Aftenging er fyrsta bók Árna Helgasonar lögmanns og fjallar á gráglettinn hátt um vináttu milli fólks, hversu háð við erum nettengingu og hversu ógnvekjandi það getur verið að standa frammi fyrir því að öll þín leyndarmál séu afhjúpuð. Söguþráðurinn snýst um hóp vina, þau njóta öll eða hafa notið ákveðinnar velgengni og hafa ákveðið að halda út í eyjuna Grið til að fá frið og aftengjast farsímum, netinu og öðru áreiti.
Á eynni hefur Arthúr Metúsalem, auðmaður sem auðgaðist á því að búa til öpp byggt upp íburðarmikla aðstöðu þar sem gestir kúplað sig út úr daglegu áreiti nútímans, enda nær ekkert netsamband á eyjunni. Þetta hljómar vel barnlaus helgi í bústað með vinum en það eru alls konar undiröldur að rugga bátnum áður en haldið er af stað. Ein kona í hópnum er stök. Þórhildur og Freyr eru skilin og hún virðist hafa fengið vinahópinn út úr eignaskiptunum og Gunnar, sögumaðurinn er ekki viss um að það sé sanngjarnt en konurnar ákveða þetta. Gunnar er líka stressaður að hitta Tind, æskuvin sinn. Gunnar hafði nefnilega fengið hann til að útvega sér fjárfesti í fyrirtæki sínu en það endað með að sá tók fyrirtækið yfir og rak Gunnar með skít og skömm úr eigin rekstri. Einhver spenna er líka milli hjónanna Sigrúnar og Gunnars og Tindur virðist drekka nokkuð mikið.
Þegar þau svo frétta eftir að hafa lagt á sig erfiða göngu upp á hæð á eynni að víðtækur gagnaleki hefur orðið í þjóðfélaginu fer það misvel í fólk og sumir hafa greinilega meira að fela en aðrir. Og svo fara þeim að birtast ýmis samskipti hinna og þá er ekki víst að vináttan lifi það af.
Hugmyndin að baki sögunni er mjög góð og segja má að Aftenging sé skemmtileg útfærsla á t.d. glæpasögum þar sem fólk kemur saman á afskekktum stað og smátt og smátt fer hópurinn að tína tölunni. Agatha Christie skrifaði meðal annars eina slíka, And Then There Were None og Gwen Bristow og Bruce Manning, The Invisible Host. Diplómati deyr eftir Elizu Reid er svo íslensk útgáfa af slíkum reyfara. Árna tekst ágætlega það sem hann ætlar sér. Flétta bókarinnar er vel uppbyggð, textinn rennur vel og sumar vendingarnar koma á óvart. Sumar persónur eru svolítið klisjukenndar en það er ágætt að hafa í huga að ansi margar raunverulegar manneskjur eru það. En þegar á heildina er litið er þetta ágæt ádeila á nútímasamfélag og velmegunarkapphlaupið og hversu grunnt vináttan ristir þegar peningar og önnur lífsgæði eru annars vegar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







