Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á fundi með stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík í síðustu viku, að laun eldri borgara yrðu hækkuð í samræmi við lög. Hann segir það rangt sem ýmsir hafi haldið fram að stjórnvöld vilji ekki hækka laun eldri borgara. Það sé líka rangt að þau hafi ekki staðið við kosningaloforðin sem gefin voru fyrir síðustu alþingiskosningar, en þá lofðu stjórnarflokkarnir eldri borgurum að kjör þeirra yrðu bætt og leiðrétt.
16 milljarðar í kjarabætur
Fjármálaráðherra segir að frá árinu 2013 hafi ríkisstjórnin varið 16 milljörðum króna í að bæta kjör eldri borgara, og einnig öryrkja, en um einn milljarður af þessari upphæð hafi farið í að bæta kjör þeirra. Hann segir að ríkisstjórnin hafi unnið að því að vinda ofan af þeim skerðingum sem búið var að grípa til áður og lögfest frítekjumark atvinnutekna eldri borgara, sem var hækkað úr 40 þúsund krónum á mánuði í 110 þúsund krónur. Það mætti velta fyrir sér, hvort þetta væri nógu mikið eða hvort þetta gengi nógu hratt, en hitt væri rangt að stjórnvöld vildu ekkert gera fyrir þennan hóp.
Ekki lögbundið að hækka til jafns við lægstu laun
Ráðherra segir að um næstu áramót verði ellilífeyrir hækkaður í samræmi við 69 gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt lagagreininni á ákvörðunin að taka mið af launaþróun, en þó þannig að hann hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Fjármálaráðherra segir að ekki sé kveðið á um það í lögunum að kjör ellilífeyrisþega hækki jafn mikið og lægstu laun í landinu.
Verið að reikna út hækkunina
Hann segir að í fjármálaráðuneytinu séu menn nú að reikna út hver hækkunin verður og er þá bæði verið að miða við launahækkanir á þessu ári og því næsta. Hækkunin verður tiltekin í fjárlögum næsta árs. Samið var um 300 þúsund króna lágmarkslaun í kjarasamningum nýlega. Bjarni sagðist ekki viss um að rétta stefnan væri að hækka allar bætur almannatrygginga í þá upphæð. „Eiga atvinnuleysisbætur að vera jafnar lægstu launum?“, spurði hann. „Þá skiptir ekki máli hvort menn vinna eða ekki. Mér finnst það röng nálgun“.
Vill skoða skerðingarnar
Bjarni sagði ástæðu til að skoða betur skerðingaráhrifin í almannatryggingakerfinu, þannig að fólk með lágar tekjur lenti ekki í fátæktargildru vegna endalausra skerðinga. Hann minnti jafnframt á að endurskoðun almannatryggingakerfisins stæði yfir og að það stæði til að einfalda kerfið og samræma réttindin.