Tólf ára afmælishátíð Hannesarholts

Blásið verður til afmælishátíðar í Hannesarholti laugardaginn 8. febrúar í tilefni af því að 12 ár eru liðin frá því að menningarhúsið hóf starfsemi í síðasta heimili Hannesar Hafstein, á Grundarstíg 10. Í húsinu hefur verið rekin fjölbreytt menningarstarfsemi þessi ár, með aðkomu fjölda listamanna, fræðimanna og leikmanna. Á síðasta ári til að mynda voru menningarviðburðir 106 og þar af voru 54 án endurgjalds. Það er eitt af leiðarljósum í starfsemi Hannesarholts að húsið sé opið öllum og ekki sé nauðsynlegt að taka upp pyngjuna til að njóta þess sem Hannesarholt hefur uppá að bjóða.

Afmælisdagurinn verður engin undantekning. Alls verða fernir viðburðir þann daginn, sem spanna upplestur úr bókum kl.11.30, fjöldasöng kl.14, afmælishátíð kl.16 og loks tveggja rétta afmæliskvöldverð kl.18, sem er sá eini þessa viðburða sem kostar inná.

Í Bókviti, upplestrarviðburðinum kl.11.30, lesa úr bókum sínum rithöfundarnir Helen Cova, Valur Gunnarsson, Illugi Jökulsson og Valgerður Ólafsdóttir. Syngjum saman kl.14 er stýrt af  Svönu Víkingsdóttur og Hvassófjölskyldunni, þar sem textar birtast á tjaldi og allir syngja með. Afmælisfögnuður kl.16, þar sem sérstakir gestir verða Einar Thorlacius, formaður Hollvina Hannesarholts, Níels Thibaud Girerd, leikari og skemmtikraftur og Kjartan Valdimarsson píanóleikari. Öll velkomin, léttar veitingar.

Afmæliskvöldverðurinn kl.18 er í höndum verðlaunakokkanna Sindra Guðbrands Sigurðssonar og Sigurjóns Braga Geirssonar í Flóru veisluþjónustu, samstarfsaðila Hannesarholts. Miðasala á kvöldverðinn er á tix.is

Ritstjórn febrúar 6, 2025 07:00