Á því er enginn vafi að borgarastríð skilur eftir sig djúp sár sem aldrei gróa. Almudena Grandes, einn athyglisverðasti og besti rithöfundur Spánar, sagðist sjálf í eftirmála bókar sinnar, Drengurinn sem las Jules Verne, hafa verið nánast heltekin af borgarstyrjöldinni á Spáni eða eiginlega eftirköstum hennar. Bókin fjallar um tortryggnina, reiðina, hatrið, hugrekkið, mannúðina og ástina en líka að vera fastur milli tveggja elda og eiga aldrei þá valkosti sem maður sjálfur vildi helst velja.
Nino elst upp í búðum þjóðvarðliða í Fuensanta de Martos, smábæ í fjöllunum í Andalúsíu, og er níu ára árið 1947 þegar sagan hefst. Æska hans hefur verið nokkuð viðburðasnauð og hamingjurík fram að þessu. En nú þarf Nino að taka að sér að syngja fyrir litlu systur sína þegar óp, sárbænir, smellir og önnur óhugnanleg hljóð berast gegnum þunna veggina. Það eru nefnilega enn skæruliðar lýðræðissinna og kommúnista í fjöllunum og enn hverfa ungir menn úr þorpunum upp í fjöllin í kjölfar ýmissa atburða.
Nino er greindur og athugull og skynjar þess vegna mun meira en vinur hans Paquito.
Engu að síður verða vendipunktar í lífi hans þegar hann kynnist Pepe Portúgala, ungum manni sem tekur á leigu gamla myllu í nágrenni bæjarins og doñu Elenu og hinum konunum sem búa á Las Rubias bóndabænum. Þær eiga allar um sárt að binda á einn eða annan hátt vegna stríðsins, hafa misst eiginmenn, bræður og syni. Doña Elena er vel menntuð og á gott bókasafn sem Nino fær að velja sér bækur úr að vild. Þar kynnist hann Jules Verne, Robert Louis Stevenson, þar sem hann kynnist öðrum hugmyndum um hugrekki og réttlæti. Hann les einnig spænska höfunda sem skrifa um söguna frá öðru sjónarhorni en kennt er í þorpsskólanum.
Saga fjölskylduvinar kveikjan að sögunni
Almundena sagði frá því í eftirmálanum að hugmyndin að sögunni hafi kviknað þegar vinur fjölskyldu hennar, Cristino Pérez Meléndez, sagði henni frá því hvernig það var að alast upp sem sonur þjóðvarðliða á árunum 1947-1949. Hún hefur lesið um og rannsakað þetta tímabil í sögu lands síns og talað við bæði fólk sem tók þátt í borgarstríðinu, beggja megin, og afkomendur þess. Hún fléttar inn í söguna staðreyndum um líf manna sem voru til í raun og veru m.a. Tomás Villén Roldán, eða Cencerro, eins og hann var kallaður og hetjunnar Rojo.
Þótt höfundur hafi augljóslega skömm á Frankó, fasistum og harðstjórn þeirra er aðdáunarvert hvernig henni tekst að vekja samúð lesandans með þjóðvarðliðunum, sem neyðast til að skjóta samlanda sína og öðrum íbúum þorpsins sem ekki þora að mynda sér aðra skoðun en þá viðteknu. Hún kafar undir yfirborðið og málar mannlífið í sínum margbreytilegu litum og vekur skilning á tilveru sem litast af ótta og því að þurfa að feta örmjótt einstigi milli þess að halda í sjálfsvirðinguna og komast hjá handtöku. Óréttlát lög eru sömuleiðis til þess fallin að halda sumum örsnauðum en leyfa öðrum að maka krókinn. Staða kvenna og hlutverk í öllu þessu er sömuleiðis gerð einstök skil. Þessi bók er frábærlega vel skrifuð og þýðandi Skúli Thoroddsen á þakkir skildar fyrir að koma henni einstaklega vel til skila.
Höfundur hennar lést aðeins sextíu eins árs árið 2021 en eftir hana liggja fimm skáldsögur sem allar hafa haft gríðarleg áhrif á Spáni. Hún hafði einsett sér að skrifa sex sögur um borgarstyrjöldina og eftirmála hennar. Almudena var bæði dálkahöfundur, útvarpskona og rithöfundur og talaði mjög oft um hvernig tími fasismans virtist gleymdur á Spáni og Spánverjar nútímans vildu sem minnst um hann tala. Það væru meira að segja ákveðnir hópar sem farnir væru að upphefja þennan tíma og fegra hann í stað þess að fordæma glæpaverkin. Enn í dag er talið að um hundrað þúsund manns liggi í ómerktum fjöldagröfum, allt fórnarlömb Frankós. Almudena hefur sterka og athyglisverða rödd og það væri sannarlega áhugavert að fá fleiri bóka hennar þýddar á íslensku.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.