Mikil upplifun að taka þátt í hispurslausri umræðu um kynlíf og nánd eftir meðferð

Krabbameinsfélagið Framför stóð fyrir vinnusmiðju um Kynlíf og nánd fyrir pör sem hafa verið á fást við aukaverkanir vegna meðferða við krabbameini í blöðruhálskirtli. „Við gerðum okkur grein fyrir því að við tókum áhættu að efna til þessarar vinnusmiðju og hver áhuginn fyrir henni yrði,“ sagði Þráinn Þorvaldsson formaður Krabbameinsfélagsins Framfarar sem sat vinnusmiðjuna. Könnun evrópusamtaka blöðruhálskirtilsgreindra manna UOMO, sýnir að ástand manna í kynferðismálum eftir meðferð við krabbameini í blöðruhálsi er mun verra en menn áttu von á þar sem þrír af hverjum fjórum karlmönnum í Evrópu telja kyngetu sína slæma eftir meðferð.

Tímamót í að bæta lífsgæði

„Í raun tel ég hafa orðið tímamót í viðleitni okkar hjá Framför að bæta lífsgæði karlmanna sem greinst hafa með blöðruhálskrabbamein og maka þeirra,“ sagði Þráinn eftir námskeið Jónu Ingibjörgu og að tilraunin að halda námskeið um þessi mál sé ný nálgun Framfarar til þess að styðja menn og maka í þessari stöðu.

Þráinn hrósaði Jónu Ingibjörg fyrir námskeiðið eða vinnustofuna enda lagði hún mikla vinnu í undirbúning og leysti verkefnið einstaklega vel af hendi – skapaði létt andrúmsloft og pörin voru eftir fyrstu mínúturnar opinská og tilbúin að ræða alla hluti.

Ræddu hispurslaust sín á milli

“Ég held ég hafi aldrei áður orðið vitni að því hve svo augljóslega losnaði um spennu þátttakenda og andrúmsloft á fundinum og samskipti urðu léttari,“ sagði Þráinn. Guðmundur G. Hauksson framkvæmdastjóri skipulagði þetta vel með hléum og góðu meðlæti þannig að fólk talaði saman. „Sjaldan eða aldrei höfum við hjá Framför fengið eins mikið þakklæti frá þátttakendum í verkefnum á okkar vegum eins og þessu. Það var sérstök reynsla að verða vitni að vinnustofunni. Ingibjörg átti stundum erfitt með að fá fólk til þess að setjast aftur niður til að hlusta á áframhaldið.

Ég hef velt fyrir mér mögulegum forsendum þessarar spennulosunar þátttakenda sem mér fannst verða. Mér finnst líklegt að hún hafði orðið við að hjónin voru allt í einu í þeirri stöðu að fá útskýringar og ráðleggingar á erfiðu vandamáli þar sem þau töldu sig ekki áður hafa fengið nægilegar upplýsingar.

Flestar upplýsingar t.d. lækna fjalla um meðferðir en ekki afleiðingarnar. Einnig hefðu þau ekki áður rætt þessi mál við aðra, jafnvel ekki sín á milli. Allt í einu voru þau innan um önnur hjón sem standa frammi fyrir sama vandamáli og gátu hispurslaust deilt vandamálum sínum á þessu sviði. Andrúmsloftið í hópnum varð mjög jákvætt og sérstakt. Allir ætluðu að mæla með vinnustofunni ef hún yrði haldin aftur. Það er ekki spurning um að þessu starfi þarf að halda áfram.“

Þessi grein birtist á vefnum hellisbui.is og birtist hér með leyfi aðstandenda hans, en vefurinn er á vegum Krabbameinsfélagsins Framfarar. Tilgangi síðunnar er lýst þannig:

Ætlunin með þessu samfélagi hjá Krabbameinsfélaginu Framför er að skapa öflugt félagslegt umhverfi fyrir karlmenn sem hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli og þeirra maka. Stuðla að samveru, samkennd, fræðslu og þekkingu varðandi leiðir og valkosti til að takast á við stöðuna með það að markmiði að ná fram góðum lífsgæðum á öllum stigum þess sem fylgir að upplifa krabbamein í blöðruhálskirtli.

Smellið hér til að fara á vefinn.

Ritstjórn júlí 12, 2023 07:00