Ofbeldi er ógn – tryggjum öryggi eldra fólks

Landsamband eldri borgara (LEB) mun halda málþing undir yfirskriftinni „Ofbeldi gegn eldra fólki“ þann 16. október n.k. kl. 10:00.

Tilgangurinn er að varpa ljósi á hve ofbeldi gegn eldri borgurum er algengt á Íslandi, hvernig hægt er að bregðast við og finna hugsanlegar leiðir til úrbóta.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin /WHO) skilgreinir ofbeldi í sex flokka: Fjárhagslegt- líkamlegt- kynferðislegt- og andlegt ofbeldi auk vanrækslu og áreitis.

Ljóst er að fréttir um ofbeldi gegn eldri borgurum sl. mánuði er aðeins toppurinn á ísjakanum. Um er að ræða dulið vandamál sem þolendur veigra sér við að tilkynna enda eru brotaþolar ýmist nánir ættingjar, vinir eða trúnaðarmenn.

WHO áætlar að 16% eldra fólks verði fyrir ýmisskonar ofbeldi á hverju ári. Heimfært á Ísland þýðir það um 1.000 tilfelli árlega þar sem viðbragðsaðilar koma við sögu.

Málþingið mun án nokkurs vafa draga fram ýmsar birtingarmyndir þessa alvarlega vanda sem fjölmargir fagaðilar í þessum málaflokki glíma við daglega.

Málþingið fer fram 16. október n.k. í Húsi Fagfélaganna að Stórhöfða 31 (inngangur merktur g, neðan við húsið). Það stendur frá kl. 10:00 – 16:00 og lýkur með pallborðsumræðum.

Fundarstjóri verður Bogi Ágústsson fyrrv. fréttastjóri RÚV.

Málþinginu verður streymt. Hlekkur verður aðgengilegur á heimasíðu okkar www.leb.is þar sem allar upplýsingar og dagskrá er jafnframt að finna.

Meðal þeirra er flytja erindi eru Eygló Harðardóttir verkefnastjóri afbrotavarna hjá Ríkislögreglustjóra, Hjördís Garðarsdóttir mannauðs og fræðslufulltrúi Neyðarlínunnar, Jóhanna E. Guðjónsdóttir félagsráðgjafi, Agnes B. Tryggvadóttir sálfræðingur, Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdatýra Kvennaathvarfsins, Ingibjörg Sigurþórsdóttir sérfræðingur í bráðahjúkrun og Brynja María Ólafsdóttir sérfræðingur í regluvörslu Landsbanka. Margir fleiri koma að dagskránni sem er ítarleg og umfangsmikil því fjallað er jafnt um ógnir inn á heimilum og utanaðkomandi ógnir.