Landssamband eldri borgara boðaði til málþings um ofbeldi gegn öldruðum í samfélagi okkar. Helstu niðurstöður þingsins voru að ofbeldi gegn eldra fólki er mun útbreiddara en nokkurn grunar, það birtist í fjölbreytilegum myndum og er alvarlegt og illviðráðanlegt. Fjölmargir sérfræðingar er starfa að málefnum er varða aldraða voru sammála um að það vantaði úrræði og leiðir til að láta vita þegar grunur vaknar um ofbeldi og til að koma öldruðum einstakling úr hættulegum aðstæðum. Lifðu núna tók saman úrdrætti úr helstu erindum á málþinginu.
Eygló Harðardóttir verkefnastjóri afbrotavarna hjá Ríkislögreglustjóra við og sagði frá að stofnað hefði verið sérstakt teymi á Landspítala til að samræma verklag þegar kemur að heimilisofbeldismálum á landsvísu. Teymið á að geta tengt við allar heilbrigðistofnanir og veitt þolendum stuðning á öllum sviðum. Hún nefndi einnig að það vantaði skýrari löggjöf og bæta þyrfti eftirfylgni. Við værum orðin þokkaleg í að bregðast við þegar upp koma ofbeldismál en værum verri í að fylgja þeim eftir og leiða til lykta. Að hennar mati væri mikilvægt að koma í veg fyrir ítrekuð mál og þegar starfsfólk heilbrigðisstofnana hefur grun um að þolandi sé í verulegri hættu þurfi það að geta brugðist við þótt þolandi neiti hjálp. Þolandi er oft háður geranda og það þarf vitundarvakningu og umræðu um ofbeldi.
Samningur Evrópuráðsins varðandi kynbundið ofbeldi hefur stuðlað að viðhorfsbreytingu og verið er að vinna að því innleiða þennan samning og koma breytingum markvisst inn í hegningarlögin. Mun minna umburðarlyndi er gagnvart ofbeldi í samfélaginu nú en áður var. Obeldi fær ekki lengur að þrífast í þögninni. En til að bæta enn um betur þarf að draga úr óljósu orðalagi í lögum og segja beint þetta þarf að gera. Skref í rétta átt væri að skylda yfirvöld til að miðla upplýsingum, í raun skylda starfsfólk til að rjúfa trúnaðinn og segja frá. Reynslumiklir starfsmenn hafa reynslu af þjónustu við fólk sem býr við ofbeldi verða að segja frá þegar þolandi labbar út og viðkomandi starfsmaður er þess fullviss að hann sjái hann kannski ekki lifandi aftur. Þolandinn er oft í erfiðri aðstöðu. Hann vill stöðva ofbeldið en gerandinn er maki, börn eða aðrir nátengdir aðilar sem viðkomandi elskar og vill ekki að séu sendir í fangelsi heldur einungis að hann sjálfur fái að búa við öryggi og vellíðan. Eygló benti á Ofbeldisgátt Neyðarlínunnar og sagði: „Ef þú ert í vafa hringdu í 112.“
Að þekkja ofbeldi
Hjördís Garðarsdóttir mannauðs- og fræðslufulltrúi Neyðarlínunnar talaði um Ofbeldisgátt Neyðarlínunnar en þar er að finna ýtarlegar upplýsingar um ofbeldi eðli þess og skilgreiningar á hvað felst í margbreytilegum tegundum ofbeldis. Í grunninn snýst ofbeldi alltaf um vald. Einn einstaklingur tekur sér vald yfir öðrum og sviptir hann sjálfræði og virðingu. Hún nefndi að líkamlegt ofbeldi geti falist í allt frá því að ýta við annarri manneskju að því að berja hana. Við sjáum fólk fyrir okkur mikið slasað eftir ofbeldi en það er alls ekki alltaf þannig. Oft mikil er um að ræða niðurlægingu, háð og stjórn. Andlegt ofbeldi hefur dýpri eða jafndjúp áhrif og það líkamlega.
Fjárhagslegt ofbeldi er algengt gagnvart öldruðum en þá verður einhver sér út um umboð eða neyðir annan til að gefa sér peninga. Kynferðislegt ofbeldi vandamál hjá eldra fólki en það felur í sér alla kynferðislega hegðun sem ekki felur í sér samþykki. Vanræksla er einnig ein tegund ofbeldis og hún getur falist í að ekki sé sinnt um hreinlæti, félagslegar þarfir eða heilsu. Ofbeldi gegnum netið færist einnig í aukanna og það getur farið fram í gegnum símtöl, sms-skilaboð og tölvupósta þar sem fólk er blekkt til að senda peninga upplýsingar. Þessi brot snúast ekki bara um fjársvikin heldur byggja þau á blekkingu, valdi og niðurlægingu.
Móttaka heimilisofbeldis á Landspítala
Jóhanna Erla Guðjónsdóttir félagsráðgjafi/teymisstjóri ofbeldisteymis á Landspítala kynnti starf þeirra sem felst í að samræma verklag yfir allt landið, draga úr endurkomum og ítrekunum, taka við ábendingum og veita þjónustu hvar sem er, líka gegnum fjarfundabúnað. Hún sagði teymið veita mörg viðtöl í gegnum síma. Þau ynnu einnig að því að etja saman fræðsluefni kynna verkefnið. Teymið er á vakt alla virka daga frá átta á morgnana til miðnættis en einnig er hægt að fara á heilsugæslu eða læknavakt og óska eftir tilvísun til teymisins nú eða ganga inn á bráðamóttöku Landspítalans. Í forgangi í vinnu þeirra sé að koma viðkomandi í öruggt skjól og tryggja öryggi barna af þau eru í spilinu. Farið er yfir allt, gert mat á áverkum, reynt að róa þolanda og boða lögreglu á staðinn og ofbeldið tilkynnt því þótt þolandi kjósi að kæra ekki er mikilvægt að tilkynna ofbeldið. Sálfræðiþjónusta er í boði þolanda að kostnaðarlausu og hann getur fengið eins mörg viðtöl og þurfa þykir. Það er enginn biðtími viðkomandi fær þjónustu strax. Á þessu ári hefur teymið tekið á mót þremur einstaklingum yfir 80 ára og sá var elsti 93 ára.
Eldri konur í Kvennaathvarfinu
Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfs ræddi um eldri konur í Kvennaathvarfinu og sagði að þeim væri mjög umhugað um þennan hóp. Þessar konur hefðu oft búið við ofbeldi í áratugi og væru mjög einangraðar. Þær eiga erfitt með að stíga skrefið inn í Kvennaathvarfið. Það getur verið erfitt fyrir konu á þessum aldri að koma inn í Kvennaathvarfið þar sem er mikil ys og þys. Þær upplifa einnig mikla skömm og finnst þær hafa brugðist börnunum sínum að hafa ekki farið fyrr. Þær velta fyrir sér hvort ekki sé of seint að fara núna. Sumar eru ósjálfstæðar fjárhagslega því gerandinn heldur utan um allt og þær vita ekki hver staðan er í fjármálum heimilisins. Þær óttast einnig einmanaleika vegna þess að gerandinn er oft þeirra eini félagsskapur og svo óttast þær aukið ofbeldi ef þær fara og það ekki að ástæðulausu því þessir menn halda áfram að ásækja þær ef þær fara.
Í Kvennaathvarfinu er leitast við að skapa heimili og að konur finni að þær séu ekki að koma inn á stofnun. Þar er aldrei reynt að stjórna konum heldur er þeim leyft að stjórna ferðinni. Þær geta dvalið eins lengi og þær þurfa. Linda Dröfn sagði að hlutfall kvenna sem snýr til baka til ofbeldismannsins hafa lækkað og þakkar það aukinni umræðu og ráðgjöf. Hún taldi að fólk í framlínunni væri oft tregara að spyrja eldra fólk um ofbeldi en benti á að við verðum að spyrja og sýna þolendum betur þau úrræði sem eru í boði. Það þurfi líka að auka hraðann í vinnslu mála. Ef ekki er neitt til staðar sem grípur þessar konur nógu snemma hrynur heimurinn og konan snýr aftur heim. Á vegum Kvennaathvarfs hefur verið byggð Búsetubrú með 18 íbúðum hægt að leigja eftir að hafa verið í athvarfinu en þar er meiri einangrun og betra að eldri konur fari í úrræði þar sem er félagslíf og félagsskapur. Kvennaathvarfið leitaði að húsnæði sem uppfyllti þessi skilyrði en fann ekki svo þær ákváðu að byggja nýtt hús sem auðvelt væri að komast um. Þar væri álma með meiri möguleikum á að fá ró og frið. Þröskuldurinn inn í Kvennaathvarfið oft ótrúlega hár en þær í Kvennaathvarfinu þekkja margar sigursögur kvenna yfir áttrætt stíga út úr ofbeldi.
Eldra fólk í viðkvæmri stöðu sem leitar á bráðamóttöku
Ingibjörg Sigurþórssdóttir sérfræðingur í bráðahjúkrun sagði frá starfi ráðgefandi hjúkrunarfræðingur aldraðra á bráðamóttöku skammstafað BÖR. Hann spyr spurninga um líðan þar á meðal út í ofbeldi, kemur að útskrift sjúkilings, gerir útskriftaráætlun og sér um eftirfylgni. Hringt er í viðkomandi og athugað með líðan og stundum hringir fólk til baka og leitar ráða og stuðnings. Ingibjörg benti á að þótt vanræksla teljist ofbeldi sé stundum um að ræða ómeðvitaða vanrækslu. Umönnunaraðili sé sjálfur hrumur og eigi þess vegna erfitt með að sinna þörfum annarra. Umönnunarbyrði og álag á aðstandendur getur valdið miklu en einnig neysla vímuefna, þá ýmist hins aldraða eða aðstandanda eða umönnunaraðila. En svo má spyrja hver er skyldan mín? Á ég að gera þetta allt saman? Einnig skapast iðulega skyndilegt álag þegar umönnunaraðili mjög veiks einstaklings leggst inn á spítala sjálfur.
Í baráttunni gegn ofbeldi gagnvart öldruðum eru fimm forgangsatriði. Í fyrsta lagi að berjast gegn aldursfordómum sem eru meginástæða þess að ofbeldi gegn öldruðum fær svona litla athygli. Erum við sem þjóðfélag að hlusta á aldraða og bera virðingu fyrir því sem þeir vilja gera? Í því efni vantar tölur og meiri rannsóknir. Í öðru lagi þarf að búa til verklag um heimilisofbeldi og þá þarf einnig meiri gögn og það góð gögn. Þjóðfélagið hefur fjárhagslegur ávinning af því að bregðast við ofbeldi og uppræta það. Vegferð er þegar hafin til að bæta viðbragð gegn ofbeldi en það þarf ákveðna aðlögun að eldra fólki.
Ofbeldi gegn eldra fólki út frá sjónarhóli hjúkrunarheimila
Steinunn Þórðardóttir framkvæmdastjóri lækninga á Hrafnistu og Gunnur Helgadóttir framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu töluðu um hvernig leitast væri við að bæta þjónustuna og veita framúrskarandi þjónustu. Þær töluðu um markmið og gildi og hvernig starfsfólk ynni að því að bæta verklag sitt. Steinunn nefndi að það væri sífelld barátta að verja aðra heimilismenn gegn öðrum sem þar dvelja og eru ofbeldisfullir. Fólk með heilabilun ræður oft ekki við það. Skortur á sérhæfðum úrræðum hvað varðar þessa einstaklinga en sumir eigi ekki heima innan um aðra og þurfi annars konar úrræði.
Fullt væri af sóknarfærum hvað varðar atvikaskráningakerfi og bæta þannig upplýsingar. Alvarlegustu atvikin fara í atvikskrá en það þurfi að skrá meira andlegt ofbeldi og vanrækslu. Allir vilji gera enn betur og fræðsla, góð hugmyndafræði, sterk gildi, vandaðar verklagsreglur, bætt atvika- og ábendingahnappur bæði fyrir aðstandendur og starfsfólk eru vörður á leiðinni til úrbóta. Gunnur sagði að eitt af gildum Hrafnistu væri hugrekki og fólk þyfti að hafa hugrekki til að láta vita ef það sér eitthvað. Hún vildi einnig nefna að starfandi eru inná Hrafnistu umboðsmenn íbúa og aðstandenda. Það eru félagsfræðingur og djákni sem gegna þeim hlutverkum og fólk getur leitað til þeirra og þarf því ekki að fara beint til umönnunaraðilans. Á Hrafnistu hefur líka verið ráðinn atferlisfræðingur sem getur farið inn á deildirnar og skoðað málin ef berast ábendingar. Ytra gæðaeftirlit gott hér á landi. Landlæknir kallar eftir 22 gæðavísum frá hjúkrunarheimilum og niðurstöður gæðamatsins eru birtar á heimasíða landlæknis Steinunn vildi að lokum koma á framfæri, sem manneskja en ekki framkvæmdastjóri lækninga á Hrafnistu, að hún telur að viðvarandi fráflæðisvandi Landspítalans sé samfélagslegt vandamál og ofbeldi gegn öldruðum.
Er heimilið griðastaður?
Inga Valgerður Kristinsdóttir sérfræðingur í heimahjúkrun á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins talaði um hvernig ofbeldi gegn öldruðum kemur þeim fyrir sjónir sem starfa að heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu. Tæplega 4500 einstaklingar nutu aðstoðar heimahjúkrunar á síðasta ári. Markmið heimahjúkrunar er að veita viðeigandi aðstoð í samræmi við getu skjólstæðinga, heilsufar þeirra og félagslegan aðbúnað til þeir geti verið heima áfram. Skjólstæðingar á öllum aldri. Sumir þurfa aðstoð tímabundið aðrir viðvarandi.
Heimilið á að vera griðastaður sem veitir öryggi og félagslegan stuðning en getur verið vettvangur kúgunar og einangrunar í skjóli einkalífs. Heimhjúkrun fer fram inni á heimilum og starfsmenn ganga oft inn í vanrækslu. Meðal annars eru þeir oft hvetja viðkomandi til að borða vel en opna ísskápinn og þá er þar eitt oststykki eða ein kókflaska. Hver átti að kaupa inn? Oftast aðstandendur en stundum fólk á vegum sveitarfélagsins. Sumir skjólstæðingar búa við mikla óreiðu. Föt þeirra eru óhrein föt þegar heimahjúkrun kemur á staðinn ekki til hreint að setja fólk í eftir bað. Þess eru einnig dæmi að starfsfólk fái ekki að veita þá aðstoð sem þörf er fyrir. Makar eða börn neita að hleypa hjúkrunafólki inn krefjast þess að fá lyfin gegnum rifu á hurðinni og heimahjúkrun veit ekki hvort viðkomandi fær lyfin.
Í einu tilfelli sem Inga Valgerður nefndi hafði sonur tekið hurðarhúninn af að innanverðu svo hinn aldraði var læstur inni sem og starfsfólk heimahjúkrunar sem komst ekki út meðan sonurinn brá sér frá. Skapgerðarbreytingar geta orðið á manneskju með heilbilun og Inga Valgerður sagði frá konu sem þekkti ekki manninn sinn. Þess vegna sló hún til hans, rak hann út og hvæsti á hann. Umönnunaraðilinn varð fyrir ofbeldi í því tilfelli. En hvert á starfsfólk að snúa sér? Á það að tilkynna og þá hvert? Gott væri að hafa leið til að láta vita, kæra til aðila sambærilegra við barnaverndarnefndir. Lög hafa verið samþykkt um samþættingu til farsældar barna og við þurfum sama fyrir aldraða. Gott væri að líta á eldri einstakling sem hjartað í þjónustunni eins og gert er með barnið í farsældarlögunum.
Netsvik: Er eldra fólk sérstakt skotmark?
Brynja María Ólafsdóttir sérfræðingur í regluvörslu Landsbanka hefur starfað í bankanum í átján ár. Hún hefur orðið vitni að alls konar ofbeldi og sagði frá því að málafjöldi hjá lögreglu vegna netsvika hafi tvöfaldast milli ára. Talið sé að hálfur milljarður hafi tapast til fjársvikara og það sé líklega mjög vanmetið. Skömmin er það mikil að ekki allir segja frá. Nú þegar hefur orðið tvöföldun í málfjölda vegna netsvika hjá Landsbanka frá í fyrra.
Brynja María benti á nokkrar tegundir svika til að mynda póstar þar sem beðið er um símanúmer og fólk beðið að samþykkja með auðkenningu til að fá vinning sem þeim er sagt að bíði. Hún nefndi fjárfestingasvik, sölusíður og ástarsvik. Í tilfelli þess síðarnefnda talar einhver við einstaklinga og leitast við að mynda traust og blekkir síðan fólk til að vilja gefa frá sér peningana sína. Dæmi eru einnig um pósta og SMS frá þekktum fyrirtækjum og stofnunum á borð við Íslandspóst, skattinn og raforkufyrirtæki. Í öllum tilfellum er fólki sagt að smella á hlekk til að ganga frá greiðslunni. Lykilregla sé að við smellum aldrei á hlekki í tölvupóstum. Fólk þarf að tileinka sér hana. Gott er líka að fara alltaf inn á netsíður fyrirtækjanna og skrá sig inn með rafrænum skilríkjum til að sjá hvort þar er eitthvað sem þarf að bregðast við.
Landsbankinn er með góðar varnir og hringir oft í fólk til að stöðva greiðslur áður en fara út og endurheimta fjármuni. Mannlegt að falla fyrir alls konar. Allar tegundir svika eru a aðeins algengari hjá þeim sem eru á aldrinum 65-80 ára en hinum sem yngri eru. Í þeim 1100 málum sem skráð eru hjá Landsbanka varð fjártjón í tæplega 300 málum. Í fjárfestingasvikamálum er fjártjónið mest. Eldri einstaklingar sjá auglýsingu á samfélagsmiðlum með mynd af Katrínu Jakobsdóttur eða Boga Ágústssyni eða öðrum þekktum traustvekjandi einstakling og þar segist hún hafa fjárfest og fengið góða ávöxtun. Eldra fólk hefur safnað í sjóð og er komið á þann aldur að ætla að leyfa sér að njóta en freistast til að fjárfesta því síðan virðist traust. Mesta fjártjón sem Brynja María veit um á þessu ári er 50 milljónir frá einstakling sem var að detta inn á eftirlaunaaldur. Erfitt að vera í þessari stöðu því erfitt er að endurheimta féð. Boð um fjárfestingar eru til dæmis í fjármálgerningum, rafmyntum og erlendum hlutabréfum. Brynja María bendir á að það skiptir máli að setja ekki peningana sína í hluti sem við þekkjum ekki.
Hún varaði einnig við nýrri tegund símtalasvika sem komin eru upp á Norðurlöndum og eitt dæmi um slíkt hér. Þá er hringt í fólk og því sagt að senda eigi heim til þeirra viðgerðarmann til að gera við vírus eða bilun í tölvunni þeirra. Nokkrum dögum seinna bankar upp á maður fer inn í tölvuna og hleður niður yfirtökuforriti og stelur gjarnan munum af heimilinu á leiðinni út. Þess eru líka dæmi að starfsfólk á hjúkrunarheimilum taki peninga út af kortum aldraðra sem geyma pin númer sín á sama stað og kortin.En það eru til varnir. Hægt er loka fyrir peningaúttekt af kortum, setja takmörk á upphæðir sem hægt er að millifæra í einu og fleira. Sérstök svikavakt er starfandi hjá Landsbankanum sem tekur við upplýsinum ef fólk telur sig vera að verða fyrir svikum allan sólarhringinn. Að lokum ítrekaði Brynja María að ef eitthvað virðist of gott til að vera satt sé það yfirleitt ekki satt.
Úrræði og úrræðaleysi vegna ofbeldis
Ragnheiður Þórisdóttir hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar talaði um heimahjúkrun, félagslegan stuðning og endurhæfingu inni á heimilum. Starfsfólk hennar kemur til fólks í þeim aðstæðum sem það býr við og hefur því góða innsýn inn í hvað er í gangi. Af starfsfólki heimaþjónstunnar telja 57% sig verða vart við ofbeldi en 83% starfsmanna heimhjúkrunar telja sig verða vara við ofbeldi gagnvart þeim skjólstæðingum sem þeir sinna. Þetta sé því verulega falið vandamál og starfmenn vita ekki hvert þeir eiga að leita og hvernig tilkynna það sem þeir verða vitni að. Þeir telja að það þýði ekki að láta vita því kerfið bregðist ekki við.
Ragnheiður nefndi dæmi um það ofbeldi sem starfsfólk verður vart við meðal annars var einstaklingur í hjólastól sem bjó við að helsti umönnunaraðila hans var uppkomið barn hans sem glímdi við fíknivanda. Sá aðili bjó inn á heimilinu og kom oft með aðra einstaklinga sem eins var ástatt fyrir inn á heimilið. Starfsfólkið treysti sér ekki þarna inn og veitt var viðvörun um að draga þyrfti úr þjónustu ef ekki yrði breyting á en viðkomandi gat ekki breytt hegðun sinni. Hann nýtti sér alla fjármun skjólstæðings heimþjónustunnar sem varð á endanum heimilislaus. Allan tímann vissi sá aldraði ekki hvað var í gangi. Fólk með fíknivanda búi stundum inni á öldruðum ættingjum og það sæki í lyfin þeirra. Oft er heimaþjónustunni og heimhjúkruninni meinaður aðgangur að þessum heimilum.
Þeir eru mest útsettir fyrir ofbeldi sem komnir eru með hjálpartæki eða glíma við sjúkdóma. Í einu tilfelli er skjólstæðingurinn veikur á geði og helsti umönnunaraðili hans mjög veikur á geði. Starfsfólk reynir að finna tíma til að sinna skjólstæðing sínum þegar aðstandandinn er ekki heima. Heimaþjónustan vissi að ekki væri gott ástand á heimilinuog reyndi að fá borgarlækni með sér í lið til að ná viðkomandi út af heimilinu. Þrátt fyrir samtöl við geðdeild, borgarlækni, bráðamóttöku lagaðist ástandið ekki fyrr en skjólstæðinggurinn lést og Ragnheiður sagði það ekki einsdæmi. Hún sagði til góð úrræði en þau hentuðu ekki okkar veikustu einstaklingum. Hjálpin þar þarf að koma inn á heimilið. Hún er mjög ósátt við hve fá úrræði heimaþjónustan hefur til að leita í. Það líður ekki sú vika að Ragnheiður fái ekki svona mál inn á borð til sín. Dagvistun eina úrræðið sem heimaþjónustan hefur til að koma fólki út úr þeim aðstæðum sem það býr við á hverjum degi.
Margt fleira fróðlegt og mikilvægt kom fram í erindum og pallborðsumræðum á málþinginu. Upptaka af því er aðgengileg inn á heimsíðu Landssambands eldri borgara, www.leb.is. Við hvetjum alla til að kynna sér þessi mál.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.