Sextán ára gamall ákvað Louis Vuitton að hann ætlaði að breyta heiminum. Hann sá ekki fyrir sér hernaðarsigra eða innrásir í önnur lönd heldur töskur sem myndu gleðja fólk, hjálpa því að ferðast milli landa og njóta sín á mannamótum. Louis tókst ætlunarverkið og enn í dag eru ferðatöskur hans þær allra flottustu á bandinu á hvaða flugvelli sem er.

Louis Vuitton
Hann fæddist í í litlu frönsku fjallaþorpi, Anchay þann 4 . ágúst árið 1824. Hann var kominn af verkamönnum langt aftur í ættir og pabbi hans var bóndi en móðirin hattagerðarkona. Hann missti móður sína aðeins tíu ára en faðir hans giftist fljótlega aftur. Sagan segir að stjúpa Louis hafi reynst honum einstaklega vond og þegar hann þoldi ástandið ekki lengur strauk hann að heiman. Þrettán ára gamall lagði hann land undir fót og markmiðið var að komast til Parísar. Það tókst eftir tveggja ára ferðalag og margvísleg ævintýri. Hann vann hvar sem hann gat stundum aðeins fyrir mat og húsaskjóli en dag nokkurn árið 1837 gekk hann inn í borgina sem svo lengi hafði verið aðeins fjarlægur draumur.
Fljótlega komst hann á samning hjá kassagerðarmanni að nafni Marechal. Hann sá einnig um að pakka niður fyrir fólk fyrir flutninga og ferðlög. Hinn ungi Vuitton sá fljótlega möguleikana í þessari starfsgrein og hafði fyrr en varði náð að skapa sér orðspor sem allra sniðugasti pakkamaður Parísar. Vendipunktur í sögu þessa hugrakka og duglega manns varð svo þegar Louis Napóleon Bonaparte bróðursonur hins eina sanna Napóleons tapaði kosningum árið 1852 en tók þá völdin og krýndi sjálfan sig keisara og kallaði sig Napóleon III. Kona hans Eugene Monjito var spænsk greifynja og réði Louis Vuitton til að pakka fötum sínum, fylgihlutum og skartgripum á stórkostlegan hátt.

Svona litu fyrstu töskurnar út.
Strigataskan sló í gegn
Frumkvöðullinn og listamaðurinn Vuitton nýtti tækifærið vel og bjó til box og töskur, ólíkar því sem nokkur hafði séð áður. Hann kunni vel að búa til kassa en nú fengu þeir alls konar yfirborð, höldur, hólf og fleira. Óhætt er að segja að eftir þetta hafi allir dyr staðið honum opnar. Hann kvæntist árið 1954 Clemence-Emilie Parriaux og sama ár fór hann úr þjónustu Marechal og opnaði eigið verkstæði. Fjórum árum síðar setti hann á markaði byltingarkennda nýung, ferðatösku úr striga í stað leðurs sem var miklu léttari en nægilega sterk til að endast. Um svipað leyti reið iðnbyltingin yfir og almenningsamgöngur tóku stórstígum framförum með tilkomu gufuvélarinnar. Ferðatöskur voru því vinsæl vara og Vuitton annaði engan veginn eftirspurn.
Árið 1870 braust út stríð milli Frakklands og Prússlands og í kjölfarið braust út borgarstríð í Frakklandi. Þorpið Asnieres þar sem Vuitton framleiddi vörur sínar var lagt í rúst í átökunum og þegar Vuitton kom þangað árið 1871 voru öll áhöld og tól horfin og ekki stóð steinn yfir steini. En hinn þrjóski drengur sem hafði frá þrettán ára aldri séð um sig sjálfur gafst ekki upp. Hann byggði nýtt verkstæði frá grunni og að þessu sinni að Rue Scribe í miðborg Parísar og einbeitti sér að framleiðslu lúxusvara. Aftur sló hann einmitt réttan tón og eftirspurnin var meiri en nokkru sinni. Hann lést árið 1892 sjötugur að aldri en sonur hans George tók við fyrirtækinu og hann bjó til hið fræga vörumerki LV.

Í dag lifir fyrirtækið ekki síst á framleiðslu alls konar handtaska.
George hóf þegar markaðssetningu á alþjóða vettvangi. Hann kynnti merkið fyrir bandarískum neytendum og þar sló það strax í gegn. Árið 1936 lést Georget og sonur hans Gaston-Louis tók við. Meðan á síðari heimstyrjöldinni stóð vann hann með leppstjórn nasista í Frakklandi og orðspor fyrirtækisins beið við það mikinn hnekki. Hann hóf einnig aftur að nota leður í flestar vörur fyrirtækisins. Þá þegar höfðu orðið til margar af klassískum töskum sem enn eru framleiddar, þar á meðal Speedy Bag, Noé-taskan og árið 1966 varð Papillon til. Marc Jacobs var ráðinn aðalhönnuður fyrirtækisins árið 1997 en fjórum árum síðar kom Stephen Sprouse inn og vann í samvinnu við Jacobs nokkrar frægar vörulinur. Takashi Murakami hefur sömuleiðis unnið með Jacobs en í dag framleiðir fyrirtækið einnig fylgihluti þar á meðal sólgleraugu, klúta og fleira. Louis Vuitton er án efa frægasti töskuframleiðandi í heimi og merki hans án nokkurs vafa stimpill sem margir sækjast eftir á bæði handtöskur og farangur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







