Tengdar greinar

Sjö staðir til að kynnast nýjum maka

Þessi grein eftir Nancy Davidoff Kelton rithöfund, birtist á systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum og í myndatextanum segir að kannski eigir þú eftir að hitta nýjan maka á ströndinni, sem er frábært, en gildir kannski ekki alveg á Íslandi og alls ekki að vetri til!!  En hugsanlega má fá einhverjar hugmyndir að láni frá vesturheimi, sem hjálpa fólki sem er eitt, til að kynnast nýju fólki. Hér kemur greinin þýdd, stytt og staðfærð.

Þúsundir Bandaríkjamanna langar til að kynnast nýju fólki af gagnstæðu, eða jafnvel sama kyni til að gera eitthvað skemmtilegt með, en hafa ekki fundið réttu leiðina til þess. Aðra sem eru framtakssamari og hafa skellt sér á stefnumót með nýju fólki, langar hugsanlega að kynnast fleirum.

Ef stefnumótasíður höfða ekki til þín, eru staðir þar sem hægt er að hitta annað fólk. Það þarf að hafa svolítið fyrir því, en um að gera að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug. Þeir sem eru tilbúnir að reyna, ættu skoða hvort einhver þessara sjö leiða gæti hjálpað.

  1. Á vinnustaðnum.

Það þarf að fara varlega þegar fólk tekur upp samband á vinnustað og gæta að ýmsu. Ef sambandið fer í vaskinn getur verið mjög erfitt, jafnvel ömurlegt að þurfa að horfa framan í hvort annað. Spurðu bara Bridget Jones! En ef ástin fer að blómstra í vinnunni getur það verið erfitt og truflandi, ef fólk er stöðugt að reyna að finna lausa stund til að ræða saman tvö ein. En ástarsambönd geta þrifist á vinnustað. Dæmi er tekið í greininni um fólk sem vann á auglýsingastofu þar sem mikið var að gera og tókst að halda ástarsambandi sínu leyndu í næstum heilt ár. Á ráðstefnum sem haldnar eru í tengslum við vinnuna eru líka tækifæri til að stofna til nýrra kynna.

  1. Á viðburðum sem tengjast börnum eða barnabörnum.

Greint er frá fráskilinni konu sem var að undirbúa brúðkaup dóttur sinnar og varð skotin í blómasalanum. Eftir brúðkaupið fór hún til hans í búðina til að þakka honum persónulega fyrir góða þjónustu. Hann gaf henni blómvönd. Hún bauð honum í kvöldmat og þau hafa verið saman í 15 ár.

Annað dæmi sem ekki gekk jafn vel upp, var konan sem bauð ekkli sem hún þekkti í hádegisverð. Hann talaði ekki um annað en konuna sína allan tímann. Hún velti fyrir sér hvort þetta hefði ekki verið rétti tíminn, eða þau ekki rétta fólkið. Það var að minnsta kosti alveg klárt að hann var alls ekki tilbúinn í annað samband.

Hér á Íslandi færist það í vöxt að afar og ömmur eru með barnabörnunum á íþróttamótum, skólaskemmtunum eða tónleikum. Þar gefst ef til vill tími til að hitta aðra sem eru í svipuðum sporum.

  1. Á námskeiðum

Það er best að velja sér námskeið í greinum sem menn hafa brennandi áhuga á – og helst námskeið þar sem menn sækja tíma ásamt öðrum. Það hefur lítið uppá sig í þessu sambandi að taka námskeið á vefnum og sitja einn heima við skjáinn á meðan.

Tekið er dæmi í greininni um fráskilinn karlmann sem fór á matreiðslunámskeið. Þar áttu menn að útbúa mat tveir og tveir saman og hann lenti með einhleypri konu í liði, en þau áttu að elda saman eggplöntu með parmesan og grænmetis lasagne. Þau fóru svo saman á framhaldsnámskeið. Þetta var fyrir þremur árum og þessa dagana eru þau stöðugt að sniglast í eldhúsinu hvort hjá öðru.

Þá segir frá konu sem var kennari á námskeiði í skrifum. Hún hafði eina reglu. Hún fór ekki út með nemendum sínum. Maður sem vann við ritstörf sótti námskeið hjá henni. Hann skrifaði greinar á námskeiðinu um brúðkaup sonar síns, hverng var að verða afi og hvernig hann lærði að búa einn. Þegar námskeiðinu var lokið, bað hún hann um að láta sig vita, ef hann fengi greinarnar birtar. Hún sagði honum að hann mætti líka hafa samband, þótt hann fengi greinarnar ekki birtar. Hann hringdi í hana viku síðar og þau fóru að fara út saman – þar til hún komast að því að hann bjó hreint ekki einn!!

Hér á landi er boðið uppá fjölda námskeiða fyrir alla. Endurmenntun Háskóla Íslands gerir það, en mörgum finnst þau námskeið full dýr. Félög eldri borgara eru með mun ódýrari námskeið og Tækniskóli Íslands (gamli Iðnskólinn og Sjómannaskólinn) býður sífellt fjölbreyttara úrval námskeiða. Þá er kjörið fyrir þá sem hafa áhuga á að læra eitthvað nýtt að gerast félagar í Háskóla þriðja æviskeiðsins, en þar eru haldin námskeið sem kosta sáralítið. Einnig eru í gangi dansnámskeið, en oft þarf að hafa dansfélaga með sér á slík námskeið, en ekki alltaf. Línudans er til dæmis mjög skemmtilegur og þar geta allir dansað, hver með sínu nefi – eða öllu heldur fæti.

  1. Í sumarleyfinu

Greinarhöfundurinn á aarp, segist hafa leigt sér hús á ströndinni þar sem boðið var uppá að deila því með öðrum. Þannig kynntist hún mönnum sem hún átti síðar eftir að fara út með. Slík strandhús eru varla til leigu hér á landi, en hugsanlega er hægt að komast í samband við fólk sem vill deila sumarhúsi sem tekið er á leigu, eða jafnvel leigja bíl með öðrum til að fara til dæmis inná hálendið. Það er ódýrara og þannig er líka hægt að komast í kynni við fólk sem hefur svipuð áhugamál. Í greininni er sagt frá fólki sem kynntist á reiðhjólaferðalagi í Frakklandi. Hér á Íslandi er hægt að kynnast nýju fólki í skíðaferðum, golfferðum, gönguferðum innan lands og utan, svo dæmi séu tekin. Að ganga í Útivist eða Ferðafélag Íslands getur verið ágætis byrjun. Það er fátt sem jafnast á við gönguferð í íslenskum óbyggðum, ef menn treysta sér í það, og þar getur ástin kviknað og hefur iðulega gert.

  1. Á félagsfundum

Hér á landi er ekki jafn mikil hefð fyrir alls kyns sjálfboðaliðastarfi og gerist til dæmis í Bandaríkjunum. En Íslendingar eru mikið félagsmálafólk og ganga í alls kyns klúbba. Að ógleymdu kórastarfinu sem þúsundir manna taka þátt í um allt land. Hér eru félög eins og Rotary, Lions og Oddfellow vinsæl. En það er líka tilvalið að ganga í félög sem snúast um áhugamálin, svo sem stangveiðifélög eða Náttúrulækningafélagið. Stjórnmálaflokkarnir hafa sérstakar deildir fyrir eldra fólk, síðan eru auðvitað félög eldri borgara og þannig mætti lengi áfram telja. Hafir þú gaman af að syngja í kór, býður það uppá alls konar félagslíf og jafnvel söngferðir til útlanda. Með því að taka þátt í félagsstarfi er hægt að kynnast nýju fólki.

  1. Í flugvélum, lestum eða rútum

Það er auðvelt og líka fullkomlega eðlilegt að hefja samræður við sætisfélaga um borð í flugvél eða í rútu. Þið eigið það að minnsta kosti sameiginlegt að vera á leiðinni á sama stað. Það má hefja samræðurnar á að ræða um bókina eða blaðið sem þú ert að lesa, nú eða sætisfélaginn, eða fríið sem þú ert að fara í. Að bjóða einhverjum af nestinu sínu, getur líka verið ágætis leið til að hefja samræður.

Greinarhöfundur segir svo frá vinkonu sinni sem hitti tilvonandi eiginmann í flugvél á leið til San Francisco. Hún var á leið á ráðstefnu en hann átti heima þar. Þegar vélin lenti spurði hann hana hvort hún hefði tíma til að borða með honum kvöldverð eða fara með honum í skoðunarferð um borgina. „Hvorutveggja“ svaraði hún. Þetta varð til þess að þau áttu í fjarsambandi þar til hún flutti til San Francisco og þau tóku upp fast samband sem nú hefur staðið í 10 ár.

7.Í boði hjá vinum

Greinarhöfundurinn nefnir þennan möguleika ekki í sinni grein, en hér er honum bætt við.   Það er hins vegar mikilvægt þegar við eldumst og að sjálfsögðu einnig á yngri árum að hugsa um vini sína sem eru einhleypir. Stundum halda menn boð þar sem eingöngu er hjónafólk, eða eingöngu einhleypt fólk. Ekki hætta að bjóða vinum heim, sem missa makann. Ekki hætta heldur að bjóða vinahjónum heim, þótt þú hafir misst makann eða skilið. Kosturinn við að kynnast öðrum í gegnum sameiginlega vini, er að menn þekkja þá eitthvað til viðkomandi. Vinir eru ekki líklegir til að kynna aðra fyrir fólki sem er óalandi og óferjandi. Það er heldur ekkert að því að þeir sem eru einhleypir láti vini sína vita af því að þeir hafi áhuga á að hitta aðra einhleypa á sama aldri. Hlutir gerast nefnilega ekki endilega af sjálfu sér og fólk sem er komið yfir miðjan aldur stundar kannski ekki bari eða skemmtistaði.

 

 

Ritstjórn febrúar 1, 2023 07:00