Maríanna Friðjónsdóttir sjónvarpsframleiðandi

„Ég hef búið meira og minna í ferðatösku undanfarin ár. Ferðast um með 20 kíló, að meðtaldri skrifstofu, og get hvorki safnað fötum né skóm. Ég lifi mjög einföldu lífi enda trúi ég því að menn geti sleppt því að sanka að sér dóti“, segir Maríanna Friðjónsdóttir, sem svarar símtali frá blaðamanni Lifðu núna, í Danmörku. Hún segist vera stafrænn flækingur, sem er íslensk þýðing á ensku orðunum „digital nomad“. „Það þýðir að ég hef skipað mér í hóp fólks sem þvælist um heiminn og vinnur hvaðan sem er og hvenær sem er. Þetta er skemmtilegt og gerlegt nú. Ég vil helst vera í Suður-Evrópu, en fyrir 10 árum var internetsamband ekki nægjanlega gott á þeim slóðum. Ég get á þennan hátt sameinað vinnu og að ganga um og upplifa ný áreiti, sem mér finnst nauðsynlegt. Það er þó fyrst og fremst yngra fólk, sem skilgreinir sig sem stafræna flækinga. Ekki margir á mínum aldri, en miklu fleiri ættu að prófa”.

„Síðustu vetur hef ég svo dvalið í Portúgal með mömmu minni. Við höfum farið í október og komið heim í lok mars. Mamma ræktar rósir í desember og ég sinni vinnunni þaðan. Á sumrin hef ég prófað að taka portúgölskunámskeið í Háskólanum í Coimbra. Þar hittist fólk frá öllum heimshornum til að læra málið, en ég komst ekki í sumar, því það var allt of mikið að gera hjá mér,” segir Maríanna sem byrjaði að vinna hjá Ríkissjónvarpinu þegar hún var 16 ára. Þegar hún var tvítug tók hún við sem útsendingarstjóri frétta og dagskrárgerðarmaður.

„Ég var svo heppin að fá tækifæri til að vera hluti af þeim hópi sem fékk að finna upp íslenskt sjónvarp“, segir hún, en meðalaldur starfsmanna Sjónvarpsins var 25 ár, þegar Maríanna hóf þar störf.

Hún segir að það hafi ekki verið auðvelt fyrir unga konu að fara í starfið, en hún sérhæfði sig fljótlega í stórum, beinum sjónvarpsútsendingum. Hún varð fyrsti framleiðslustjóri Stöðvar 2 og var síðan boðið starf við danska sjónvarpsstöð sem framkvæmdastjóri dagskrárgerðar og sinnti því þar til Internetið kom. “Svo tók netið líf mitt meira og minna yfir” segir hún, ánægð með ferilinn.

„Þetta hefur alltaf verið skemmtilegt og ég hlakka til að vakna á hverjum morgni og byrja að vinna“, segir hún og bætir við að hún hafi alltaf haft gaman af að ýta nýjum hlutum úr vör. „Ég er svo heppin að hafa lifað ótrúlega skemmtilegu lífi og get ekki sagt að ég sé ánægðari með eitt starf umfram annað. Þetta hefur allt saman verið svo skemmtilegt“.

Maríanna hefur sérhæft sig undanfarinn rúman áratug í að kenna fyrirtækjum að markaðssetja sig á samfélagsmiðlum. Hún kemur til Íslands haust og vor og heldur námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands og Símennt Háskólans á Akureyri. Hún þjónar einnig minni og meðalstórum fyrirtækjum og félagasamtökum og veitir þeim aðgang að þekkingu, sem þau ella hefðu ekki aðgang að.

„Ég hef 50 ára reynslu í fjölmiðlum og framleiðslu efnis á lifandi hátt. Framleiðsla efnis fyrir samfélagsmiðla er sama dæmið, hér er ekki verið að finna upp hjólið. Netið var bara ekki tilbúið tæknilega fyrir lifandi miðlun fyrr en á síðustu árum”, segir hún.

„Ég er á móti neyslusamfélaginu en ég vil snúa vopnunum í höndum risanna sem eru að taka líf okkar yfir, stórfyrirtækja á borð við Nestlé og nota sömu hugmyndafræði til að hjálpa minni aðilum, sem ekki hafa efni á sömu þjónustu og þau. Ég rek litla fyrirtækið mitt frá Danmörku, þar sem ég er með fast heimilisfang, en sinni viðskiptavinum á Íslandi, í Danmörku og víðar. Þetta er í bland samfélagsmiðlar, aðferðafræði og framkvæmd og svo vefsíðugerð. Heilsuborg var t.d. að fá nýja útgáfu af sinni vefsíðu og svei mér ef Grái Herinn fer ekki að komast í loftið.”

Maríanna sem er 65 ára, er orðin opinber eldri borgari í Danmörku. “Ég er mest þakklát eins og er fyrir að geta sinnt mömmu minni og komist líka þannig í nánd við það hvernig fólk eldist.” Hún segir að á Íslandi og í fleiri samfélögum hafi samningurinn milli kynslóðanna verið rofinn, þegar kemur að eldra fólki.  „Þegar við erum lítil er okkur sinnt,  á miðjum aldri sinnum við mest okkur sjálfum, en þegar við verðum gömul er okkur hent í ruslið“, segir hún. „Í Portúgal búa fjórar kynslóðir saman án vandræða og þegar ég segi frá því þar hvernig farið er með eldra fólk þarna norðurfrá, verða vinir mínir hissa. Eldra fólk nýtur alúðar fjölskyldunnar og virðingar fram á síðasta dag. Við á Íslandi höfum rofið þennan samning”.

Maríanna er sannfærð um að það sé ekkert mál að breyta lífinu. “Enginn þarf að lifa í sjúklegri græðgi með fjóra snjósleða í bílskúrnum eða 100 pör af skóm inni í skáp. Þá er maður ekki að lifa lífinu fyrir sig, heldur önnur öfl”, segir hún.

 

Ritstjórn september 4, 2019 07:29