Viti sínu fjær af sorg

Bylur eftir Írisi Ösp Ingjaldsdóttur er áhrifamikil skáldsaga sem kemur verulega á óvart. Hún er í senn áhugaverð, spennandi, sorgleg en jafnframt full af von. Hér er komið inn á hvernig sorg og sektarkennd geta svipt fólk vitinu en jafnframt hversu ófær við erum í raun um að dæma aðra eða lesa í hegðun þeirra.

Við kynnumst í upphafi þeim Bergi og Rögnu og Öldu og Gunna þegar allt leikur í lyndi. Þær eru vinkonur en Bergur og Alda ná ekki saman. Þau tortryggja hvort annað og milli þeirra eru ekki góðir straumar. Bergur er fasteignasali, lærður viðskiptafræðingur, ákaflega agaður og alltaf klæddur í jakkaföt meðan Alda er fremur uppreisnargjörn og á alls ekki gott með að beygja sig undir nokkurn aga. Ragna er klæðskeri og rekur saumastofu og bókstaflega elskar að hanna föt, endurnýta gamalt og gera eitthvað nýtt og spennandi úr gömlu. Gunni er sjálfstætt starfandi kerfisfræðingur, umhyggjusamur, nákvæmur og einstaklega góður gæi. Eiginlega má segja að hann sé afskaplega fyrirsjáanlegur og því óspennandi í augum Öldu, enda verður fljótlega ljóst að hún er hundleið á sambandinu.

Alda vinnur á leikskóla og þar er Daníel sonur Rögnu og Bergs meðal skólabarna. Styrmir, sonur Öldu, er hins vegar á unglingsaldri. En svo verða umskipti í sögunni og hlaupið fram í tímann. Þá er Bergur fallinn og í mikilli fíkniefnaneyslu, Alda flutt frá Gunna í kjallaraíbúð í Reykjavík og Daníel litli dáinn. Einhver keyrði á barnið seint að kvöldi og ók burtu í stað þess að stoppa á slysastað. Bergur er þess fullviss að Alda sé ökuníðingurinn og fylgist með húsinu þar sem hún og Styrmir búa.

Það er eiginlega ekki hægt annað en að gleypa í sig þessa sögu, lesa hana tl enda eftir að hún hefur verið opnuð. Hún er óskaplega spennandi og átakanleg. Þetta er vel unnin bók og persónusköpunin góð og enginn hér algóður eða alvondur. Allir hafa sínar góðu og slæmu hliðar og það er sama hversu varkár manneskjan er hún getur aldrei séð allt fyrir og varið sig áföllum. Það er tæpt á margvíslegum og áhugaverðum málefnum meðal annars glímunni í fíknisjúkdóm, foreldrahlutverkinu og hvernig ástin til barnanna bæði gefur og styrkir og veikir og leiðir fólk stundum í ógöngur. Þetta er athyglisverð blanda af sakamálasögu og skáldsögu því þótt hún hverfist öðrum þræði um glæp eru það samt sem áður persónurnar og samspil þeirra sem halda lesandanum spenntum og glæpurinn verður aukaatriði en afleiðingar hans þess meira grípandi

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.