Ljóðaflokkur eða ballett?

Viðar Eggertsson leikari og leikstjóri skrifar.

 

Fyrir nokkrum árum barst inn á heimili mitt listaverk sem ég hef fyrir augunum alla daga og minnir mig á tímann; tímann sem er að líða og mun hverfa í næstu andrá.

Þetta er textaverk þar sem einfaldlega stendur: ÞAÐ VERÐUR EKKI AFTUR NÚIÐ.

Ég staldra stundum við þetta verk, þessa áminningu. Þau andartök er gott að hugleiða tímann. Hvert fór tíminn? Hversu mikill tími er eftir?

Því er gott að hjafa í huga sem segir í Predikaranum í Biblíunni:

Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma. 

Því er ekki að undra að tíminn og æviskeiðið sé vinsælt yrkisefni skálda. Hvernig við verjum tímanum – já, eða eyðum honum. Hinum knappa tíma lífsins sem okkur hefur verið úthlutað.

Halldór Laxness yrkir fyrir hana Lóu í Silfurtúnglinu vögguvísu sem hún syngur fyrir barnið sitt. Söngurinn ber hana á svið skemmtistaðarins Silfurtúnglsins þar sem hún syngur vögguvísuna fyrir skemmtanaglaða áhorfendur, en gleymir á meðan barninu sem vögguvísan var fyrir. Vögguljóðið byrjar svona:

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,
hvert andartak er tafðir þú hjá mér
var sólskinsstund og sæludraumur hár,
minn sáttmáli við guð um þúsund ár.

Vögguljóðinu lýkur á þessari áminningu um tímann sem er svo hverfull og fljótur að líða:

Já, vita eitthvað anda hér á jörð
er ofar standi minni þakkargjörð,
í stundareilífð eina sumarnótt,
ó alheimsljós, ó mynd sem hverfur skjótt.

Já, það verður ekki aftur núið, um það söng hún Lóa í Silfurtúnglinu, en gleymdi sér þó og missti af hinum raunverulega dýrmætu andartökum, andartökunum sem liðu hjá svo undurskjótt.

Jökull Jakobsson leikskáld skrifaði gjarnan um hinn hverfula tíma í leikverkum sínum. Í einu þeirra, Klukkustrengjum, lætur hann eina persónuna, hann Kristófer bankagjaldkera,  vitna í sífellu í persneska skáldið Omar Khayyám í íslenskri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:

Sjá. Tíminn, það er fugl, sem flýgur hratt.
Hann flýgur máske úr augsýn þér í kveld!

Kristófer bankagjaldkera í leikverkinu Klukkustrengjum dreymdi dagdrauma um að breyta lífi sínu algjörlega. Hver hefur ekki gælt við slíka drauma? Að eitt líf þyrfti ekki að vera helgað einu ævistarfi, því mætti skipta í nokkur áhugaverð líf með því að skipta um ævistarf. Því „Tíminn, það er fugl, sem flýgur hratt…“ og „Það verður ekki aftur núið“.

Kristófer hafði gengið með það lengi í maganum að verða listamaður. Hann var búinn að ganga með það í maganum mjög lengi. Hann var meira að segja með hugmynd að listaverki.

En það stóð hnífur í kúnni eins og þar segir – og sá hnífur var þungur. Og meðan sá hnífur var til staðar gat Kristófer ekki tekið skrefið, stóra skrefið að breyta lífi sínu áður en tíminn flygi úr augsýn hans síðasta ævikvöldið, sem gæti verið fyrr en varði.

Það sem stóð í vegi fyrir að hann tæki skrefið var að hann gat ómögulega gert upp við sig hvort listaverkið sem hann var að vinna að í huganum ætti að vera ljóðaflokkur eða ballett.

Með því að koma sér upp þeim vafa, tókst Kristófer það sem svo mörgum okkar hefur tekist: Að koma sjálf í veg fyrir að við tökum skrefið að kanna nýja stigu og njóta lífsins til fulls – áður en tíminn flýgur okkur úr augsýn, jafnvel í kveld.

Það verður ekki aftur núið!

Viðar Eggertsson janúar 16, 2025 07:00