
Skyggnst inn um jólaglugga að utan í Bakkatofu. Útstillingin minnir á jólaútstillingar í Rammagerðinni í æsku Ástu og Valgeirs og fólk sem komið er yfir miðjan aldur man eftir.
Á Eyrarbakka fyrir miðju þorpi stendur hús sem eitt sinn var Kaupfélag Árnesinga. Nú hefur hlutverk þess breyst í menningarhúsið Bakkastofu þar sem gestir geta upplifað innilega stund saman undir sagnaflutningi og lifandi tónlist.
Hjónin Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson tóku sig upp fyrir um 14 árum og settust að á Eyrarbakka þaðan sem Ásta Kristrún á ættir sínar að rekja. Þau komu sér fyrir með menningarmiðlun að leiðarljósi. Þangað fylgdi þeim húsbúnaður sem þau höfðu átt til langs tíma og kom að mestu frá fjölskyldu Ástu Kristrúnar og eru sum hver 2-300 ára gömul.

Heimili þerra hjóna er hlaðið fallegum munum úr lífi Ástu og Valgeirs. Á þessari mynd er rússnesk jólakirkja og þegar tendrað er á kertunum snýst hreyfillinn fyrir ofan. Í horninu má sjá styttu af tónlistargyðju sem Ásta gaf bónda sínum (deus de music). Þarna má sjá glitta í Ólínu Þorvarðardóttur sem var eitt sinn gestur í Bakkastofu.
Á efri hæð hins gamla Kaupfélags, fyrrum lúxusíbúð kaupfélagsstjóra hjónanna, er að finna einskonar einkasafn gamalla muna. Biskupaskápurinn úr Skálholti sem trónir í enda stofunnar er til dæmis um 300 ára gamall.

Ásta segir sögur og gestir Bakkastofu njóta aðventunnar og jólastemningarinnar sem ríkir í húsinu. Á bak við jólatréð glittir í Biskupaskápinn frá Skálholti sem er frá 17. öld.
Hér upplifa gestir gamla tímann í stofum sem sem enn er búið í og eru fullar af lífi og sögum en Ásta Kistrún er þekkt fyrir sínar lifandi sögustundir. Nú þegar aðventan nálgast eru stofurnar klæddar í sinn árlega jólabúning, skreyttar jólamunum sem sumir teygja aldur sinn aftur fyrir barnæsku Ástu Kristrúnar og einnig til uppvaxtarára hennar.
Á neðri hæð Bakkastofu þar sem verslun kaupfélagsins sjálf var til húsa, er nú móttökustofa og sófasalur sem tileinkuð eru tónlistinni. Gömlu búðargluggarnir við götuna fá á sig andblæ liðinnar aðventutíðar með jólasveinum, Betlehemsstjörnum og geithöfrum. Hvort sem það eru börn eða fullorðnir sem staldra við, upplifa þau án efa jólaljósið innra með sér. Gestafjöldi og gestir eru af öllum toga, fjölskyldur, vinir, félagasamtök og svo má lengi telja. Bakkastofa rúmar allt að þrjátíu gesti en þegar þeir eru fleiri getur dagskráin breyst í einskonar hringekju með Bakkastofu sem upphafsreit en gestgjafarnir flytja gesti sína á milli staða í þorpinu. Síðan njóta gestgjafar Bakkastofu hinnar fallegu og hljómgóðu Eyrarbakkakirkju en hún er einskonar tónleikahús þorpsins.
Þá státar þorpið af hinum rómaða veitingastað Rauða húsinu sem er á Gamla torginu og þar má svo sannarlega njóta vellystinga. Rauða húsið er við torgið og líka hið sögufræga hús „Húsið“ sem nú er Byggðasafn Árnesinga.
,,Heimurinn kemur til okkar“
„Það er einstaklega gefandi að fá til okkar erlenda gesti í bland við Íslendingana. Fjölbreytileikinn í þjóðerni þeirra er mikill og sumir hverjir koma meira segja beint frá fjarlægum heimalöndum sínum eins og Ástralíu, Kína, Japan og víðar. Það er ljóst að orðspor Íslands og Íslendinga hefur borist víða,“ segir Ásta Kristrún. „Að hitta landann í því návígi sem við bjóðum í dagskrám Bakkastofu er alveg einstök upplifun. Sögustund, samvera og tónlist er blanda sem hreyfir svo sannarlega við erlendum gestum okkar ekki síður en landanum. Nálgun okkar er að vera frjáls í fasi og mynda tengsl eins og kostur er.
Tónlistin sem við bjóðum enskumælandi gestum er úr SAGA MUSICA bálki Valgeirs, en þar eru textarnir á ensku og eru einskonar örsögur úr minni Íslendingasagna. Ég flyt stuttar hnitmiðaðar kynningar á undan hverju lagi og undirbý þannig upplifun áheyrenda og innlifun,“ segir Ásta Kristrún.

Mynd af tveimur Stuðmönnum og mökum og Ágústi Guðmundssyni sem leikstýrði Með allt á hreinu. Þau komu saman í léttu útgáfuhófi en öll fögnuðu þau útgáfu af enhverju tagi.
„Það merkilega við sögur og sögustundir er hversu þær tendra á sögum sem búa innra með gestum. ,,Allir búa yfir sögum en eru mismeðvitaðir um þær en samtölin, sem fá sitt pláss í Bakkastofu leiða oft til frásagna gestanna og kveikja sagnaneistann hjá þeim og margir hverjir koma þá sjálfum sér á óvart,“ segir Ásta Kristrún og brosir.

Jólagluggar í Bakkastofu. Gömlu búðargluggarnir við götuna fá á sig andblæ liðinnar aðventutíðar með jólasveinum, Betlehemstjörnum og geithöfrum.
Andstæðurnar
„Oftar en ekki koma gestir kappklæddir inn úr kuldanum á þessum árstíma inn í hlýjuna í Bakkastofu og njóta þess að hlýða á sögur tengdar jólum við kertaljós og drekka ef til vill heitan súkkulaðidrykk, óáfenga eða áfenga jólaglögg og eitthvað fott að maula með,“ segir Ásta. „Þegar Valgeir tekur svo fram gítarinn og flytur blandað efni úr eigin smiðju eða lög í anda jóla og nýárs gerist eitthvað gott.“

Ásta kemur fram í kjól af móðurömmu sinni
Ásta Kristrún segist nýta í sögum á þessum tíma hina ómetanlegu bók Árna Björnssonar „Saga daganna,“ þar sem hann gerir hefðum ýmissa daga og hátíða einstök skil. Þar má koma gestum skemmtilega á óvart um hina ýmsu siði og uppruna þeirra.
Skipta með sér verkum og vinna vel saman
Ásta segir að undanfarin ár, eftir að Valgeir hóf að glíma við veikindi, hafi hennar hluti í dagskrám orðið stærri sem gestgjafi, sögukona og veitingastjóri. „Gestir sem koma til okkar fá alltaf einhverjar veitingar en það er nauðsynlegt þar sem þeir koma oft langa vegu. Þá er gott að fá einhverja hressingu.“ Aðspurð sagði Ásta Kristrún að á nýafstöðnum tónleikum með Stuðmönnum í Hörpu hafi Valgeir ekkert dregið af sér í söng og slætti þrátt fyrir yfirstandandi krabbameinsmeðferð og í raun heldur ekki í þau rúmu þrjú ár sem hann hefur glímt við veikindin.
Upplifunargjöf
Nú á tímum, þegar fólk er orðið meðvitaðra um mikilvægi samveru og jákvæðra upplifana, er farið að líta til dagskráa Bakkastofu sem mögulega „upplifunargjöf“. „Við höfum þegar haldið eina slíka fyrir þessi jól,“ segir Ásta. „Það var fyrir fjölskyldu norðan úr landi sem kom til okkar en amman og afinn hafa haft þann háttinn á að gefa uppkomnum börnum sínum þannig jólagjöf. Ömmu- og afabörnin fengu auðvitað að koma með en við höfum ýmislegt áhugavert fyrir ungu kynslóðina að fást við ef þau hafa ekki úthald í það sem heillar þá fullorðnu.
Svo gerist oft að börn gefa foreldrum sínum upplifun í Bakkastofu. Þau njóta upplifunarinnar ríkulega og þær stundir hafa alltaf verið geysilega vel heppnaðar,“ segir Ásta.
Gisting og upplifun
Á Eyrarbakka eru líka góðir gistimöguleikar og Ásta Kristrún segir að margir hafi nýtt sér möguleikann að gera skemmtilega helgarferð úr jólagjöfinni. „Tímasetning dagskráa getur verið allskonar. Sumir vilja koma kl. 11 að morgni og byrja hjá okkur í Bakkastofu í huggulegheitum. Síðan fer fólk oft í göngutúr um þorpið, skoðar til dæmis jólatrjáasafnið í „Húsinu“ þar sem Ásta, langamma mín fæddist og ég er skírð í höfuðið á,“ segir Ásta.

Mynd tekin fyrir jólatónleika í Tryggvaskála um síðustu jól.
„Í Húsinu bjó mitt fólk,“ bætir hún við. „Afi minn og amma fluttu hingað saman, hún frá Húsavík en hann frá Hafnarfirði, en þau eru meðal annars þekkt fyrir að hafa breytt verslunarháttum á Eyrarbakka. Fram að því hafði einokunarverslun ríkt á Íslandi og illa verið farið með landann. Afi minn, Guðmundur Thorgrimsen, hafði lært verslunarfræði í Köben og kynntist þar Sylvíu ömmu minni. Sylvía hafði farið þangað með ömmu sinni 14 ára gömul og verið sett beint í danskan barnaskóla og tónlistarnám. Hún var orðin virtur konsertpíanisti 25 ára gömul þegar hún giftist afa þar ytra.

Jólastemmning í Bakkastofu. Hún varð síðan

Hópurinn – Myndin er tekin fyrir utan Rauða húsið og má sjá erlenda gesti með ármótablys. Gestir í gegnum ferðaskrifstofu sem Bakkastofa starfar með koma tvisvar í mánuði allan ársins hring og á jólum og líka í tengslum við nýja árið – Þeir gestir koma hvaðanæva að úr heiminum.
Hún var síðan virtur brauðryðjandi tónlistar hér Suðurlandi. Allir hennar afkomendur urðu síðan tónlistarfólk, þar á meðal faðir minn Ragnar Tómas Árnason. Svona kemur tónlistin fyrst inn í mitt líf,“ segir Ásta Kristrún. „Húsið og saga fjölskyldu minnar hér á Eyrarbakka var segullinn sem fékk okkur Valgeir og afkomendur okkar til að flytja hingað og stunda menningarmiðlun eins og fjölskylda mín gerði á 19. öld,“ segir Ásta stolt.
Ásta tekur við fyrirspurnum og bókunum á netfanginu bakkastofa@gmail.com og taka má fram að allar dagskrár eru sérsniðnar.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.







