Afi fer í heimspeki

Bjarnir Haukur við tökur á myndinni á Spáni

Bjarnir Haukur við tökur á myndinni á Spáni

Kvikmyndin Afinn eftir Bjarna Hauk Þórsson verður frumsýnd eftir tvær vikur. Myndin er byggð á leikritinu Afanum sem var sýnt í Borgarleikhúsinu, en þróuð áfram fyrir hvíta tjaldið. Bjarni Haukur segir að í myndinni sé sjónum beint á gamansaman hátt, að þeim breytingum sem verða á þessu aldursskeiði í lífi fólks. Starfslokin nálgast, börnin festa ráð sitt og afinn þarf að hugsa hlutina uppá nýtt eins og aðrir í sömu stöðu. Til að gera langa sögu stutta, drífur hann sig í háskólann að læra heimspeki. En þegar dóttirin kynnir fyrir honum tilvonandi tengdason verður honum ekki um sel og finnst ráðahagurinn engan veginn dótturinni samboðinn.

Aðspurður hvers vegna hann hafi valið sér þetta yrkisefni, eldri kynslóðina, segir Bjarni að þetta verkefni hafi þróast smám saman. „Ég hef hlustað á vini og félaga mömmu minnar ræða um þetta aldursskeið og mér þykir alltaf áhugavert þegar fólk er að takast á við breytingar. Hvort sem það er förðurhlutverkið, það að eldast, gifta sig eða annað“, segir hann. „Það var nýlega fjallað um fólk sem komið er á eftirlaun í bandaríska þættinum 60 minutes og það var mjög áhugavert. En það er samt eitt sem þarf að hafa í huga, það er ekkert endilega hægt að setja alla í sama hólf. Fólk á þessum aldri er mismunandi, rétt eins og fólk á öllum aldri“.

Ólafur Egill Ólafsson skrifaði handritið að kvikmyndinni ásamt Bjarna Hauki. Tökur hófust í mars og myndin verður frumsýnd 25.september. Sigurður Sigurjónsson fer með hlutverk afans eins og í sýningunni í Borgarleikhúsinu sem var einleikur. Sigrún Edda Björnsdóttir fer með hlutverk konu hans. Þorsteinn Backmann leikur yfirmann afans, Tinna Sverrisdóttir leikur dótturina en Steindi Jr. tengdasoninn tilvonandi.

Ritstjórn september 12, 2014 18:02