Ef lífið snýst um að njóta og leyfa hverju augnabliki að næra sálina þá hafa hjónin Atli Vilhjálmsson og Jóhanna S. Rúnarsdóttir sannarlega lært að lifa til fulls. Þau hafa ánægju af að ferðast en mótorhjól og fornbílar skipa veglegan sess í lífi þeirra. Atli ekur og Jóhanna situr fyrir aftan hann og vinnur síðan úr reynslu dagsins í máli og myndum. Í sumar fóru þau í 4600 km hjólaferð um villta vestrið í Bandaríkjunum. Þetta er þriðja ferðin þeirra þangað en alls ekki sú fyrsta um fáfarnar götur og gamlar slóðir.
Það liggur beinast við að spyrja fyrst hafið þið alltaf verið með mótorhjóladellu?
„Ég hef verið í þessu frá 2009,“ segir Jóhanna og brosir. „Við erum sem sé bæði í seinni hálfleik. Ég hafði í raun aldrei horft neinum löngunaraugum á mótorhjól áður. Við unnum hins vegar saman hjá BL. Ég var þar í átján ár og Atli í þrjátíu. Svo við þekktumst svolítið í gegnum bíla en ég vissi ekki að Atli væri á mótorhjóli fyrr en við fórum að vera saman. Þá bauð hann mér í reiðtúr.“

Atli með Pointiac Transam 1981
„Ég skildi einu ári áður,“ segir Atli. „Ég er þá bæði í mótorhjólum og fornbílum. En svo reyndist hún hafa áhuga á að vera í þessu líka og reyndist tilbúin að leggja á dýpið.“
„Já, það var bara græjaður galli og ég sett aftan á hjólið. Eftir það var ekki aftur snúið,“ segir hún. „Ég hef aldrei keyrt mótorhjól og hef ekki próf. Margir hafa spurt mig hvort ég hafi ekki áhuga en ég myndi ekki vilja missa það að sitja aftan á. Bæði vegna þess að það er ákveðin nánd í því og við tölum mikið saman á hjólinu og ég er heldur ekki viss um að Atla myndi líða ofboðslega vel með það að hafa mig á hjóli.“

Í Bryce Canyon
Skrifaði ferðaminningar
„Ég verð að segja að það er mjög gaman að hafa hana fyrir aftan mig. Þá erum við meira saman. En hjólið sem ég átti þegar við tókum saman var bara ekki nógu þægilegt fyrir hana svo við fórum út til Ameríku og keyptum hjól. Áhuginn kviknaði ekki síst vegna þess að innan frímúrarareglurnar starfar hópur mótorhjólamanna í klúbbnum, Fenrir.“
„Atli var formaður klúbbsins í átta ár og ég var kölluð First Lady,“ segir Jóhanna og hlær við. „Ég var svona aðstoðarritari. Ég skrifaði pistla um ferðirnar okkar og einn var birtur í frímúrarablaðinu um Jónsmessuferð hópsins. Meðlimir Fenris hjóla tvisvar í mánuði yfir sumarið og svo er farin árleg Jónsmessuferð annað hvort á Ísafjörð eða til Akureyrar. Þá er gist í tvær til þrjár nætur. Hópurinn hefur farið tvisvar hringinn.“
„Jóhanna lyfti þessu svolítið á annað plan og fleiri fóru að koma. Þetta varð lifandi og skemmtilegt, eins og það á að vera. En þannig byrjar hjólavertíðin mín. Hún byrjar eftir þetta.“

Leiðin sem þau hjóluðu í sumar.
Þessi skráning minninga frá þessum ánægjulegu ferðum varð til þess að þegar þau fóru að ferðast út hóf Jóhanna að halda dagbók og birta á facebook. Hópurinn heitir USA Mótorhjólaferðir 2022/2024/2025 og þau hafa farið þrjár ferðir, Coast to Coast, BBQ-tour og Wild West. Hvernig farið þið að með hjólin? Takið þið þau með ykkur út?
„Við skiptum við ferðaskrifstofu sem heitir Eagle Rider,“ segir Atli. „Það er hægt að leigja bara hjólin af þeim og gera þetta sjálfur eða fara með leiðsögumanni og trússbíl. Við höfum valið þannig ferðir einfaldlega vegna þess að þá getum við notið þess betur að ferðast. En ef fólk vill getur það gert þetta upp á eigin spýtur.“
„Þetta eru lúxusferðir sem við höfum farið í,“ bætir Jóhanna við. „Það getur verið flókið að skipuleggja sig sjálfur á ókunnum slóðum, bara það að finna næsta klósett getur reynst vandasamt.“

Forrest Gump Point í Monument Valley.
Ferðast á margvíslegan máta
Er mótorhjólið þá sá farkostur sem þið helst kjósið?
„Nei við höfum ferðast heilmikið þess utan, farið til Víetnam, Ástralíu og víðar. En fyrsta ferðin með Eagle Rider, Coast to Coast frá LA til Daytona var rosalega áhugaverð. Við fórum hana 2022. Þetta eru rúmlega 5800 km sem eru hjólaðir,“ segir Atli.
„Fyrsta ferðin var mikil upplifun. Þetta var eitt af fyrstu tækifærunum til að ferðast eftir Covid. Við ætluðum að fara fyrr en heimsfaraldurinn skall á. Sú ferð er farin tvisvar á ári, á vorin og haustin. Þetta eru fjórtán hjóladagar, síðasta ferð var tólf hjóladagar, 4600 km leið og við heimsóttum sjö þjóðgarða.“
Garðarnir sem þau heimsóttu eru Joshua Tree Park, Grand Canyon, Bryce Canyon, Zion Yosemite, Death Valley og Monument Valley Tribal Park.
„Í þessum ferðum er gert út það að kynna ferðamönnum menninguna og líf fólksins,“ segir Atli. „Við heimsóttum fæðingarstað Elvis og fengum söguna af uppvexti hans. Í Monument Valley fengum við indíána til að fara með okkur um og kynna okkur staðhætti og menningarverðmæti.“
„Monument Valley stendur svolítið uppúr eftir þessa ferð,“ segir Jóhanna. „Monument Valley er ótrúlegur, rauðu klettarnir og rauðir sandar. Þetta er landslag sem við þekkjum úr vestra myndum. Það var svolítið tilfinningaþrungið að heyra indíána tala um meðferðina á þjóð sinni í gegnum tíðina.“

Landslagið er engu líkt í Monument Valley..
Vilja leyfa öðrum að njóta
Auk ljósmynda tekur Jóhanna heilmikið upp af vídeóum og þau klippa þau síðan saman eftir að heim kemur.
„Við höfum sýnt vídeóin fjölskyldunum okkar, vinum, í Fenrir og Fornbílaklúbbnum því við erum líka þar,“ segir hún. „Þetta eru svona 38 mínútna myndbönd sem ég hef búið til. Í fyrra fórum við frá New Orleans upp til Washington DC. Þá fórum við í gegnum Smoky Mountains og komum við í Nashville og Memphis. Fórum í Graceland og BB King-safnið. Uppi í fjöllunum, Smoky Mountains, er svo mikið af hjólaleiðum eins og Tail of the Dragon. Við fórum meðal annars Blue Ridge Parkway en sá vegur skemmdist á stórum kafla skömmu eftir að við komum heim í fellibyl sem gekk þarna yfir. Allt fór á flot þarna í fjöllunum en það er mjög óvenjulegt og þessi vegur verður ekki endurbyggður eins og hann var. Það var líka mjög áhugaverð ferð.“
„Við höfum viljað koma upplifuninni til annarra,“ bætir Atli við. „Margir eru kannski að hugsa um einhverjar svona ferðir og vilja vita hvar á að byrja.“
Hvað situr mest í manni eftir að hafa gert svona víðreist um fjölbreytta náttúru gerólíka okkar?
„Allir þessir garðar sem við fórum í gegnum núna eru stórkostlegir, Bryce Canyon og Grand Canyon sem við höfðum reyndar séð áður en ekki frá þessari hlið sem komum að núna. Þetta er stórbrotið landslag. En svo er að gera sér grein fyrir landslaginu, maður finnur lyktina, breytingu á hitastigi og þetta er allt öðruvísi en að vera á bíl. Þú ert meira hluti af náttúrunni. Þetta skilur eftir sig góðar og fjölbreyttar minningar.“

Hið stórbrotna og einstaka Grand Canyon.
„Ég tek undir með Atla að upplifa náttúruna og breytingar á landslagi er eftirminnilegt en líka að kynnast fólki hvaðanæva að úr heiminum. Við vorum með hjónum í fyrra frá Nýja Sjálandi og Bretlandi sem við hittum aftur núna fyrir algjöra tilviljun. Við höfum samskipti í gegnum Whatsapp forritið og í byrjun hittast allir á kynningarfundi áður en haldið er af stað í ferð. Ein kona sendi mér skilaboð og sagði: „Gettu hver er ferðinni?“ Það reyndist þá vera Nýsjálendingarnir frá því í fyrra. Þau hjón kynntust bresku pari í sömu ferð og fékk þau með sér í ár. Svo hitta þau fararstjórann og hann segir þeim að í hópnum sínum í ár séu pör frá Frakklandi,Ástralíu og Íslandi. „Ekki er konan ljóshærð með stutt hár?“ Spurði þá sú nýsjálenska og jú svo reyndist vera. Við hittum svo annað breskt par í hádegisverði í Las Vegas sem voru með okkur í sömu ferð í fyrra. Svona geta tilviljanirnar verið ótrúlegar og auðvitað kynnist maður fólkinu misvel en þetta getur verið mjög skemmtilegt og kannski á þetta fólk einhvern tíma eftir að koma hingað.“

Hitinn í Death Valley var milli 46 og 47°C.
86 metrum undir sjávarmáli
Þau fóru í gegnum Death Valley en sá þjóðgarður er heitasti, þurrasti og lægsti þjóðgarður í heimi. Dalurinn er tæplega 86 metrum undir sjávarmáli og þar er finna gamla gíga, sandhóla og stórbrotin gil mótuð af vatnsflaumi regntímans. Hvernig var að fara þar í gegn í hlífðarfatnaði á mótorhjóli?
„Hitinn var 46-47° C,“ segir Atli. „Það er svo þurrt loftið þarna að maður verður ekkert mjög sveittur. Maður gerir hins vegar ekki mikið í svona hita og skríður inn í skuggann þegar stigið er af hjólinu og leggur hjólinu þar því annars væri of heitt að setjast á það aftur. En númer eitt tvö og þrjú er að drekka nóg af vökva með steinefnum og söltum í. Við erum í kevlar-gallabuxum með hlífum á hnjám, langermabolum og þunnu vesti með hlífum á öxlum og bringu og í leðurvesti þar yfir. Í raun erum við lítið klædd.“

Pigeon Point Highway í Kaliforníu.
„Inni í pakkanum frá Eagle Rider eru jakkar sem eru alltaf með. Þeir koma sér vel því maður þarf alltaf að fara í þá einhvern tíma í ferðinni þegar fer að kólna,“ segir Jóhanna. „Þeir eru með hlífum og það er hægt að taka innan úr þeim og þá eru þeir ekki eins heitir. Á þeim eru líka loftgöt sem hægt er að opna að framan og aftan svo vindurinn blæs í gegnum þá. Dagleiðin okkar gegnum Death Valley var um það bil 580 km. Ég sat aftan á og var með vatnsflöskuna framan á bringunni og passaði upp á að við drykkjum nægilega oft og mikið. Ég rétti flöskuna fram til Atla með reglulegu millibili. Mismunurinn á hitastigi getur verið mikill á einum degi. Maður leggur kannski af stað í 8°C og endar í 40°C en það var ekki á þessu svæði en það snöggkólnaði reyndar þegar við komum til San Francisco.“
Kurteisi og virðing munar öllu

Roy’s Café á Route 66.
Þau eru sammála um að upplifanirnar séu svo margar og margvíslegar að ekki sé hægt að lýsa þeim öllum svo vel sé. Í Monument Valley hafi til dæmis verið ekið eftir malarvegi upp í fjöllin þar sem útsýn opnaðist yfir Valley of the Gods en sá staður lék veigamikið hlutverk í kvikmyndinni Thelma and Louise. Í Sedona greip Jóhanna andann á lofti og hugsaði hingað vil ég koma aftur. En allt þetta er að þakka öruggri og fagmannlegri leiðsögn.
„Við fórum ýmsa vegi sem við hefðum aldrei getað ímyndað okkur að vert væri að fara,“ segir Jóhanna. „Ég hefði aldrei þorað að fara á malarvegina á hjólum ef hann hefði ekki leitt okkur. Tveir starfsmenn fylgja hópnum og það eru svona 8 -15 hjól í hverjum hópi. Leiðsögumaðurinn okkar fer fyrir hópnum og svo er varahjól á trússbílnum ef eitthvað bilar. Þeir sjá okkur fyrir vatni allan tímann og við þurfum ekki einu sinni að dæla bensíni á hjólin.“
„Umferðarmenningin er líka allt önnur í Ameríku en hér,“ bætir Atli við. „Þar er tekið tillit til hjólafólks. Það er hrein unun að verða vitni að því. Bílarnir hægja á sér, hleypa hjólafólki framúr eða fara sjálfir framhjá þegar leiðsögumaðurinn vísar þeim áfram. Þar er mikil virðing á báða bóga. Það er svolítið erfitt að lýsa þessari upplifun. Það þarf eiginlega að setjast á hjól og bruna af stað til að skilja. Hér heima keyrir maður til dæmis framhjá bóndabæ og nýbúið er að bera á túnið eða slá grasið og þú finnur lyktina, færð vindinn í fangið og heyrir hljóðin. Það líka svo skrýtið að þegar maður er á hjóli er maður mun frekar tilbúinn að stoppa og njóta eða detta inn í heimsókn í bústað til vina. Það er einhvern veginn auðveldara en þegar þú ert á bíl.“

Jónsmessufundur frímúrara. Þar mættu meðlimir Fenris á viðeigandi fararskjótum.
Gera alla hluti saman
„Mér finnst alveg dásamlegt að fara um á hjóli á bjartri sumarnótt,“ segir Jóhanna. „Í mótorhjólaklúbbnum leggjum við kannski af stað klukkan 18.15 á kvöldin og komum til baka seint, stundum í myrkri og það er ævintýri.“
Í sumar fóru þau að hluta til um Route 66 Arisona og heimsóttu líka Carmel þar sem Clint Eastwood var borgarstjóri um tíma. Þau hafa áður verið í fimm vikur í Ástralíu, keyrðu um og sáu þar ekki síður fjölbreytt landslag og kynntust margháttaðri menningu.
„Á sumrin erum við mikið í fornbílunum og svo erum við í golfi. Ein í vinnunni hafði orð á því um daginn að við gerðum allt saman og það er alveg rétt. Við hjólum saman, þrífum bílana saman, ferðumst saman og ef við erum ekki saman þá er eitthvað að. Við vitum alla vega að okkar langar gera hlutina saman. Það gefur lífinu gildi fyrir okkur. Við erum búin að sjá og gera ótrúlega mikið í gegnum þessar þrjár hjólaferðir sem við höfum farið. Ég er enn að melta þetta,“ segir Jóhanna.
„Það er náttúrulega stórkostlegt að Jóhanna skyldi hafa áhuga á þessu líka og ef ég mæti eitthvert einn þá spyr fólk: „Hvar er Jóhanna?“ Hins vegar er það svo að hjá fólki eins og okkur gerist stundum eitthvað og allt í einu missir það kjarkinn og hættir að hjóla. Þá er ekki spurt að því hvort þú ert sextugur eða sjötugur. Þetta getur gerst tiltölulega snöggt. Ég er sextíu og fjögurra ára og finn ekki fyrir þessu enn þá en menn mér yngri hafa orðið fyrir þessu.

Buic Century Convertible 1955. Jóhanna fékk búningaverðlaun í Árbæjarsafninu.
Það væri rosalega gaman að fara næst í Alpana, það er vinsælt að hjóla þar. Þeir eru stórir og miklir. Við höfum tekið þann pól í hæðina að safna minningum frekar en aurum og höfum farið í margar frábærar ferðir. Auðvitað kostar þetta eitthvað en við höfum efni á þessu. Við erum á þeim aldri að við erum farin að eyða arfi barnanna. Aðalatriðið er að hafa gaman af þessu og njóta hvers augnabliks,“ segir Atli að lokum og það er kominn tími til að kveðja þessi samhentu hjón sem kjósa að hjóla, ganga, keyra, fljúga og sigla saman gegnum lífið.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.