Vill breytta nálgun í geðheilbrigðismálum

Skynjun, hugsun, tilfinning og vitund. Mánudaginn 6. október klukkan 16:30 fjallar Héðinn Unnsteinsson á ljóðrænan og skemmtilegan hátt um grunnþætti mannlegrar tilvistar – með áherslu á andlega líðan – í erindi á Borgarbókasafninu Spönginni. Héðinn leggur meðal annars út frá Lífsorðunum 14 sem eru hluti af bók hans og samnefndu leikverki Vertu úlfur sem var sýnt fyrir fullu húsi tvö leikár í röð og hlaut sjö Grímu-verðlaun.

Héðinn, sem er menntaður kennari og stefnumótunarsérfræðingur með meistaragráðu í alþjóðlegri stefnumótun, brennur fyrir breyttri og mannúðlegri nálgun í geðheilbrigðismálum. Að samfélag okkar vinni markvissar með styrkleika fólks og snúi markvisst frá ofuráherslu á hvers konar fráhvörf manneskjunnar. Að við búum til betra og mannúðlegra geðheilbrigðiskerfi þar sem áherslur notenda leiða framþróun.

Í erindi sínu í Spönginni, sem ber yfirskriftina „Vertu úlfur – Tilbrigði við geðheilbrigði“ mun Héðinn, sem skrifaði einmitt um eigin reynslu af geðheilbrigðiskerfinu í fyrrnefndri bók, miðla þessari sýn sinni og ræða hana af einlægni.

Héðinn hefur undanfarin 30 ár starfað að geðheilbrigðismálum, bæði byggt á eigin reynslu og sem sérfræðingur í stefnumótun í málaflokknum. Árin 2003-2010 starfaði hann sem sérfræðingur að geðheilbrigðismálum hjá heilbrigðisráðuneytinu og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO). Héðinn átti frumkvæðið að Geðræktarverkefninu og Geðorðunum 10.