Karlar fara síður til læknis, konur fá síður hjálp

Flestir þekkja líklega þá tilfinningu að vera orkulaus, ónógur sjálfum sér eða með einhverja verki sem koma og fara. Sumir leiða þessi einkenni hjá sér, bíða þess að þau lagist af sjálfu sér meðan aðrir kjósa að fara til læknis og stundum reynist það heillaskref. Rannsóknir hafa sýnt að karlar eru líklegri en konur að draga það að fara til læknis þar til einkennin eru orðin alvarleg en minna mark er tekið á konum í heilbrigðiskerfinu þegar þær lýsa sínum einkennum og þær fá því færri og ónákvæmari rannsóknir en karlarnir.

Það er mjög mikilvægt að greina flesta sjúkdóma snemma, meðferðin verður auðveldari og mun líklegra að sjúklingurinn nái sér hafi þeir ekki fengið að grassera lengi. Nýlegar rannsóknir í Ástralíu og Bandaríkjunum hafa leitt í ljós athyglisverðan mun á kynjunum þegar kemur að viðhorfum þeirra til eigin heilsu. Karlmenn draga mun lengur að fara til læknis og það þótt þeir finni fyrir erfiðum einkennum. Þeir eru því oft mun veikari en konur þegar þeir koma fyrst. Samkvæmt rannsóknunum fara allt að 40% karlmanna helst aldrei til lækna jafnvel þótt þeir glími við heilsufarsleg óþægindi. Helstu ástæður þess að menn leituðu ekki læknis voru eftirfarandi samkvæmt rannsakendum:

  1. Óttinn við að eitthvað alvarlegt væri að eða virðast veikburða.
  2. Þeir voru ekki vanir að panta læknatíma sjálfir eða höfðu ekki leitað til sérfræðilæknis áður og voru óvissir um hvernig ætti að fara að.
  3. Þeir töldu að einkennin myndu lagast. Að þeir gætu sjálfir lagað veikindin.
  4. Þeir töldu að ekkert væri hægt að gera við þeirra tilteknu einkennum.

Konurnar vanræktar

Þetta er auðvitað hættulegt þegar um er að ræða alvarlega sjúkdóma en marga kvilla er hægt að bæta og laga ef menn einfaldlega fara til læknis. Sú staðreynd að karlmennirnir leituðu ekki ráðlegginga hjá sérfræðingum dró oft úr lífsgæðum þeirra og olli þeim ónauðsynlegum verkjum og vandamálum.

Konur á hinn bóginn voru mun duglegri við að leita sér hjálpar hjá bæði læknum og öðrum sérfræðingum innan heilbrigðiskerfisins. Þær fara oft reglulega í árlega heilsufarsskoðun og hér á landi fara konur til að mynda mun oftar í krabbameinsskoðanir, bæði brjóstamyndatöku, stroku vegna leghálskrabbameins og ristilspeglun. Vandamál þeirra er hins vegar að mun oftar er ekki hlustað á þær komi þær til læknis. Einkenni þeirra eru iðulega afskrifuð sem minniháttar eða móðursýki og þær því sendar heim án rannsókna. Í alvarlegustu tilfellum hefur það leitt til dauða en í öðrum til þess að konurnar urðu veikari og þurftu að ganga í gegnum erfiðari meðferðir til að ná sér en ella hefði verið. Rannsóknirnar sýndu að 2,5 ári lengur tók konur að meðaltali að fá krabbameinsgreiningu en karla og 4,5 ári lengur þegar um sykursýki var að ræða.

Samkvæmt rannsóknum áströlsku og bandarísku vísindamannanna fannst allt að 50% kvenna yfir fimmtugu að ekki væri á þær hlustað þegar þær leituðu til lækna en aðeins 30% karla sögðu hið sama. Þær sögðu:

  1. Öll einkenni eru afskrifuð sem streita eða þreyta. Þeim ýmist sagt að hvíla sig eða fara út að ganga.
  2. Ef konur eru í yfirþyngd er þeim bent á að grenna sig.
  3. Þær eru oftar spurðar en karlar hvort þær séu þunglyndar.

Enn í dag eru konur aðeins 30% þátttakenda í vísindarannsóknum er miða að því að finna orsakir sjúkdóma sem og þegar meðferðir eru prófaðar. Mörg lyf á markaðnum hafa aldrei verið prófuð á konum og aukaverkanir þeirra því óþekktar þegar konur þurfa á þeim að halda. Þess má geta að núorðið er kynjamisrétti í viðhorfum heilbrigðisstétta velþekkt og verið að vinna gegn vandanum með markvissum hætti.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.