Nístandi veruleiki fátæktarinnar

Gröf minninganna eftir Bjarka Bjarnason er skáldsaga byggð á uppvexti konu hans, Þóru Sigurþórsdóttur listakonu. Þetta er saga af veruleika fátækts fólks í Reykjavík á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Margt er svo sláandi að manni finnst ótrúlegt að ekki sé lengra um liðið en raunin er.

Stúlkan í bókinni elst upp í Brúnkugróf í húsi byggðu af vanefnum. Þar er saggi, músagangur og baðaðstaða engin. Hún og systir hennar finna engu að síður margt að gleðjast yfir eins og börnnum er tamt. Náttúran í í dalnum fyrir neðan, fisksalinn sem kemur tvisvar í viku og mannlífið í kofaskriflunum í kringum húsið þeirra. Stúlkan er næm, listræn í sér og skynjar umhverfi sitt á annan hátt en aðrir. Pabbi hennar hverfur reglulega með leigubíl á föstudögum og skilar sér illa til reika einhvern tíma eftir helgi þar til dag nokkurn að hann kemur ekki aftur. Lengi telur hún hann látinn. Móðirin gerir sitt besta, ræður sig ráðskonu í sveit og þar ber fyrir barnssálina margt bæði sárt og gott. Bóndinn á í ástarsambandi við ráðskonuna og ákveður að flytja suður til að stofna heimili með henni, dætrunum tveimur og barni sem þau eiga í vonum en líka hann lætur sig hverfa.

Það er nokkuð augljóst frá fyrstu stundu að Brúnkugróf er Blesugróf en þar byggðist upp hverfi fólks í húsnæðisvanda áður en Breiðholtið varð til. Þarna er minnst á kastala Óskars Magnússonar og Blómeyjar Stefánsdóttur. Systurnar kíkja á gluggann og sjá konuna hlekkjaða við eldavélina. Óskar varð að sætta sig við kastali hans var jafnaður við jörðu til að leggja Breiðholtsbrautina og þá fluttu hann og Blómey upp í Hellisheiði og voru þar í mörg ár við aðstæður sem þættu vart mönnum bjóðandi í dag.

Sagan er feikilega vel skrifuð og lýsir einstaklega vel einmanaleika og varnarleysi barns í þessum aðstæðum. Óneitanlega koma upp í hugann bækur á borð við Hljóðin í nóttinni eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttur og Undir kalstjörnu eftir Sigurð A. Magnússon. Það nístir mann inn að hjartarótum að hugsa til þess að enn í dag búa börn við aðstæður sem þessar. Hinir fullorðnu glíma við vanda sem þeir ráða ekki við og það kemur fyrst og fremst niður á börnunum. Þau eiga ekki annars kost en að þreyja allt það sem foreldrarnir bjóða þeim upp á. Gröf minninganna er eftirminnileg saga og vekur með lesandanum löngun til að breyta því félagslega óréttlæti sem veldur því að börn þurfa að alast upp við jafnömurlegar aðstæður.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 23, 2025 07:00