Tengdar greinar

Félagsheimili – vettvangur menningar og mannlífs

Flestir af eldri kynslóðinni í landinu eiga margvíslegar minningar af félagsheimilum úti á landi. Þar voru fermingarveislur ættingja, brúðkaup, erfidrykkjur og sveitaböllin. Nú og söngskemmtanir, leiksýningar, skyggnilýsingar og hagyrðingakvöld. Allt áhugaverð afþreying. Vala Hauksdóttir hefur nú endurvakið tilfinninguna og stemninguna sem ríkti í þessum húsum sem mörg hver standa nú auð og niðurnídd. Sum stendur meira að segja til að rífa.

Vala sagði í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni að hún hafi lengi verið heilluð af félagsheimilum og kveikjan að bókinni hafi einmitt verið hnignun þeirra. Mörg þeirra hafi borið nöfn á borð við Logaland eða Heimaland og þess vegna hafi henni fundist titillinn Félagsland eiga vel við. Og það er rétt en mörg báru einnig borg, garður, búð eða tunga í nöfnum sínum. Þannig var gefið til kynna að þar væri vettvangur eða svæði út af fyrir sig þar sem fólk gæti skemmt sér í öruggu skjóli.

Grunninn að byggingu félagsheimila má rekja til ungmennafélaganna og góðtemplara. Trúin á framfarir og samfélag þar sem samvinna og stuðningur milli manna væri ríkjandi einkenndi þann félagsskap og af heitum hugsjónaeldi og dugnaði fólksins sem knúði þessi félög áfram voru félagsheimilin byggð og sveitir landsins nutu góðs af áratugum saman. Þar voru lestrarfélögin til húsa, kvenfélögin, Kiwanisklúbbarnir og Lions og allir gátu látið að sér kveða. Í raun merkilegt að ekki hafi einhver stigið fram fyrr og gefið félagsheimilunum þann gaum sem þau eiga skilinn fyrr en nú.

Vala hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2024 og hún hefur sjálf búið úti á landi er fædd á Húsavík og ólst upp á Hvanneyri í Borgarfirði. Þegar hún var unglingur bjó hún á Selfossi og þar býr hún í dag. Hún þekkir þess vegna félagsheimili mæta vel og gerir þeim góð skil á ljóðrænan hátt í þessari skemmtilegu ljóðabók. Þess má geta að bókin er myndskreytt með myndum úr samkomum í félagsheimilum og það gefur henni aukið líf.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 20, 2025 09:42