Vellir eru paradís

 

Bjarni og Hrafnhildur hafa útbúið hlöðuna á Völlum sem einstaklega skemmtilegan veitingasal.

Bjarni Óskarsson, sem gjarnan er kenndur við Nings, og Hrafnhildur Ingimarsdóttir, eiginkona hans, hafa komið sér fyrir á fallegum stað í Svarfaðardal þar sem þau keyptu jörðina Velli árið 2004. Þar eru þau nú stóran hluta ársins og segja hlæjandi frá því að þau kalli heimili sitt stundum huggulegar þrælabúðir. Þau njóta þó staðarins og dásamlegrar náttúrunnar allt í kring ríkulega. ,,Við vorum að leita að sumarbústað þar sem við ætluðum að dunda okkur við ræktun og hitt og þetta en aðstæður hér buðu bara upp á miklu meira,“ segir Bjarni sem er þekktur fyrir dugnað og atorkusemi og með Hrafnhildi sér við hlið getur hann látið drauma rætast. Þau hjónin eiga enn veitingastaði Nings, sem nú eru á fjórum stöðum, en synir þeirra tveir Sigurgísli og Óskar reka þá núna. ,,Þeir koma svo norður og aðstoða okkur í sveitinni þegar mikið liggur við,“ segir Hrafnhildur.

Ætluðu að finna sumarbústaðalóð og dúlla við ræktun

Þau Bjarni og Hrafnhildur eru bæði af höfuðborgardsvæðinu en fengu þá hugmynd, upp úr aldamótunum,

Mikil ræktun fer nú fram á Völlum í Svarfaðardal.

að koma sér upp sumarbústað eins og margir vina þeirra. Þau reyndu fyrir sér nær Reykjavík en ekkert gekk. Þau höfðu þá samband við fasteignasalann Magnús Leopoldsson og báðu hann um hjálp við að finna stað þar sem væri þegar hús fyrir því þau vildu síður þurfa að byrja á að byggja. Jörðin Vellir var þá til sölu og úr varð að Bjarni og Hrafnhildur óku að vetrarlagi norður í skoðunarferð. ,,Við höfðum hvorugt komið í þennan fallega dal áður en við heilluðumst strax að því sem við okkur  blasti og sjáum ekki eftir að hafa komið okkur hér fyrir þótt sé um langan veg að fara frá Reykjavík,“ segir Hrafnhildur og brosir.

Hrafnhildur er menntuð leikskólakennari og starfaði sem slíkur til 2000 þegar hún kom inn í fyrirtæki þeirra hjóna og hefur starfað við hlið Bjarna síðan. ,,Ég sé núna um litlu sveitabúðina á Völlum en Bjarni sér um framleiðsluna,“ segir Hrafnhildur.

Bjarni er lærður þjónn en er að mestu sjálfmenntaður kokkur og hefur

Stemmningin er sköpuð með fallegu umhverfi í hlöðunni á Völlum.

lifað og hrærst í veitingageiranum í langan tíma. Hann hefur komið að fjölmörgum veitingastöðum allt frá því hann opnaði þann fyrsta, American style, árið 1985 ásamt vini sínum og félaga Einari Ásgeirssyni. Veitingastaðir sem Bjarni hefur komið að, svo nokkrir séu nefndir, eru Kaffi Ópera, Kaffi Strætó, Písa og Berlín í Austurstræti,   Gott í gogginn á Laugavegi, Text mex á Langholtsvegi og svo keypti hann Nings fyrir 30 árum eða 1995.

Kirkjujörðin Vellir

Mikil saga fylgir jörð þeirra hjóna en þar er kirkja þar sem fara fram ýmsar athafnir. Þar var Guðmundur góði Arason prestur um tíma áður en hann vígðist til biskups á Hólum en hann var uppi á 12. öld. Af Guðmundi fara margar og merkilegar sögur en það orð fór af honum að hann gæti gert ýmis kraftaverk, læknað sjúka og rekið út illa anda. Hann fór víða, vígði brunna og gerði áheit en Gvendarbrunna má finna víða um land.

Minnismerkið sem þau létu reisa til minningar um Guðmund góða Arason.

Fyrir nokkru reistu þau hjónin Guðmundi góða minnismerki á Völlum. Síðan fengu þau biskupa og presta til að koma og blessa vatnið og nú er hægt að fá vígt vatn að drekka þar sem minnismerkið stendur.

Þau Bjarni og Hrafnhildur stofnuðu minningarsjóð í nafni Guðmundar góða og hafa úthlutað úr honum jólamáltíðina fyrir 10 – 15 fjölskyldur í nokkur ár. Þau hafa falið prestinum á Völlum að úthluta úr sjóðnum.

Stærsti sólberjaakur á Íslandi

,,Við erum að rækta grænmeti og ber í sjö gróðurhúsum og

Krakkarnir í Dalvíkur- og Árskógsstrandarskóla stóðu sig vel í sólberjatínslunni á Völlum daginn fyrir fyrstu snjóa. Daginn eftir var allt á kafi og Vallarbændur voru mjög þakklátir krökkunum.

erum með eina sólberjaakurinn á Íslandi enn sem komið er. Við bjóðum fólki að koma og tína sólberin og kaupa af okkur en svo bjóðum við þeim líka að koma og tína berin fyrir okkur og við kaupum þau af þeim,“ segir Bjarni. ,,Við vinnum úr hráefninu, búum til sultur og fleira og seljum beint til kaupenda og á veitingahús. Svo erum við með lítinn veitingastað sem við köllum Bræðraskemmuna og þar getum við tekið á móti hópum allt að fimmtíu manns,“ segir Bjarni.

Veitingaeldhús í dásamlegri náttúru

Á Völlum reka þau litla sveitabúð þar sem þau hjónin eru með ræktun og framleiðslu sína til sölu. Þar selja þau mjög fjölbreyttar vörur eins og reykta osta, reykta heiðagæs og -bleikju, sultur, chutney, súrkál og ýmislegt fleira góðgæti.

Litla sveitabúðin á Völlum.

,,Þetta þykir spennandi og hefur undið upp á sig,“ segir Hrafnhildur og er ánægð með árangurinn þótt þetta hafi kostað mikla vinnu.

Undirbúa komandi vertíð

Hrafnhildur og Bjarni safna kröftum fyrir komandi vertíð.

Þegar viðtalið var tekið voru þau Bjarni og Hrafnhildur stödd á Kanaríeyjum þar sem móðir Bjarna býr og þau fara reglulega að heimsækja. Nú þegar líður að sumri er kominn tími til að koma heim og undirbúa sumarið. ,,Þá þurfum við að fara að planta og sá fræjum og undirbúa komandi vertíð. Vellir voru kúabú þegar við keyptum jörðina en við breyttum fjósinu fljótlega í fullkomna matvælavinnslu með öllum græjum. Þar er mikið að gera við alls konar framleiðslu allt sumarið og alveg fram að jólum,“ segir segja þau hjón og bæta við að þau séu nú búin að safna D vítamíni og kröftum í sólinni á Kanarí og tilbúin í slaginn heima á Íslandi.

Þessi kröftugu hjón lifa lífinu sannarlega lifandi og hafa nýtt

þá möguleika sem þeim hafa boðist í gegnum tíðina.

Starfsemin hefur vaxið gífurlega á nokkrum árum á Völlum sem þau hjónin kalla huggulegar þrælabúðir.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 17, 2025 07:00