Hlýleika, birtu og gleði fórnað í byggingalist

Manneskjur þurfa birtu, gott loft, fallegt útsýni og aðstæður til að skapa sér gleðilega afþreyingu. Allt þetta þarf að vera til staðar í borgarumhverfi til að gott mannlíf skapist. Margir telja að þetta sé að hverfa af höfuðborgarsvæðinu. Nú snýst allt um að fylla upp í öll göt með blokkum sem rúma nógu marga. Engu skiptir hvort ljós berst inn í íbúðirnar eða í kringum þær séu fallegir reitir. Inn í þessa umræðu talar hin bráðsnjalla og skemmtilega bók Andra Snæs Magnasonar, Jötunsteinn.

Árni heillast af fallegum formum og hvernig hægt er að bæta umhverfið þegar hann fær það verkefni í unglingavinnunni að leggja hellur. Engin teikning er til staðar og ekki tími til að bíða eftir að hönnuður skili sínu svo Árni fær frjálsar hendur og með hjálp nokkurra unglinga leggur hann stétt með hjarta og sál. Þetta verður til þess að hann vendir sínu kvæði í kross og lærir arkitektúr. Í faginu kynnast hann margvíslegum reglum og grunnstoðum þess að skapa hús sem sameina fegurð og vellíðan íbúanna en þegar heim kemur skellur íslenskur veruleiki af fullum þunga á honum. Hann teiknar hús fyrir byggingaverktakafyrirtæki í eigu feðga en í stað þess að nýta hugmyndir Árna skera þeir miskunnarlaust niður og breyta teikningum hans þannig að ekkert gott stendur eftir en hræódýrt er að byggja þessar íbúðir. Að lokum grípur arkitektinn til örþrifaráða.

Hér er velt upp ótalmörgum hugmyndum og hugsjónir, mennska og metnaður takast á við græðgina og hljóta að tapa. Þessi bók er ákaflega tímabær, líkt og aðrar bækur Andra Snæs. Hann kemur nær einhvern veginn alltaf að styðja fingri á auma blettinn þannig að svíði undan. Og við þurfum að hlusta á vegna þess að sársaukinn er raunverulegur. Mjög víða erlendis hafa verið byggð upp ljót blokkarhverfi sem samanstanda af ódýrum ljótum íbúðum. Þar safnast saman fólk sem glímir við fátækt eða félagsleg vandamál og situr þar fast. Ekkert i umhverfinu örvar það eða gefur von. Þangað stefnum við hraðbyri. Eftir fáein ár munu aðeins þeir sem ekki hafa efni á neinu betra vera tilbúnir til að kaupa á þéttingareitum borgarinnar. Við verðum að staldra við og velta fyrir okkur hvernig borg við viljum byggja upp og búa í. Sú öfugþróun sem náði hápunkti sínum í byggingu Græna gímaldsins er þegar komin alltof langt.

Í Jötunsteini nær Andri Snær að sýna á magnaðan hátt hvernig raunveruleikinn, þegar hann stjórnast af lítilmennum með smásmugulega sýn drepur niður áhuga, eldmóð og gleði. Árni er nýkominn úr námi, enn með hugsjónir og sköpunarkraftinn óskertan. Í námi fáum við nefnilega að leyfa slíku að ráða verkefnum okkar, leiða þau áfram og skína í lokaútgáfunni. Þegar út í lífið er komið taka við málamiðlanir, skyndilausnir og flýtileiðir. Það þurfa almennt allir að smætta drauma sína og enduskapa hugsjónirnar en þá takast á samviskan og þörfin fyrir að sjá sér farborða. Árni í Jötunsteini er fulltrúi allra þeirra fagmanna sem hafa varað við þróun bygginga í borginni, umhverfisfræðingar, verkfræðingar, arkitektar, landslagsarkitektar og fleiri hafa reynt að benda á að reglur um birtustig, fjarlægðarmörk, hljóðvist og vandað byggingarefni hafa verið mildaðar gríðarlega og þverbrotnar í sumum tilfellum. Jötunsteinn er frábært vakningarit og vonandi berum við gæfu til að hleypa að fleiri ungum arkitektum á borð við Árna og losna við verktaka á borð við BJB-verktaka.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.