Ef þú ert í þeim hópi sem hefur verið að velta fyrir þér af hverju það er ekki jafnauðvelt og áður að einbeita sér að einum hlut í einu í langan tíma þá ættir þú að lesa bókina, Horfin athygli, Hvers vegna er svo erfitt að einbeita sér og hvað er til ráða? eftir Johann Hari. Sú kynslóð sem nú telst sú elsta í landinu man tíma þegar langar skáldsögur voru lesnar á einu kvöldi, fólk sat límt yfir bíómynd í sjónvarpinu og þurfti ekkert hlé, setið var yfir nokkur þúsund bita púsluspili, saumað út, málað og prjónað ekki bara í klukkutíma heldur tvo, þrjá og jafnvel fjóra. Í dag er nokkuð öruggt að enginn endist það lengi við eitt verkefni og eldra fólkið finnur líka fyrir því að einbeitni þeirra fer minnkandi.
Johann er líka höfundur bókarinnar Lost Connection en þar rannsakar hann á svipaðan hátt og gert er hér tengslaleysi samtímans og einmanaleika. Hér einbeitir hann sér aftur á móti að því að kanna áhrif skjánotkunar, umhverfis, mataræðis og samskipta á það hversu illa okkur gengur að halda athygli og einbeita okkur að flóknum verkefnum. Líkt og hann bendir á telja flestir nútímamenn sig geta gert tvo og jafnvel þrjá hluti í einu, þetta er kallað að multitaska en Johann sýnir fram á að rannsóknir hafi sýnt að sá sem multitaskar gerir alla hluti illa. Hann byrjar á að rekja hvernig rannsóknir vísindamanna hafa sýnt að einbeitingartími manna hefur styst umtalsvert síðustu áratugi.
Hann sýnir einnig fram á hvernig samfélagsmiðlar eru beinlínis hannaðir til að draga fólk inn og halda því föstu. Fyrirtækin safna upplýsingum um okkur, áhugamál og það sem kveikir athygli okkar og sendir okkur meira af slíku og ekki bara meira heldur svæsnari dæmi í hvert eitt sinn. Aza Raskin fann upp leið til að hægt væri skrolla eða skruna endalaust niður síðurnar á vefnum og þar með vorum við öll föst í snörunni. Allir þekkja að ætla aðeins að kíkja á netið og fyrr en varir eru liðnir tveir tímar. En munurinn á því að lesa bók í tvo tíma og surfa netið jafnlengi er að bókin færir ró, hún kveikir á hugsun þinni og krefst einbeitingar en netið er síbreytilegt og við festum sjaldan hugann við neitt af því sem fyrir augu ber, við höldum bara áfram að skrolla.
Tæknimenn með samviskubit
Það kemur einnig fram að Aza sjálfur og nokkrir fleiri forritarar og hönnuðir í Sílikondal hafa snúið baki við iðnaðnum og reyna að vinna gegn því sem þar er í gangi. Þeim blöskrar hvernig þekking á sálfræðilegri uppbyggingu mannsins er beinlínis notuð til þess að gera hann háðan tækninni, breyta hegðun hans, viðhorfum og gildum. Nýjasta dæmið er hvernig stuðningsmönnum Trump tókst í kosningabaráttunni að fá jafnvel innflytjendur af suður-amerískum uppruna til að kjósa Trump þótt yfirlýst markmið hans og stefna væri að flytja þau öll úr landi. Annað dæmi er Bolsonaro í Brasilíu. Það er ekkert siðlegt við þær aðferðir sem tæknigeirinn beitir og það virðist ekki líklegt að neitt komi til með að stoppa þá á næstunni. Það vantar ekki að farið var af stað með góð áform og hugsjónir í farteskinu. Facebook var ætlað að auðvelda fólki að halda tengslum ekki rjúfa þau. Aðrir samfélagsmiðlar höfðu svipuð markmið en fljótlega kom í ljós að auglýsendur höfðu áhuga á að koma á framfæri vörum sínum og þeir kosta þessa miðla í dag. Það er vert að spyrja sig hvernig myndu þeir líta út ef fólk keypti af þeim áskrift fyrir sanngjarna upphæð? Væru efnistökin önnur og jafnvel sumt af því efni sem ber fyrir augu í dag alls ekki á boðstólum?
En það er ekki bara græðgi eigenda tæknirisanna sem hafa skaðað athyglisgáfuna og einbeitingarhæfni mannsins. Johann leiðir okkur í gegnum áhrif breytinga á umhverfi okkar, mataræði og lífsháttum hefur beinlínis skilað þessu. Hann talar um samspil streituvaldandi þátta í umhverfi barna og einkenna ADHD, hann sýnir fram á aukefni í mat hafa sömuleiðis áhrif á getu manna til að hugsa og hvernig streitan sem við fullorðna fólkið búum við rænir okkur allri getu til að vera með athyglina í lagi. Sú staðreynd að víða á Vesturlöndum eru börn hætt að leika sér frjáls og eftirlitslaus hefur einnig áhrif á þroska þeirra og eðlilega uppbyggingu þekkingar og hæfni. Í Bandaríkjunum er fólk svo hrætt um börnin sín að þau fá ekki að ganga ein í skólann, ekki vera ein úti að leika sér og sjaldan gera eitthvað upp á eigin spýtur. Skólakerfið er enn fremur hannað til að setja hömlur á frjálsan leik barna og þetta er gert þrátt fyrir að við vitum að börn læra mest og best í gegnum leik.
Það þarf að lesa þessa bók hægt. Það er ekki hægt að taka inn allt það sem hér er farið ofan í öðruvísi. Líklega hefur hæfni mín til athygli og einbeitingar beðið hnekki síðustu ár en í þessari bók er að finna svo miklar upplýsingar, athyglisverðar kenningar og niðurstöður að það beinlínis verður að gefa sér tíma til að ígrunda þær og skilja. Það er einnig ljóst af lestrinum að í raun er okkur ekki hollt að hafa aðgang að jafnmiklu magni upplýsinga og býðst á veraldarvefnum í einu, því það hefur áhrif á hversu vel okkur gengur að vinna úr þeim og flokka þær. Stöðugt áreiti er einnig mjög skaðlegt heilsu manna og hefur áhrif á minni, athyglisgáfu og einbeitingartíma. Höfundur bendir einnig á að þetta er ekki okkar sök, við sem einstaklingar getum í raun ekki breytt ástandinu. Það þurfa stjórnvöld að gera og sameiginlegt átak þarf til. Stjórnvöld þurfa að auka regluverk í kringum matvælaiðnað, tækni og vinnumarkað en almenningur þarf að sameinast um að hafna þessari eilífu innrás tækni inn í líf fólks og hafna þeim óraunhæfu kröfum sem gerðar eru til okkar í vinnu og einkalífi. Við þurfum að hægja á okkur. Hegða okkur í samræmi við mannlega getu og hætta að trúa að við getum stöðugt bætt á okkur verkefnum og gert allt í einu.
Hann fullyrðir að breytinga sé þörf. Að lífshættir nútímamannsins séu beinlínis að brjóta hann niður og eyðileggja það sem gerði okkur kleift að ná svona langt á þróunarbrautinni eða hugarflug, sköpunargáfa, einbeitingarhæfni og útsjónarsemi. Johann Hari skrifar mjög aðgengilegan texta og hefur einstakan hæfileika til að gera flókna hluti skiljanlega. Hann hvetur alla til að takmarka skjátíma sinn, njóta þess að fara í gönguferðir, lesa eða einfaldlega stara út um gluggann og leyfa huganum að reika. Það er alls ekki nauðsynlegt að vera alltaf að gera eitthvað. Tökum skref í áttina að hægara lífi og byggjum aftur upp hæfni til að vera í flæði sköpunar, með athyglina á einum hlut og einbeitinguna í lagi.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.