Ólíðandi skeytingarleysi í garð elsta fólksins í landinu

Skeytingarleysi, aðgerðarleysi, úrræðaleysi, aldursfordómar. Þetta eru orð sem sitja eftir í höfðinu á mér, eftir þáttinn  Kveik í Sjónvarpinu í kvöld. Umsjónarmenn þáttarins eiga þakkir skilið fyrir umfjöllun sína um þetta brýna mál.

Það  var hrikalegt að horfa á þessa samantekt og hvernig stjórnmálamenn hafa áratugum saman skellt skollaeyrum við bænum eldra fólks og aðstandenda þeirra um sjálfsagða þjónustu til handa þeim sem eru ekki  lengur færir um að sjá um sig sjálfir. Það virðist vera álíka auðvelt fyrir gamalt fólk á Íslandi að komast á hjúkrunarheimili og fyrir ríkan mann að komast inní himnaríki. Það er þyngra en tárum tekur að sjá þeim úthýst, sem hafa lokið lífsstarfi sínu við að byggja upp samfélagið, þegar þeir þurfa að komast í skjól og aðhlynningu síðustu æviárin.  Hvernig stendur á þessari ljótu framkomu við elsta fólkið í samfélaginu?

Aldursfordómar eru sannarlega áberandi í okkar samfélagi og staða mála varðandi hjúkrunarheimilin og þjónustu við eldra fólkið okkar, er ekki boðleg og hefur ekki verið það lengi, eins og tölfræðin sem var sett fram í Kveik sýnir. Það þykir í lagi að bjóða eldra fólki uppá ýmislegt sem öðrum í sömu stöðu  yrði ekki boðið uppá. Það virðist litið á gamalt fólk sem annars flokks borgara, eins og skýrt kom fram í þættinum.

Það er yfirleitt talin ástæða til að standa vörð um réttindi minnihlutahópa í samfélaginu,  þeirra sem standa höllum fæti eins og það er stundum kallað. Stjórnmálamenn eyða mikilli orku og fé í að reyna að gæta þess að mannréttindi séu ekki brotin á fólki, að það sé passað uppá fólk af öllum kynjum, hælisleitendur og flóttamenn. Að fólk af ólíkum kynjum og kynþáttum búi við sömu réttindi og aðrir. Það er góðra gjalda vert. En hvernig má þá vera þetta algera skeytingaleysi um málefni þeirra sem eru komnir á níræðis og tíræðisaldur? Hvers vegna er talið í lagi að brjóta mannréttindi á þeim?

„Á einhverju stigi máls verður maður svolítið ósýnilegur þegar maður eldist og er farinn að tilheyra minnihlutahópi, þótt maður sé ekki í neinum minnihluta. Ætli þeir sem eru komnir á eftirlaun hér á landi séu ekki um 1/6 þjóðarinnar“. Þetta sagði Guðrún Helgadóttir rithöfundur í viðtali við Lifðu núna fyrir 8 árum.  Svo mikið er víst að elsta fólkinu í samfélaginu líður mörgu eins og þeim sem tilheyra minnihlutahópum og búa við það að mannréttindi þeirra séu iðulega virt að vettugi.  Lög og mannréttindi eru hikstalaust brotin á því  og skiptir þá engu þó það standi í lögunum um málefni aldraðra að „við framkvæmd þeirra skuli þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur“. Það er lítið hald í þessum lögum og í Kveiksþætinum var beinlínis bent á að stundum missir fólk ákveðin réttindi við það að verða 67 ára. Er nema von að mörgum þyki mál til komið að leggja þau niður.

Mikið væri gaman ef ungu stjórnmálamennirnir okkar gætu rætt þetta ófremdarástand af sömu ástríðu og hneykslan og þeir ræða nú um Íslandsbankasöluna og þar áður um ummæli formanns Framsóknarflokksins. Beðið um þingfundi, rannsóknir og aukafundi á þinginu.  Já,  og gert eitthvað í málunum, því þar stendur hnífurinn í kúnni.

Erna Indriðadóttir apríl 26, 2022 22:46