Varð að vanda sig við að ljúga ekki

Lilja Magnúsdóttir var sílesandi allt frá því hún lærði að lesa. Hún hafði óskaplega gaman af sögum, bæði að segja þær og heyra þær, svo ritað mál opnaði henni nýja leið að ótrúlegum dásemdum. Það er því kannski ekkert undarlegt að hún hafi sjálf farið að reyna sig við að skrifa og setja saman texta. Hún hefur einnig reynt sig við bókaútgáfu og í ár kemur hennar fjórða bók fyrir sjónir almennings.

Hvenær byrjaðir þú að skrifa?

Lilja Magnúsdóttir
Ljósmyndari: ÁGE

„Ég hef skrifað fyrir skúffuna frá því ég var unglingur. Ég sendi sögu í Vikuna þegar ég var um tvítugt og hún var birt, önnur saga kom út hjá TMM og ég laumaði fleiri smásögum í einhver tímarit. Ég var mjög veik fyrir sögum, eins og Arna í sögunni Feluleikir, og gat setið tímunum saman, steinþegjandi, að hlusta á mömmu og vinkonur hennar tala saman. Frænkur mínar voru margar skemmtilegar. Ein sagði sögur af verkalýðsmálum og kommúnisma, vondum vinnuveitanda, sem var reyndar frændi minn, og fáránleika kapítalismans. Þetta var ég að hlusta á svona um átta ára aldurinn.

Ein vinkona mömmu sagði sögur af bræðrum sínum sem voru giftir konum sem þeir svo skildu við, annar tók saman við fyrri konu bróður síns en hinn tók saman við stjúpdóttur bróðurins og svo skildu þau og þá giftist þessi … og … svona gekk sagan og ég skildi lítið í þessu en naut þess að hlusta. Sögukonan hló af og til og jesúsaði sig yfir söguefninu og hélt svo áfram með sögur af bræðrunum.

Svo var það amma mín og nafna sem sagði sögur af hvað hún var dugleg að hlaupa og þótti gaman að vera á hestbaki þegar hún var barn að alast upp í Landeyjum. Ég hélt langt fram eftir aldri að hún hefði átt auðvelt og gott líf en komst svo að því að hún sagði bara frá því sem var jákvætt og skemmtilegt. Þannig endurskapaði hún eigin ævisögu sem er góð leið til að upplifa sig sem sigurvegara í lífinu. Amma sagði svo sögur af fólki sem átti erfitt en mér datt aldrei í hug að hún þekkti þær aðstæður af eigin raun. Ég veit ekki hvað sálfræðingar segja en ég held að það hjálpi manni á vissan hátt að einbeita sér að því sem tókst vel frekar en eyða of miklum tíma í að hugsa um það sem illa fór í lífinu og maður getur ekki lagfært. Sumar persónur í bókinni Feluleikir hafa falið sögu sína  áratugum saman og það hefur verið þeim þungbært en stundum er ekki önnur fær leið.“

Eins og persónurnar skrifuðu sig sjálfar

Þótt mörg börn hafi gaman af sögum og lestri reyna þau sig ekki endilega við að skrifa sjálf. Hvað knúði þig til að reyna þig við að skrifa?

„Ég var mjög góð í íslensku og gat auðveldlega skáldað upp sögur um hvað sem var. Ég skrifaði sögurnar stundum niður, stundum ekki og þegar ég var unglingur varð ég að vanda mig að ljúga ekki að fólki þegar mér datt eitthvað sniðugt í hug,“ segir hún.

Lilja er íslenskufræðingur, kennari og ritstjóri að mennt og hefur kennt víða. Var það áhugi þinn á bókmenntum sem varð þess valdandi að þú gerðist kennari?

„Ég las mjög mikið frá því ég var krakki. Ég valdi að fara í íslensku til að geta orðið rithöfundur. Ég fór í ritlist hjá Nirði P Njarðvík og það var mjög hvetjandi. En svo tók lífið við og ég varð, eins og aðrir, að koma mér upp þaki yfir höfuðið. Ég og sambýlismaður minn fluttum á Kirkjubæjarklaustur og þar eignuðumst við dóttur. Eina vinnan á þeim stað var kennsla svo ég skellti mér suður og tók kennsluréttindin. Svo kom drengur sex árum síðar. Ég flutti með krakkana í bæinn til að dóttir okkar gæti farið í framhaldsskóla og ég fór að kenna í MK. Þar var ég með áfanga þar sem nemendur mínir skrifuðu sögur fyrir börn og einn daginn skrifaði ég smásöguna Svikarinn sem ég fékk glæpasagnaverðlaunin Gaddakylfuna fyrir. Það var mjög hvetjandi. Smásagan varð seinna að skáldsögu án þess að ég hefði mikið fyrir því. Það var eins og persónurnar skrifuðu sig bara sjálfar.“

Hvenær kviknaði hugmyndin að Feluleikjum? Var eitthvert sérstakt atvik innblástur að henni?

„Ég byrjaði að skrifa Feluleiki í upphafi árs 2024. Fyrst kom Arna, svo kom sagan af því hvernig hún varð til og lygi bræðranna um að hún væri af tyrknesku bergi brotin, svo kom amman og svo systirin og hennar saga; sú saga varð til eins og af sjálfu sér. Karlmennirnir Baldur og Arngrímur komu svo í kjölfar kvennanna. Annars er þetta nú ekki mjög skipulegt hjá mér. Hugmyndirnar koma án fyrirhafnar, málið er að halda þeim til haga og raða þeim upp þannig að eitthvert vit verði í frásögninni. Bygging sögunnar er helsta áskorunin.“

Skáldsagan Feluleikir hefst í Fljótshverfi.

Hefur lagt hart að sér til að geta skrifað

Lilja hefur skrifað frásagnir af menningu, sögu og náttúru í Skaftárhreppi og birt þær á vefnum Eldsveitir.is Þar er sagt frá Gullskipinu sem strandaði á Skeiðarársandi, sandbyl í Meðallandi sem hrakti fólk í burtu úr sveitinni, eldgosi í Kötlu sem olli því að hringvegurinn var lokaður í 7 daga, Grímsvatnagosinu árið 2011 sem spjó ösku yfir sveitirnar vorið 2011 og mörgu fleiru. Örlítið brot af þessu safni sagna er tvinnað inn í skáldsöguna Feluleiki. Þetta er fjórða bókin þín, áttu von á að halda áfram að skrifa?

„Já, þetta er þriðja skáldsagan og svo er eitt smásagnasafn. Já, ég er þegar komin með hugmynd að nýrri bók en það tekur tíma að melta hugmyndina áður en ég set eitthvað niður á blað. Það er draumur minn að geta unnið við að skrifa.“

Skógafoss er hluti af sögusviðinu í Feluleikjunum.

Er ekkert erfitt að finna tíma til að sökkva sér ofan í skriftir meðfram fullri vinnu og öðru sem lífið býður upp á?

„Ég hef unnið mikið og lagt mig fram um, ásamt sambýlismanni mínum, að greiða niður skuldir til að geta skrifað án þess að hafa fjárhagsáhyggjur,“ segir hún. „Á þessu ári gat ég loksins gat ég tekið mér frí frá annarri vinnu og skrifað. Ég hef kennt nokkrum nemendum íslensku, skrifað námsefni og unnið við heimasíðugerð en að öðru leyti hef ég helgað mig því að skrifa. Það er alveg nauðsynlegt að einbeita sér þegar sagan er komin langt á veg og ómetanlegt geta setið við fyrri part dags og skrifað. Ég gerði mér ekki grein fyrir hvað sagan var umfangsmikil fyrr en hún var orðin að bók – 352 blaðsíður. En eftir á er ég svolítið undrandi á sumu sem er í bókinni. Ég veit ekki hvernig mér dettur í hug allt sem gerist. – það er bara eins og það komi til mín.“

Hvernig bækur finnst þér skemmtilegast að skrifa – en lesa?

Lilja Magnúsdóttir
Ljósmyndari: Ásta Kristjánsdóttir

„Þegar ég var að byrja að skrifa Feluleikina hugsaði ég mikið um hvernig bækur mig langaði að lesa og þannig bækur langar mig að skrifa. Mig langar að lesa um fólk. Venjulegt fólk sem tekst á við óvenjuleg vandamál og óvæntar uppákomur. Kapitola var fyrsta ástin. Lína langsokkur var fyrirmynd mín árum saman. Ég er mjög hrifin af bókum Kristínar Mörju, sérstaklega fyrstu bókunum hennar og svo bókunum um Karitas, Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur er ein af mínum uppáhaldsbókum, Kaldaljós eftir Vigdísi heillaði mig mjög á sínum tíma, Hús andanna, Hundrað ára einsemd og Óbærilegur léttleiki tilverunnar komu út á íslensku þegar ég var í háskóla og ég gleypti þær í mig. Bækur Péturs Gunnarssonar um Andra í Punktur, punktur komma strik og sú sería öll fannst mér mjög góð, svo og bækur Einars Más sérstaklega serían sem byrjar á bókinni Fótspor á himnum.

Fátækt fólk eftir Tryggva Emilisson las ég sem unglingur og varð alveg dolfallin, Anna Frank breytti sýn minni á lífið, Ég lifi eftir Martin Grey var rosaleg á sínum tíma. Bækur Einars Kárasonar finnast mér allar dásamlegar og persónugalleríið virkilega skemmtilegt, hvort sem er í Djöflaeyjuseríunni eða Sturlungualdarbókunum. Önnu frá Stóru-Borg eftir Jón Trausta las ég sem barn og kunni þá sögu utan að og ætlaði að láta minn son heita Hjalta – gerði það reyndar ekki þegar á reyndi. Svo fór ég í íslensku í Háskóla Íslands og þar las ég Íslendingasögur, riddarasögur og skrifaði ritgerð um Ólafs sögu Helga í Heimskringlu. Ég las Tímaþjófinn hennar Steinunnar og varð svo reið við þessa leiðindakerlingu, hana Öldu, svo las ég Nafn rósarinnar, Da Vinci lykilinn og bara margt af því sem kom út á íslensku Ég var forstöðumaður Héraðsbókasafnsins á Kirkjubæjarklaustri í fimm ár og þá fylgdist ég mjög vel með öllu sem kom út. Bókasafnið keypti flestar íslenskar ævisögur sem og ég las mjög margar ævisögur íslenskra kvenna þessi fimm ár sem ég sá um bókasafnið. Ég get talað um bækur og bókmenntir endalaust og læt því þessari upptalningu lokið,“ segir hún.

Feluleikir. „Það er svo mikil einlægni á fjöllum“ höfðar til lesenda frá aldri fjórtán til níutíu og fjögurra ára eða upp úr eins og Lilja segir. Sumir vilji flokka hana sem spennusögu en aðrir kalli hana ljúflestrarbók eða kósýkrimma. Hún telur ekki mikilvægt að setja merkimiða á bókina og hver og einn upplifir hana á sinn hátt. Lilja rekur eigin útgáfu sem heitir BRANA bókaútgáfa. Hugsanlega er þar verið að vísa í tröllkonuna, Brönu sem segir frá í Hákonarsögu Brönufóstra eða merkingu orðsins sem er hugrökk kona.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.