Það er eitthvað á sveimi í Dýrleifarvík. Sumir í Lohr-fjölskyldunni skynja það en aðrir ekki. Notaleg laut við ána í skjóli klettadrangs þar sem hylurinn er dýpstur er gott að sofna og þá opnast dyr milli heima. Þetta er sögusvið Huldukonunnar eftir Fríðu Ísberg. Þar er sögð saga þriggja kynslóða fjölskyldu sem á rætur að rekja í afskekkta vík á Íslandi.
Þetta er ekkert venjuleg fjölskylda, þau eru kaupmenn, búa við velmegun en ákveðinn skuggi hvílir yfir. Systurnar Jóhanna og Karlotte eru elsta kynslóðin sem sagan segir frá og þegar ungur sonur Jóhönnu hverfur og hún skömmu síðar tekur Karlotte saman við eiginmann hennar og á með honum þrjár dætur. Þær vaxa upp og eignast sín börn þar á meðal Sigvalda sem skírður er í höfuð afa síns. Sigvaldi reynist efnispiltur en einrænn og undarlega áhugalaus um að koma sér upp fjölskyldu. Hann flytur einn til Dýrleifarvíkur, í hús langaafa síns og ömmu og dag einn kemur hann með barn sitt í heimsókn til fjölskyldunnar. Hver er móðirin og hvers vegna er hún ekki hjá ástmanni sínum og barni?
Þetta er saga um hvernig ástin virðir engin landamæri og hversu erfitt það getur reynst elskendum að byggja upp líf þegar þeir tilheyra ekki sömu veröld. Í þessari sögu ríkir velmegun öðru megin en hinum megin er lífið einfaldara og erfiðara. Þar bjóðast fá tækifæri og sjálfsþurftabúskapur á öllum sviðum. Minnir óneitanlega á aðstæður margra manneskja í heiminum dag, sumir búa við ógnir, fátækt og skort meðan aðrir hafa öll lífsins þægindi innan seilingar og halda hinum fjarri með ýmsum aðferðum. En er hugsanlegt að opna veginn sameina elskendur og gefa fólki tækifæri sem það hafði ekki áður? Fríða Ísberg hefur sín svör en okkar samfélag þarf að svara þessu og finna mannúðinni farveg. Þetta er mjög athyglisverð og vel skrifuð saga. Fríða hefur lipran frásagnarstíl og kann vel byggja upp spennu. Lohr-fjölskyldan er sérlega skemmtileg og litrík. Það er óhjákvæmilegt að hrífast með og vilja þeim öllum allt hið besta. Lýsingar á náttúru og landslagi eru líka svo lifandi og áhugaverðar að lesandann langar óhjákvæmilega að heimsækja Dýrleifarvík.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







