Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Rauði dregillinn var stjörnum prýddur í Los Angeles þegar Golden Globes-verðlaunahátíðin fór fram um helgina og stjörnurnar skörtuðu efnislitlum glanskjólum. Undirrituð fékk kuldahroll í bakið þegar hún horfði út á snjófjúkið í garðinum. En það voru ekki kjólarnir sem voru mér efst í huga heldur sú staðreynd að kvikmyndirnar sem stóðu upp úr munu væntanlega ekki gleðja íbúa höfuðstaðar Norðurlands. Ástæðan er sú að eina kvikmyndahús bæjarins er að loka. Þar með lýkur merkum kafla í menningarsögu bæjarins. Því miður.
Fyrsti karlmaðurinn sem kynnti mig fyrir töfrum bíóhússins var hann pabbi minn. Ég held að ég hafi verið fimm ára. Við sáum teiknimyndina Gosa sem var önnur kvikmyndin sem Disney gerði í fullri lengd. Þessi mynd hafði svo mikil áhrif á verðandi kvikmyndafíkil að við fórum út í miðri mynd. Ég kastaði upp lifur og lungum fyrir utan Nýja bíó í miðbæ Akureyrar. Ég held að pabbi hafi ekki boðið mér aftur í bíó. Ég skil hann vel.
Í fyrsta skipti sem strákur bauð mér út sáum við myndina Blue Hawaii með Elvis Prestley. Mér þótti meira varið í myndina en herrann sem sat við hliðina á mér. Bíóferðirnar með honum urðu ekki fleiri.
Þessar hrakferðir urðu upphafið á löngu og einlægu tilfinningasambandi mínu við kvikmyndir. Besta afþreying sem ég get hugsað mér er að sjá góða mynd. Ég er alæta á myndir. Bíó Paradís í Reykjavík, Grand í Kaupmannahöfn og listræna bíóhúsið í Malaga eru mínir staðir. Í þessum kvikmyndahúsum er hægt að sjá myndir alls staðar að úr heiminum, sem oft eiga eftir að fá verðlaun fyrir gæði.
Hér fyrir norðan hafa stundum rekið á fjörur góðar myndir. Oft eru örlög myndanna þau að þær staldra stutt við vegna þess að gestirnir láta ekki sjá sig. Myndavalið fer svo eðlilega að ráðast af miðasölunni en ekki gæðum. Og síðan ekki söguna meir. Lok, lok og læs.
Ég verð að játa að ég tek góða kvikmynd fram yfir leikhúsferð. Þegar ljósin er slökkt og myndin byrjar að rúlla hverf ég inn í annan heim og skil allar áhyggjur og óleyst verkefni eftir í annarri tilveru.
Á Akureyri voru lengi vel starfrækt tvö kvikmyndahús, Borgarbíó og Nýja bíó. Fyrir nokkrum árum lokaði það fyrrnefnda og nú eru dagar Nýja bíós taldir. Sambíóin eru að hætta rekstrinum og enginn hefur gefið sig fram til þess að taka við. Í þessum höfuðstað Norðurlands búa rúmlega 20 þúsund manns. Ég veit að miklu smærri bæjarfélög úti á landi eru að reka bíóhús. Ég veit ekki hvaða krankleiki þetta. En ég gef mér að ég sé ekki eini bæjarbúinn sem á eftir að sakna þess að geta skroppið í bíó og notið þess að maula popp í djúpu sætinu í dimmum bíósalnum í húsi sem hefur verið bæjarprýði síðan 1929 en er nú að missa hlutverk sitt. Nú fer það að kosta ferð til Reykjavík að fara í bíó.