Vinátta er teygir sig milli tilverustiga

Vináttan er dýrmæt og verðmæti hennar vex með árunum. Flestir eru svo heppnir að eiga vini og stundum endist vinátta alla ævi. En það er til annars konar vinátta sem felst í að virða tilverurétt þeirra sem búa í steinum og hömrum hér á landi. Það getur borgað sig og sumir hafa fengið góð laun fyrir að vera álfum vinveittir en aldrei blómstrar þó slík vinátta betur en þegar börn koma í heiminn, þjóðsögurnar af álfkonunum í barnsnauð eru skýr merki um það.

Álfkonudúkurinn frá Burstarfelli

Margar sögur eru til af því að konur og reyndar stundum karlar væru sótt inn í bæ til að þegar álfkonur átti í erfiðleikum með að fæða. Oftast nægði að mennsk manneskja legði hönd á þær og þá gekk allt betur. Þess voru einnig dæmi að huldukonur laumuðu óþekktarungum sínum inn á heimili mannanna og líklega er átján barna faðirinn í álfheimum þekktasta dæmi um slíkt. Í fornsögunum var það vináttubragð að bjóða barni annarra fóstur og enn í dag treystum við ekki hverjum sem er fyrir börnunum okkar.

Fyrir átta árum var sett upp á Burstarfelli í Vopnafirði sýningin Lausir endar er hverfðist í kringum Álfkonudúkinn svokallaða sem sýslumannsfrúin á þeim bæ hlaut að launum fyrir fæðingaraðstoð við álfkonu í klettunum fyrir ofan bæinn. Norsk kona,  Birgit Lund, hefur rannsakað dúkinn og sett fram kenningar um uppruna hans. Alla jafna er dúkurinn varðveittur í Þjóðminjasafninu en var sendur í heimahagana til að kynna rannsóknir Birgitar fyrir Vopnfirðingum og um leið verk norskrar listakonu, Ingridar Larsen, sem hún vann undir áhrifum frá honum.

Burstarfell í Vopnafirði

Þjóðargersemi með magnaða sögu

Álfkonudúkurinn frá Bustarfelli er þjóðargersemi frá 17. öld sem varðveittur er á Þjóðminjasafni Íslands. Fornleifafræðingurinn Birgit Lund og listakonan Ingrid Larssen dvöldu á Vopnafirði og urðu heillaðar af Álfkonudúknum og sögu hans. Birgit hefur borið dúkinn dúkinn saman við tvo sambærilega dúka í Noregi og fundið vísbendingar um uppruna hans. Norsku dúkarnir eru frá Giske og Kvernes og eru sláandi líkir Álfkonudúknum, bæði hvað varðar myndmál og útsaumstækni.

Ingrid Larsen er Íslendingum að góðu kunn en hún hefur starfað á Íslandi  og átt þátt í að setja upp magnaðar sýningar m.a.  á útsaumsverkum í Minjasafni Austurlands á Egilstöðum undir yfirskriftinni, Festum þráðinn. Handavinna hefur í gegnum tíðina einnig verið góð leið fyrir konur til að rækta vináttu sín á milli. Saumaklúbbarnir okkar eru kannski þekktasta dæmið um það. Þetta menningarfyrirbæri á sér langa sögu og þótt hlutverk þeirra frá upphafi hafi fyrst og fremst verið að gefa önnum köfnum konum tækifæri til að hittast, slaka á og vera þær sjálfar var þar margt gagnlegt gert. Konurnar kenndu hver annarri, ný útsaumspor og prjónamynstur, tóku sig iðulega saman og unnu að góðgerðarmálum, skiptust á uppskriftum og góðum ráðum. Margir saumaklúbbar byrja þegar stúlkur eru á unglingsaldri og haldast gangandi ævina á enda og merkilegt að sjá hvernig rosknar konur kasta ellibelgnum í návist náinna vinkvenna.

Stuðningur er nefnilega máttarstólpinn í slíkum vináttusamböndum og margreynt að þar er að finna mjúkan beð að falla á ef eitthvað bjátar á. Orðatiltækið, konur eru konum verstar hljómar illa í eyrum margra, enda hitt mun algengara. Fatahönnuðurinn Andrea Magnúsdóttir var ein þeirra er kunni illa slíkum sleggjudómum og fyrir nokkru voru til sölu í verslun hennar bolir með slagorðinu, Konur eru konum bestar og þeir ruku út. Líklega gefur það sterka vísbendingu um að vinátta íslenskra kvenna sé traust og flestar þeirra hallist því í þá átt að orðatakið eigi tæpast rétt á sér.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.