Sorg og áföll lituðu líf stjörnunnar

Myndir af Connie Francis prýddu veggi unglingaherbergja víða um heim á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hún þótti einstaklega aðlaðandi og röddin svo seiðandi að sumir elskuðu hana, aðrir vildu vera hún og enn aðrir fundu huggun og samsömun í lögunum sem hún söng. Hún átti söluhæstu plötur allra söngkvenna sinnar tíðar og naut einstakrar velgengni í starfi en í einkalífinu rak hvert áfallið annað og hún þjáðist af áfallastreitu stóran hluta ævinnar.

Fyrsta lagið sem sló í gegn, Who’s Sorry Now. Lagið var gamalt, samið árið 1923 og Johnnie Ray söng það fyrst. En Connie gerði það að sínu og eitthvað við tæran hljóminn í röddinni og raddbeitinguna gerði það að verkum að unglingar í ástarsorg um allan heim settu plötuna á fóninn aftur og aftur.  Sumir sögðu að það væri vegna þess að engu væri líkara en hún hlakkaði yfir óförum fyrrverandi kærastans sem hafði svikið hana en fékk nú að kenna á eigin meðölunum. Francis var aðeins nítján ára þegar hún söng þetta og um svipað leyti hitti hún ungan upprennandi lagahöfund, Bobby Darin. Umboðsmaður þeirra beggja, George Scheck ákvað að kynna þau of fá Connie til að syngja lag eftir Bobby.

Þetta var sannarlega ekki ást við fyrstu sýn. Connie leist vel á lagið en söng það með nokkrum breytingum sem hún taldi að yrðu til bóta. Það fór ekki vel í Bobby og hann stormaði burtu ákveðinn í að leyfa þessari stúlku aldrei að syngja neitt eftir sig. „Ég og þessi stúlka dönsum ekki í takt,“ sagði hann eftir fundinn. En líklega hafa hugmyndir hennar verið góðar því nokkrum dögum seinna hafði hann samband við hana aftur og bauð henni að syngja lagið með þeim breytingum sem hún hafði viljað gera. Upp frá því þróaðist samband þeirra hratt og í ævisögu sinni, Among My Souvenirs, segir Connie að Bobby hafi verið einn áhugaverðasti maður sem hún hafi nokkru sinni hitt og stóra ástin í lífi sínu.

Bobby Darin var stóra ástin í lífi Conniear Francis.

Bráðgáfaður tónlistarsnillingur

Bobby var undrabarn í tónlist, lék á fjölmörg hljóðfæri og var auk þess afburðagreindur. Hann glímdi við hjartasjúkdóm eftir að hafa fengið gigtarsótt þegar hann var barn og læknar spáðu honum ekki löngum lífdögum og Connie segir að hann hafi þess vegna gert allt af meiri ákefð, metnaði og aga en aðrir menn. Hann ætlaði að slá í gegn fyrir tuttugu og fimm ára afmælið en um það leyti töldu læknarnir að hann kveddi þennan heim, og hann stóð við það. Metnaður hans var eitt af því sem dró hana að honum en sá hængur var á að pabbi hennar var alfarið á móti sambandi þeirra. Connie var af ítölskum uppruna í föðurætt og faðir hennar var skapbráður og stjórnaði lífi dóttur sinnar með harðri hendi. Það var því full ástæða til að taka það alvarlega þegar faðir hennar ruddist inn á æfingu fyrir The Jackie Gleeson Show og hótaði að skjóta Bobby.

Bobby slapp út um glugga en þegar Connie kom heim þetta kvöld voru eigur hennar í ferðastöskum fyrir utan húsið og hennis agt að þangað inn færi hún ekki nema hún lofaði að slíta sambandinu við Bobby. Faðir hennar neyddi George Scheck einnig til að hætta að vera umboðsmaður Bobbys því hann vildi engin tengsl milli hans og dóttur sinnar. Þau tvö hættu þó ekki að elska hvort annað og í mörg ár skiptust þau á eldheitum ástarbréfum. Í ævisögu sinni segir Connie að hennar stærstu mistök í lífinu hafi verið að giftast ekki Bobby en hann lést 20. desember 1973 aðeins þrjátíu og sjö ára.

Árið 1960, lék Francis í kvikmyndinni, Where the Boys Are, og söng þar samnefnt lag eftir Neils Sedaka og Howard Greenfield. Það sló í gegn en á sama tíma voru að koma fram aðrar söngkonur og söngkvennahópar sem sungu svipuð lög og hún og samkeppnin jókst en hún hélt sínu engu að síður og lagið, No Better Off varð mikill smellur árið 1965. Næst kom My Child og flestir hafa trú á að þar hafi hennar eigin sársauki skinið í gegn en Connie gat ekki átt börn. Hún hafði misst fóstur ítrekað og hún varð óskaplega glöð þegar ung kona hafði samband við hana og bauð henni að ættleiða tveggja mánaða son sinn. Stúlkan var mikill aðdáandi Conniear en var illa stödd og treysti sér ekki til að ala önn fyrir barni.

Nauðgað á mótelherbergi

Sama kvöld og Connie fékk fréttirnar af því að henni byðist barn réðst maður inn í mótelherbergi hennar, ógnaði henni með hníf, batt hana við stól og nauðgaði henni. Hann skildi hana eftir illa farna undir dýnu og minnstu munaði að hún týndi lífinu. Í ævisögu sinni lýsir hún eftirköstum árásarinnar og segir hana hafa haft margháttuð áhrif á líf sitt og hún í raun þjáðst af áfallastreitu upp frá þessu.

Andleg líðan hennar var það slæm að hún átti erfitt með að tengjast syni sínum og var líkamlega ekki fær um að sinna honum. Henni tókst þó að bæta það og þau mæðginin áttu náið og gott samband síðar. Áttundi áratugur tuttugustu aldar gekk í garð og Connie tókst á við margháttaða erfiðleika. Hún sagði opinberlega frá nauðguninni og hótelkeðjan, Howard Johnson Motor Lodges var dæmd til að greiða henni skaðabætur upp á 2,5 milljónir dala en hún samþykkti að lækka þær í 1.475 milljónir en málið varð til þess að öryggisgæsla á hótelum og mótelum í Bandaríkjunum var stóraukin. Nauðgarinn fannst aldrei. Hún hélt áfram að syngja og koma fram í sjónvarpsþáttum en lög hennar náðu ekki inn á vinsældalista.

Connie með syni sínum en þau náðu að þróa náið og gott samband þegar fram liðu stundir.

Ekki byrjaði níundi áratugurinn vel því árið 1981, var bróðir hennar skotinn til bana af leigumorðingja. Hann hafði borið vitni gegn mafíuforingja sem hann hafði unnið fyrir en neitað að undirgangast vitnavernd og því fór sem fór. Francis varð fyrir gríðarlegu áfalli og veiktist andlega. Hún var greind með geðhvörf en sjálf segir hún í ævisögu sinni að það sé ekki rétt sjúkdómsgreining. Hún hafi einfaldlega brotnað undan áfallastreitu. Faðir hennar lét svipta hana sjálfræði og leggja inn á geðsjúkrahús. Hún átti eftir að leggjast nokkrum sinnum inn á slíkar stofnanir fram á tíunda áratuginn. Í þessu sem öðru var Connie frumkvöðull. Hún ákvað að leyna ekki andlegum veikindum sínum og varð talskona samtakanna, Mental Health America og reyndi þannig að hjálpa öðrum í sömu sporum.

Þótt hápunktur ferilsins hafi vissulega verið um miðja síðustu öld þá átti Connie Francis tryggan aðdáendahóp allt sitt líf. Nýlega beindist svo sviðsljósið aftur að henni þegar lagið, Pretty Little Baby sló í gegn á TikTok og milljónir manna streymdu því en það voru þær, Kylie Jenner og Kim Kardashian sem streymdu því. Connie Francis lést þann 16. júlí síðastliðinn, áttatíu og átta ára að aldri.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.