„Stóra ástin er vatnslitun“

Margir sem eru komnir á eftirlaunaaldur, snúa sér oft að myndlist þegar harkinu á vinnumarkaðinum lýkur.  Lifðu núna ræddi við þrjár manneskjur sem hafa gert það.  Aðalbjörgu Helgadóttur, Helga Pétursson og Vilborgu Gunnlaugsdóttur. Þau hafa öll sótt námskeið, bæði hér heima og erlendis.  En hvers vegna sneru þau sér að myndlistinni?

Aðalbjörg Helgadóttir

Áhuga Aðalbjargar Helgadóttur á handverki ýmiss konar má rekja langt aftur í tímann. „Ég var alltaf handavinnunörd í skóla“, segir hún. Aðalbjörg eða Adda eins og hún er kölluð fór í framhaldsnám í Svíþjóð ung að árum.  „Þegar við bjuggum þar var mikið talað um að fólk ætti að „forverkliga sig själv“ eins og það var kallað. Það er að leyfa sér að springa út. Þarna voru allir á námskeiðum og ég lét ekki mitt eftir liggja og fór að sækja alls konar námskeið, meðal annars í leir og vefnaði. Ég fór líka á artþerapíu námskeið þarna úti. Ég átti góða vinkonu , Rósu Steinsdóttur, sem var listmeðferðarfræðingur og þegar ég var að kenna fékk ég hana oft í tíma til mín til að láta nemendur finna hvað listsköpun gerir þeim gott. Hún losar um og það er hægt að vinna með hluti sem er ekki hægt að tala um. Hennar listsköpun hafði mikil áhrif á mig. Stóra ástin í dag er vatnslitun, en ég sneri mér að henni eftir að ég fór á eftirlaun og er búin að vera í 4 ár í Myndlistarskóla Kópavogs sem gefur mér alveg óskaplega mikið“.

Helgi Pétursson

Þegar tónlistin tók yfir hvarf myndlistin

Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara og tónlistarmaður, fékk snemma áhuga á að teikna.   „Ég málaði og teiknaði frá barnæsku og dútlaði í þessu einn.  Ég var með mígreni þegar ég var krakki og það var ekki hægt að hafa mig með í fótbolta og slíku.  Dundaði í teikningu og átti japanska liti og vatnsliti.  Reyndar fann ég út að það var auðvelt að mála með vatnslitum á bökunarpappír sem ég bólaði upp á vegg, en mamma var nú ekki  hrifin af því uppátæki, enda gat hún ekki gengið að bökunarpappír á lausu eftir að ég gerði þessa merku uppgötvun.

Ég málaði allt milli himins og jarðar, – reyndi fyrir mér með portrett og verkin hrúguðust upp.  Aðeins ein mynd hefur komist í gegnum flutninga – blýhantsteikning af bátum í fjörunni á Kársnesi í Kópavoginum, ég held að ég hafi verið tólf, þrettán ára.

Skrýtið var það, að þegar tónlstin tók yfir – hvarf myndlistin alveg til hliðar og ég greip ekki í að teikna og mála fyrr en fyrir einum tíu árum þegar krakkarnir gáfu mér myndlistarnámskeið  í jólagjöf“.

Vilborg Gunnlaugsdóttir

Gaf sér ekki tíma vegna vinnunnar

Vilborg Gunnlaugsdóttir var oft í krefjandi störfum á meðan hún var á vinnumarkaðinum en fór, þegar á leið að stunda samhliða vinnunni alls kyns námskeið sem tengdust myndlist.  „Ég byrjaði 1966 að mála á postulín undir handleiðslu frábærra kennara, fyrst Sæmundar Sigurðssonar í fjölmörg ár.  Síðar lærði ég gler- og postulínsmálun hjá Ninný (Jónínu Magnúsdóttur).

Ég hef alltaf heillast af myndlist, ekki síst málverkum, og langaði að prófa sjálf.   En ég gaf mér aldrei tíma til þess vegna langs vinnudags alla tíð.  En vorið 1998 tók ég nokkurra vikna leyfi frá vinnu og notaði tækifærið til að fara á námskeið í Myndlistarskóla Kópavogs.

Byrjaði ég þar í grunnnámi í teikningu í 3 annir.  Þar með opnuðust nýjar víddir og ég fór á  námskeið í vatnslitamálun í skólanum, samhliða vinnunni.   Var ég þar við vatnslitamálun alla vetur síðan fram til vors 2019, og naut leiðsagnar frábærra kennara. Skal þar fyrst og fremst nefna Erlu Sigurðardóttur, og síðar Derek Mundell og Stepen Lárus Stepen. Auk þess hef ég sótt námskeið hjá ýmsum erlendum listamönnum, bæði hérlendis og erlendis og  hef eingöngu einbeitt mér að vatnslitamálun“.

Vilborg hefur algerlega snúið sér að vatnslitun

Sótti myndlistarnámskeið þar til hann gat ekki meira

Myndlistarskólar á höfuðborgarsvæðinu bjóða uppá myndlistarnámskeið meðal annars fyrir eldra fólk og Félag eldri borgara í Reykjavík er einnig að hleypa af stokkunum nýju myndlistarnámskeiði. Blaðamaður hafði samband við Myndlistarskóla Kópavogs og ræddi við Sigríði Einarsdóttur annan stofnenda skólans, en hún vinnur þar enn, orðin 87 ára. Sólveig Jónasdóttir sem stofnaði skólann ásamt henni fyrir 35 árum, er hins vegar hætt. „Hún situr í stjórn skólans og er tíu árum yngri en ég. Hún er bara unglamb“, segir Sigríður hlæjandi. Hún segir að það hafi færst í vöxt að eldra fólk sæki myndlistarnámskeið, en skólinn hefur frá upphafi verið opinn öllum, frá 6 ára og uppúr. Einn nemandi var farinn að sjá illa og gat ekki lengur ekið. „Hann fékk þennan til að keyra sig í dag og annan á morgun og sótti námskeið þar til hann gat ekki meira“, segir Sigríður.

Gefur mikið að stunda myndlist og njóta hennar

En hvaða þýðingu hefur myndlistin fyrir viðmælendurna þrjá.

„Ég hef mikla ánægju af að mála, og finnst glíman við litina, birtuna og vatnið mjög skemmtileg og ögrandi“, segir Vilborg.  „Að leyfa þeim að flæða og reyna að stjórna þeim mátulega mikið.  En það er ekki þar með sagt að ég hafi alltaf betur í þeirri glímu!!

Vorið 2019 gafst mér tækifæri til að vera með í stofnun nýs myndlistargallerís í Reykjavík, GALLERÍIÐ heitir það og er á  Skólavörðustíg 20. Þar hef ég átt mjög ánægjuleg ár, og notið þess að vera þar með frábæru listafólki. Hefur vera mín í galleríinu einnig opnað augu mín meira fyrir fjölbreytilegri list.

Að njóta myndlistar gefur mér mikið, og hef ég reynt að skoða og njóta þeirra sýninga sem í boði eru“.

Fjöllin eftir Helga Pétursson

Litir og tónar af sama meiði

Helgi segir myndlistina gefa sér mikið. „Myndlistin hefur auðvitað alltaf blundað í bakhöndinni,  Sigfús Halldórsson, sá góði maður, sagði mér að litirnir og tónarnir væru af sama meiði.  Ég trúi þvi og hef séð það, en get ekki útskýrt það. Svo er ég ofboðslega feiminn með mína myndlist – fer nánast með þetta eins og mannsmorð. En ég hef  haft uppburði í mér til að sækja námskeið hjá minni góðu vinkomu, Þuríði Sigurðardóttur, með öðru fólki og lifði það alveg af.

Svo málaði ég heil ósköp þessi ár sem við vorum úti á Jótlandi. Það bjó þessi fína listakona í húsinu og áður en ég vissi af var ég komin með verk á sýningu með nokkrum öðrum. Þar sem enginn þekkir mann, þar er gott að vera og allt það.  Seldi tíu myndir.

Myndlistin gefur mér mikið – sérstaklega að átta sig á myndbyggingu og handbragði, enda er ég oft beðinn um að fara frá málverkum á listasöfnum, þar sem ég hef verið með nefið niðri í verkunum. En ég er að upplagi mjög latur og þarf því að taka mig upp á hnakkadrambinu til þess að halda áfram. Það kemur að því“.

Jökull Aðalbjargar

Vatnslitirnir eru svo flæðandi

Listin var aldrei langt undan í lífi Öddu sem starfaði sem framhaldsskólakennari og leiðsögukona þar til hún fór á eftirlaun og tók ástfóstri við vatnslitina.  „Þeir eru svo flæðandi, það er svo gaman að leika sér með þá. Maður hefur ekkert endilega stjórn á þeim, en því meira sem þeir flæða þykir það flottara, segja kennararnir. Þá sé maður að ná tækninni. Ég mála öll gjafakort sem ég sendi. Svo hef ég sett nokkrar myndir í ramma og hengt upp heima, en ég vil ekki þröngva uppá fólk myndum sem ég mála.  Við sem vorum saman á námskeiði í Myndlistarskóla Kópavogs erum núna búin að fá okkur sal út í bæ, þar sem við komum saman í einu sinni í viku og málum  frjálst. Það er svo góð stemming í hópnum, við göngum á milli og skoðum hvert hjá öðru, gefum komment og þetta er afskaplega gefandi“.

 

Ritstjórn september 27, 2023 06:30