
Emil B. Karlsson
Á Facebook-síðu minni birtast stundum afmælistilkynningar frá látnum vinum mínum og ég hvattur til að senda viðkomandi árnaðaróskir í tilefni dagsins. Ég fæ þá alltaf óþægilega tilfinningu um að verið sé að raska friðhelgi þess látna sem fái ekki að hvíla í friði. Þetta ætla ég sko ekki að láta gerast eftir mína daga – en hef samt ekkert gert í málinu. Líklega vegna þess að það er svo óþægilegt að hugsa um dauðann og allt sem honum viðkemur.
Við skiljum öll eftir okkur spor – ekki aðeins í lífinu, heldur líka á netinu. Myndir, tölvupósta, færslur á Facebook og reikninga á hinum ýmsu vefjum lifa oft áfram löngu eftir að við höfum kvatt.
Ný skýrsla frá sænsku Internetstofnuninni sýnir að tveir af hverjum þremur Svíum hafa áhyggjur af stafrænum arfi sínum, en aðeins einn af hverjum tíu hefur tekið skrefið og gert áætlun um hvað skuli gerast við netreikningana eftir andlát. Líklega má heimfæra þessa tölfræði uppá okkur Íslendinga. Flestum okkar er umhugað um hvað verður um þessi stafrænu fótspor okkar. – Hvort til dæmis Facebooksíður okkar lifi áfram eftir okkar daga.
Staðreyndin er samt sú að ef við sjáum ekki til þess að gera hjá okkur stafræna tiltekt, eða fáum einhvern annan til þess, er hætta á að missa stjórn á því sem eftir verður og sést opinberlega um ókomna tíma. Persónuupplýsingarnar eru ekki eingöngu okkar eigin – þær tilheyra líka stórfyrirtækjum á borð við Meta og Google. Persónuverndarlögin ná til þess að verndar lifandi einstaklinga. Fyrir látna eru reglurnar óljósari.
Sumir gætu viljað dauðhreinsa allt sem fram hefur komið fram á samfélagsmiðlareikningum þeirra, aðrir gætu vilja grisja burt einkasamskipti eða viðkvæmar myndir. Svo bjóða sumir samfélagmiðlar uppá þann kost að breyta til dæmis Facebooksíðu einstaklings í minningarsíðu um viðkomandi eftir dauðann. Þannig hafi eftirlifandi ættingjar og vinir aðgang að þeim upplýsingum sem viðkomandi vill skilja eftir sig. Alla vega er mikilvægt að skilja eftir sig lykilorð að samfélagsmiðlareikningum til eftirlifandi sem maður treystir, hvort sem það er haft sem hluti af erfðaskrá eða í sjálfstæðu skjali.
Að ýmsu er að huga í slíku skjali: Í fyrsta lagi upplýsingar um hvaða samfélagsmiðla, tölvupósta, skýjaþjónustur og öpp viðkomandi hefur notað. Í öðru lagi hverju eigi að eyða, geyma eða breyta ef ætlunin er að gera minningarsíðu. Þá þarf að tilnefna þann sem fær aðgang að reikningum eftir andlát og getur sinnt lokauppgjöri. Sá tilnefndi fái lista yfir öll aðgangsorð.
Í grein sem birtist nýlega í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter er sagt frá ofangreindri rannsókn Internetstofnunarinnar. Þar kemur einnig eftirfarandi fram um þær reglur og möguleika sem mismunandi samfélagsmiðlar vieta í þessu sambandi:
- Facebook: Hægt að breyta reikningum í minningarsíður eða eyða þeim.
- Instagram: Hægt að breyta reikningnum í minningarsíðu eða eyða eftir tilkynningu um dauða eiganda reikningsins.
- Google: Býður upp á að tilnefna umsjónarmann sem fær aðgang eftir óvirkni. Eftirlifandi aðstandendur geta óskað eftir að reikningi verði eytt eða fá aðgang að efni á reikningnum.
- Apple/Icloud: Arftaki getur fengið aðgang með sérstakri beiðni.
- WhatsApp: Eyðir reikningum eftir 120 daga óvirkni.
- LinkedIn og Snapchat: Aðstandendur geta óskað eftir lokun eða eyðingu.
Emil B. Karlsson skrifar.







