaáætlun. Þessi áæltun ætti að fela í sér skipulag yfir janúar og febrúar, þessa löngu og dimmu mánuði, þegar ekkert skemmtilegt er í sjónmáli. Skipulagið ætti að vera lagskipt. Í einu hólfinu væru viðburðir, heimagerðir eða ekki, eitthvað sem hægt væri að hlakka til í hverri viku auðvitað með covid-grýluna í huga. Tillögurnar þarna voru bíóferðir, bókun í nudd, heimsókn í næsta bæjarfélag þegar veður leyfir, morgunverður í bænum eða kvöldverður eða kaup á nýrri spennandi bók til þess að háma síðdegis. Í öðru boxi væru samfélagsverkefni, heimsókn til einmana frænku, hringja í vin sem hefur misst einhvern náinn, skipuleggja skíðaferð í fjallið fyrir barnabörn og fleira í þeim dúr.

Við hresstumst við þessar umræður og erum núna að vinna að frekari útfærslu á þessari skammdegisáæltun. Að okkar mati hafa jólin með öllu sínu ati og útgjöldum það gildi að desembermánuður líður hraðar en ella og maður gleymir jafnvel myrkrinu.  Svona áramótaáæltun myndi spila svipað hlutverk og hátíðin og létta okkur róðurinn í gegnum þessar löngu vikur sem eru framundan þar til vorið fer að láta á sér kræla.

Við ætlum að festa fullmótað skipulagið á blað og vonum að það verði auðveldara að standa við það en áramótaheit um megrun og annars konar meinlæti. Við hlökkum til þess að gera þessa tilraun og mælum með að fleiri taki þessa hugmynd til skoðunar.

 

Sigrún Stefánsdóttir janúar 17, 2022 07:00