Í litlum bæjum eru alltaf sögur á sveimi og fátt sem hægt er að halda leyndu. Ann Cleeves nær á einstakan hátt að skila undiröldunni og þeirri þöglu ógn sem skapast þegar konan sem flestir trúðu að væri morðingi reynist saklaus eftir allt saman. Sögur á sveimi er nýjasta bókin um Veru Stanhope og er frábærlega skrifuð glæpasaga þar sem allar helstu persónur hafa einhverju að leyna og þótt yfirborðið sé kyrrt eru straumarnir þungir undir niðri.
Emma Bennett er sú fyrsti íbúi þorpsins Elvet sem við kynnumst. Hún er nýorðin móðir en litli drengurinn hennar, Matthew og James hinn trausti eiginmaður hennar eru ekki nóg. Hún situr löngum við svefnherbergisgluggann og lætur sig dreyma um leikerasmiðinn Dan sem vinnur á verkstæðinu sínu hinum megin við götuna. Hún lætur samt ekkert uppi við aðra. Á yfirborðinu er hún kyrrlát, feimin kona hamingjusöm með mann og barn. Þegar Emma var fimmtán ára fann hún lík bestu vinkonu sinnar í skurði rétt hjá heimili sínu og það er eins og tíminn hafi að sumu leyti stöðvast hjá henni við það.
Allt breytist þó þegar Jeanie Long, konan sem dæmd var í fangelsi fyrir morðið fremur sjálfsmorð og vitni gefur sig fram sem getur staðfest fjarvistarsönnun hennar. Lögreglukonan Vera Stanhope mætir í þorpið og fer að reka nefið í tengsl fólksins, hvernig þau raunverulega voru og hvað gerðist áður en til morðsins kom. Ýmislegt tekur að rifjast upp fyrir Emmu og smátt og smátt verður ljóst hvers vegna hún og James eru fjarlægjast hvert annað ógnarhratt og hvers vegna Emmu líður aldrei vel á æskuheimili sínu.
Einmanaleiki og tilfinningakuldi
Hér eru mörg skemmtileg undirþemu, meðal annars vinasambönd unglinga. Á þessum viðkvæmu árum er mikilvægast af öllu að eiga vin, besta vin eða vinkonu en stundum ristir vináttan ekki djúpt. Annar aðilinn er við stjórnina og er ekkert sérlega góður við hinn. Unglingar og börn eru óþroskuð, hvatvís og kunna ekki fótum sínum forráð en þau geta einnig verið útsmogin, illkvittin og frek. Skilningur þeirra á hvað þau eru að gera er takmarkaður. Emma er ein af þeim sem lætur að stjórn og hefur kannski aldrei alveg fullorðnast. Einmanaleiki og hvernig foreldrar og börn ná ekki að tengjast, ekki vera heiðarleg gagnvart hvert öðru og hvernig tilfinningar kólna eru líka þemu sem vert er að kíkja eftir í þessar bók.
Við kynnumst einnig Michael Long, föður Jeanie. Hann er strax tilbúinn að trúa að dóttir hans hafi framið morð og yfirgefur hana jafnvel þótt hún hafi alltaf haldið fram sakleysi sínu. Hann hefur lokað sig af og leikur af snilld hlutverk píslarvottsins, fórnarlambsins en þarf svo að horfast í augu við að hann hafði rangt fyrir sér. Hann reynir að bæta fyrir brot sín þótt seint sé og myndar einhvers konar vináttusamband við Veru og leitast við að hjálpa henni að leysa málið. Auk þess koma við sögu lögreglumennirnir sem upphaflega rannsökuðu málið og þar var augljóslega ýmislegt vanrækt og ekki farið nægilega vel í saumana og ýmsum hliðum þess.
Vera er ótrúlega vel mótaður og skemmtilegur karakter. Samtöl hennar við grunaða og aðra aðila máls eru snilldarlega skrifuð og það lifnar yfir bókinni þegar hún gengur inn á sögusviðið og tekur stjórnina. Hún er einmana kona með sérstök tengsl við náttúruna og Elvet er einmitt þorp af því tagi sem hún skilur einstaklega vel, einangrað, fábreytt og háð náttúruöflunum. Vera á sér marga aðdáendur og það er vel verðskuldað. Nýlega bárust þær fréttir frá Bretlandi að Brenda Blethyn hefði leikið Veru í síðasta sinn í sjónvarpsþáttunum gerðum eftir bókunum en vonandi verður það ekki endirinn á sjónvarpsþáttum um þessa frábæru persónu. Sögur á sveimi er eins og aðrar bækur Ann Cleeves áhugaverð, vel fléttuð og einstaklega vel skrifuð.