
Arndís Valgarðsdóttir sálfræðingur
Líðan fólks – það er mjög misjafnt hvernig fólki líður með að hætta störfum. Ákveðnir lykilþættir sem skipta máli fyrir okkur öll og geta verið brothættir gagnvart eldra fólki. Sjálfræði, virðing og reisn, lífsfylling og virkni og heilsa og umönnun.
Sjálfræði – um eigin málefni eins og að hætta störfum
Virðing og reisn – fyrir sjálfum sér og frá öðrum
Llfsfylling og virkni – félagstengsl, hlutverk, virkni
Heilsa og umönnun – ábyrgð á eigin heilsu og öryggi gagnvart þjónustu heilbrigðis- og félagslega kerfisins.
Heilsufar og félagsleg staða hefur mjög mikið að segja þar. Mjög misjafnt er hvernig fólk upplifir það að eldast, margir eru sælir og glaðir og finnst gott að eldast. Margt fólk sem eru komið er á hefðbundinn eftirlaunaaldur eru við góða heilsu og eru virkir langt fram eftir aldri. Flestir vilja lifa það að verða gamlir en færri vilja þó vera gamlir.
Margir er mjög ánægðir að hætta á vinnumarkaði, þreyttir eftir langa starfsæfi og hlakka til að eiga tíma fyrir sig, fjölskyldu og vini, áhugamál og ferðalög. Upplifa starflokin oft eins og gott sumarfrí til að byrja með. Hjá þeim sem eru frískir kemur stundum leiði eftir tiltekinn tíma, finnst „fríið“ orðið of langt og komin löngun til að fá hlutverk og samfélagslega stöðu eins og áður.
Einnig eru margir sem vilja gjarnan halda áfram að vinna eftir 67-70 ára og ætti að gefa fólki kost á sveiganlegum eftirlaunaaldri í meira mæli og þiggja vinnuframlag og þekkingu fólks á þessum aldri, margir eru heilsugóður og hressir með góða starfsgetu og vinnugleði. Algengt er að fólk vill taka þátt í samfélaginu en upplifir að mega það ekki og finnst sem þeim sé ýtt út og séu ekki lengur jafn gildir samfélagþegnar.
En það er auðvitað jafn mikilvægt að þeir sem vilja hætta störfum á þessum venjubundna eftirlaunaaldri eða fyrr hafa tök á því.
Það verða oft miklar breytinga á högum fólk á þessum aldri og ef við tölum um lífsgæði er vert að nefna að bjartsýni og æðruleysi fólks tengist betri aðlögunarhæfni og bjartsýnu fólki farnast betur að laga sig að breytingum en þeim sem hneigjast til svartsýni. Bjartsýnir upplifa að öllu jöfnu meiri lífsánægju en þeir sem eru bölsýnni. Þeir eru heilsubetri, eiga betri sambönd og samskipti, eru hamingjusamari og langlífari. Rannsóknir benda til að aðlögunarhæfi fólks og æðruleysi aukist með aldrinum. Það er því til mikils að vinna að temja sér bjartsýna hugsun frekar en svartsýni.
Versnandi heilsufar fylgir yfirleitt efri árunum og getur haft mikil áhrif á andlega líðan – verri heyrn, verri sjón, stirðleiki og liðverkir.
Það er mörgum erfitt að takast á við þverrandi getu og færni og veldur oft vanlíðan og pirringi. Hægt er að bæta líðan heilmikið með einföldum hætti t.d. með viðeigandi hjálpartækjum eins og gleraugum, heyrnatækjum o.s.frv. Það er ágætt að hafa í huga að bíða ekki of lengi með að láta athuga slíkt. Með aldrinum aukast líkur á heilsufarsvanda og líkamlegri vanlíðan og margir finna t.d. fyrir liðverkjum, breytingum á skynjun og jafnvægisleysi á efri árum. Erfiðar tilfinningar eins og sorg, reiði og pirringur getur fylgt versnandi heilsu. Einmanaleiki, þunglyndi, kvíði og vanmáttur geta líka verið erfiðir fylgifiskar þegar aldurinn færist yfir.
Það getur verið gott að hugsa um hækkandi aldur og þverrandi getu eins og skipulagt undanhald. Beina sjónum sínum að því sem hægt er að gera í stað þess sem ekki er hægt eða orðið erfitt. Þú veist kannski að þú þarft að hætta að fara í hæstu skíðabrekkurnar en getur þó ennþá gengið eða skíðað í lægri brekkum. Það er slæmt þegar fólki upplifir vanmátt og uppgjöf og gefst upp við að reyna á mátt sinn og megin. Það er svo ótal margt sem hægt er að gera og jafnvel gera betur en yngra fólk getur. Það er ósanngjarnt að bera sig 70 ára að aldri saman við sjálfan sig t.d. 40 ára. Mjög líklegt er að 70 ára sé manneskjan töluvert verr á sig komin líkamlega en hún var 30-40 ára en það má ekki gleyma að 70 ára hefur ýmiskonar reynslu og þekkingu sem 40 ára hefur ekki. Einu sinni heyrði ég sagt að „Það sem fertugur getur gerir fimmtugur betur“ Það má vel heimfæra það á fleiri aldurskeið þó að það komi að því að fari að halla undan fæti á endanum ef fólk lifir svo lengi.
Fjárhagsáhyggjur
Eru töluvert algengar hjá eldra fólki, sérstaklega konum sem margar eiga ekki góð lífeyrisréttindi og lækka kannski mikið í tekjum við starfslok. Margir upplifa óöryggi varðandi afkomu sína. Það getur tekið mikið á og valdi þungum áhyggjum. Meirihluti þessa aldurshóp á eigið húsnæði sem er mikil gæfa en alls ekki gefið og ef fólk á ekki eigið húsnæði getur fólk lent í miklum vanda vegna hárrar leigu, erfiðleika við að að fá leiguhúsnæði við hæfi og getur verið mikið óöryggi sem fylgir því að geta átt á hættu að missa húsnæðið. Svo er líka oft þannig að húsnæðið er orðið óþarflega stórt og of kostnaðarsamt vegna reksturs og viðhalds fyrir fólk á eftirlaunaaldri. Og jafnvel þó fólk eigi ágæta eign fyrir sem það vill selja fyrir íbúð sem henta betur eru þannig íbúðir oft mjög dýrar og alls ekki á allra færi að eignast þær.
Svo hefur fólk oft áhyggjur af börnum sínum og barnabörnum, að þau geti ekki lengur rétt þeim hjálparhönd.
Annars er fólk á þessum aldri ýmsu vant og eru oft nægjusöm. Samkvæmt rannsókn sem gerð var fyrir tæpum 20 árum voru meðalráðstöfunartekjum ekki nema um 60% af þeim tekjum sem taldar voru hæfilegar en samt höfðu tæp 80% fólksins ekki fjárhagsáhyggjur (Hagir og viðhorf eldri borgara; Viðhorfsrannsókn desember 2006-janúar 2007. Aldur 67-80 ára af öllu landinu). Ég held að þetta eigi eftir að breytist hratt og til framtíðar megi búast við mun meiri kröfum af hendi eldra fólks.
Óöryggi
Það getur fylgt því mikið óöryggi að eldast. Breytingum á högum fólks fylgir oft óöryggi og kvíði. Fólk veit hvað það hefur en ekki hvað er í vændum ef breytingar verða á lífstíl.
Þverrandi færni og geta á mörgum sviðum fyllir fólk óöryggistilfinningu og óþægilega kvíðablandna hræðslu, fólki finnst það ólíkt sjálfu sér og treystir sér minna en áður. Sumir upplifa óöryggi varðandi það að veikjast skyndilega eða detta og geta ekki náð í hjálp. Þetta eru líka atriði sem margir aðstandendur hafa áhyggjur af þegar dregur úr getu og þreki eldra fólks.
Þunglyndi meðal eldra fólks
Hversu algengt er það?
Þunglyndi er algengt og er einn algengasti sálræni vandinn á Vesturlöndum.
Á Íslandi leggst þunglyndi á um 25% kvenna og 12% karla einhvern tíma á ævinni og af þeim eru 67 ára eða eldri um 12%.
Þunglyndi fylgja margskonar einkenni sem snerta geðslag, hegðun og líkamlega þætti. Þunglyndi veldur mikilli vanlíðan og skerðir getu fólks á ýmsan hátt. Það getur valdið depurð, vonleysi, áhugaleysi, þrekleysi, einbeitingaskorti, svefntruflunum, þyngdarbreytingum, vanmætti og eirðarleysi. Almennt versna lífsgæði töluvert hjá þeim sem þjást af þunglyndi.
Stundum er ruglast á þunglyndi og heilabilun hjá eldra fólki enda geta einkennin verið svipuð. Það er mikilvægt að greina þar á milli þar sem hægt er að hjálpa fólki með mismunandi hætti eftir því hvor greiningin á við. Einnig eru margir á efri árum að upplifa sorg vegna breytinga á stöðu sinni, missis eða veikinda og verða þá mjög daprir sem gæti verið misskilið sem þunglyndi.
Er munur á kynjunum?
Konur líklegri en karlar til að hafa þunglyndiseinkenni en karlar á öllum aldri og eldri konur eru allt að tvöfalt líklegri til að greinast með þunglyndi en eldri karlar. Í hópi 67+ er hlutfall þunglyndis meðal kvenna um 11% en 4,5% hjá körlum.
Er þetta dulið vandamál – feimnismál?
Þunglyndi er dulið vandamál og getur verið feimnismál. Margir skammast sín fyrir vanlíðan sína, finna til mikils vanmáttar og geta orðið bitrir og reiðir yfir að svona sé komið fyrir þeim.
Fordómar í garð geðlækna og sálfræðinga eru algengir hjá fólki á þessum aldri og eldra fólk er mun líklegra til að leita læknis vegna líkamlegra verkja heldur en andllegrar vanlíðan þó svo að vandinn sé meira andlegur. Við kunnum að orða það ef við finnum til líkamlega en síður ef við finnum til andlega. Þau eru mörg sem eru illa læs á tilfinningar sínar og hafa farið í gegnum lífið á hnefanum. Þetta er þó sem betur fer mikið að breytast og sífellt fleiri í þessum aldurshópum leita til sálfræðinga nú en áður var.
Þegar hægist um í daglegu amstri á efri árum er algengt að gömul vandamál fara að minna á sig og sérstaklega ef fólki líður illa fyrir. Þá eru kannski gömul særindi jafnvel frá æskuárum orðin þungbærari en áður þegar fólk var önnum kafið og átti auðveldara með að bægja þeim frá sér.
En líka að nýr vandi komi upp sem fylgir þá kannski því að eldast. Óánægja vegna hrörnunar líkamans og útlistbreytinga sem það hefur í för með sér getur lagst þungt á sumt fólk. Þessi stöðugi missir sem fólk fer oft að upplifa. Breytingar á félagslegri stöðu í samfélaginu, fólk upplifir að hætt sé að taka mark á þeim og þeim er ekki lengur treyst til ýmissa hluta.
Það er oft mikil sorg í lífi eldra fólks, það hefur svo mikla lífsreynslu. Fólki hefur misst ástvini og gengið í gegnum alskonar erfiðleika sem það hefur kannski unnið misvel úr. Svo bætist við heilsubrestur og færniskerðing og ofan á allt annað þarf fólk jafnvel að flytja að heiman og segja meira og minna skilið við fyrri lífshætti.
Lyf eða aðrar leiðir
Þunglyndislyf eru mikið notuð hér á landi og geta gagnast ágætlega. Það getur verið erfitt að eiga við þunglyndi og sumir hafa ekki gagn af lyfjum.
Virkni og samskipti við aðra eru öllum mikilvæg og þar hallar oft á eldra fólk sem getur átt erfitt með virkni, býr jafnvel eitt og hefur takmarkaðan aðgang að samskiptum.
En það er ástæða til að hvetja fólk til að halda sér vel virku, t.d. nýta sér félagsstarf aldraðra og þjónustumiðstöðvar eftir bestu getu. Það er mjög margt í boði.
Sjálfsvígshætta
Sjálfsvíg eru mun algengari meðal karla en kvenna en breytilegt eftir aldri og sjálfsvígshætta eykst hjá eldri körlum, sérstaklega eftir makamissi. Sjálfsvíg eru ekki mjög algeng meðal aldraðra en oft verður dauðaóskir áberandi. Þeir sem missa heilsuna og eru t.d. stöðugt verkjaðir eða eiga erfitt með daglegar athafnir verða oft mjög þreyttir og hugsa sér þá stundum að dauðinn sé kærkomin hvíld.
Búseta – heima, hjúkrunarheimili
Margir eldri borgarar eru hressir og geta búið heima langt fram á efri ár. Sérstaklega ef völ er á góðri þjónustu inn á heimilið. Það er erfitt að flytja á efri árum og sérstaklega ef áfangastaðurinn er hjúkrunarheimili. Því getur fylgt mikil sorg og sérstaklega hjá hjónum sem verða þá oft aðskilin eftir áratugalangt hjánaband, þá er sorg bæði hjá þeim sem flytur og hinum sem situr einn eftir. Þunglyndi er algengara hjá þeim sem búa á hjúkrunarheimilum en úti í samfélaginu (Ingibjörg Hjaltadóttir, 2011)
Það skiptir mjög miklu máli hvernig hjúkrunarheimilin eru og að fólk upplifi það sem heimili. (Eden hugmyndafræðin – heimilislegt, sjálfræði, virkni, umhyggja og virðing).
Þegar hjón eldast saman er algengt að breyting verði á hlutverkum innan hjónabandsins ef annað þeirra veikist. Þá verður hinn makinn oftast í umönnunarhlutverki gagnvart þeim veika sem getur reynst mjög erfitt, það getur bæði verið erfitt að vera þiggjandi og gefandi í því sambandi og reynt verulega á sambandið. Að verða veikur af langvinnum eða ólæknaði sjúkdómum veldur mikilli sorg bæði hjá þeim veika og líka hjá makanum.
Svefn eldra fólks
Með aldrinum er algengt að breytingar verði á svefnvenjum. Margir fara fyrr að sofa og vakna mjög snemma. Andvökur aukast með aldrinum og eftir 65 ára aldur segjast rúmlega 30% eiga í svefnerfiðleikum. Konur eru líklegri til að stríða við svefntruflanir en karlar. Þegar menn eldast eru svefnvandamál meðal helstu umkvörtunarefna og notkun svefnlyfja eykst mjög en hún er fimm sinnum meiri meðal aldraðra en meðal miðaldra fólks.
Þegar fólk hættir að vinna liggur það oft lengur í rúminu en áður án þess endilega að sofa meira. Það getur aukið á þá tilfinningu að svefngæðin séu ekki góð. Það skiptir miklu máli er að halda góðri svefnrútínu, fara að sofa og á fætur á svipuðum tíma alla daga og ekki venja sig á að sofa yfir daginn.
Eldra fólk sem farið er að finna mikið til hrörnunar hreyfir sig eðlilega minna en þeir sem eru líkamlega vel á sig komnir. Líkamleg athafnasemi er aftur á móti verndandi þáttur sem dregur verulega úr líkum á svefnleysi og bætir gæði svefns. Fólk sem hreyfir sig hæfilega mikið finnur til meiri hvíldar og líður betur.
Ofbeldi
Ofbeldi af hendi maka, annarra aðstandenda og líka af hendi umönnunaraðila er algengara en menn vilja trúa. Það er oft mjög dulið en hjá eldri aldurshópum geta verið allar tegundir ofbeldis eins og hjá öðrum í samfélaginu, líkamlegt, andlegt, félagslegt, fjárhagslegt og kynferðislegt.
Hirðuleysi, vanræksla og virðingaleysi er alltof algengt, sérstaklega þegar fólk er orðið öðrum háð að meira eða minna leyti. Ofbeldi sem hefur viðgengist áður getur aukist vegna vanmáttar þolanda við að bera hönd fyrir höfuð sér. Ofbeldi getur orðið til vegna pirrings hjá þeim sem umgengst eldra fólk vegna hrörnunar og vangetu þess og stundum sjá óprúttnir aðilar sér leik á borði að beita þann aldraða fjárhagsofbeldi. Þeir eru oft mjög hugmyndaríkir í þeim efnum. Þeir geta verið jafnt nánir ættingjar eða netsvikarar.
Það getur verið að sumum finnist dregin upp heldur dökk mynd af því að eldast en þá má ekki benda á að sálfræðingar hitta skjólstæðinga sína helst á tímum þar sem þeir eru að glíma við vandamál í sínu lífi og eru sannarlega ekki upp á sitt besta. Mjög margt fólk sem er að hætta störfum og fara á eftirlaun er hresst fólk í fullu fjöri og sem tekur mikinn þátt í daglegu lífi í samfélaginu.
Það er engin ástæða til annars en að hlakka til efri áranna og þess að njóta þess frelsis sem þeim fylgir.
Arndís Valgarðsdóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Höfðabakka skrifar.







