„Grár skilnaður“ og áhrif á uppkomin börn

Rannsóknir undanfarinna ára sýna að hjónaskilnaður á efri árum, svokallaður „grár skilnaður, hefur vaxið mikið og getur haft óvænt og djúp áhrif á fullorðin börn þeirra hjóna sem skilja.

Í nýlegri umfjöllun BBC um gráa skilnaði er farið yfir fjölda erlendra rannsókna á þessu sviði. Þar segir að í Bandaríkjunum séu nú um 36% skilnaða hjá fólki 50 ára og eldra. Árið 1990 var hlutfallið aðeins 8,7%. Sama þróun sést í mörgum löndum, m.a. í Kóreu og Japan, þar sem ævilíkur hafa lengst og fólk er minna tilbúið en áður að búa í óhamingjusömum hjónaböndum.

Flestar fyrri rannsóknir á hjónaskilnuðum hafa fjallað um áhrif skilnaðar á ung börn, en nýjar niðurstöður sýna að fullorðin börn (ef hægt er að tala um að börn séu fullorðin) verða einnig fyrir miklu áfalli. Þau lýsa oft reiði, sorg og langvarandi depurð, líkt og ung börn. Sum hætta jafnvel í eigin samböndum sínum eða fara að efast um eigið sjálfstraust.

Samböndin við foreldra breytast líka. Margar rannsóknir á þessu sviði benda til þess að eftir skilnað haldist börnin nær móðurinni en fjarlægist föðurinn. Þýsk langtímarannsókn frá 2024 sýndi að tengsl uppkominna barna styrktust við mæður en minnkuðu við feður. Þessi móðurtenging getur aukið félagslega einangrun feðra, sérstaklega ef þeir eiga sér nýja maka.

Í umfjöllun BBC er haft eftir Joleen Greenwood, prófessor í félagsfræði við Kutztown-háskóla í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, sem rannsakað hefur þessi mál, að gráir skilnaðir geti einnig haft áhrif á tengsl einstaklinganna sem skilja við systkini og aðra ættingja, til dæmis varðandi hátíðahald og fjölskyldusiði.

Þó eru niðurstöðurnar ekki einhliða. Sum fullorðin börn finna fyrir létti þegar foreldrar skilja, sérstaklega ef þau hafa alist upp við átök og rifrildi.

Íslensk gögn um gráa skilnaði eru af mjög skornum skammti. Hér á landi er hlutfall hjónaskilnaða hátt í alþjóðlegum samanburði og oft vísað til þess að um 40% hjónabanda hér endi með skilnaði. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er algengast að hjón skilji hér á landi á aldursbilinu 35 – 44 ára. En þar sem fólk lifir sífellt lengur er líklegt að sama þróun sé hér og í öðrum vestrænum ríkjum. Því þyrfti ráðgjöf, sem sveitarfélög veita í tengslum við hjónaskilnaði, beinist einnig að gráum skilnaði og áhrifum á uppkomin börn þeirra sem eiga í hlut.

Emil B. Karlsson skrifar fyrir Lifðu núna.