Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er að undirbúa byggingu 52 íbúða í Árskógum 1-3 í Mjódd í Reykjavík. Byggingarlóðin er á móti Félagsmiðstöðinni Árskógum og hjúkrunarheimilinu Skógarbæ. Íbúðirnar eru ætlaðar félagsmönnum í FEB, en nær 10.000 manns eru í félaginu. Markmiðið er að byggja vandaðar íbúðir á hagkvæman hátt, eins og lög félagsins gera ráð fyrir.
Íbúðirnar frá 65 fermetrum
Það er ekki alveg ljóst hvenær byggingaframkvæmdir hefjast, þar sem enn er verið að hnýta lausa enda varðandi ákveðin formsatriði, sem snúa að Reykjavíkurborg. „Um leið og því verður lokið, hefjast framkvæmdir við íbúðirnar“, segir Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri FEB og áætlar að bygging þeirra taki um 1.5 til 2 ár. Stærð íbúðanna verður á bilinu 65-130 fermetrar. Hann segir að þegar séu komnir á lista um 140 manns sem hafa áhuga á að kaupa þessar íbúðir.
Eingöngu fyrir félagsmenn
Félagið hefur frá upphafi byggt rúmlega 400 íbúðir fyrir félagsmenn sína. Síðasta húsið var byggt í Fagrabergi í Breiðholti árið 2013, en í því húsi eru 50 íbúðir. Íbúðirnar í Árskógum eru eingöngu ætlaðar félagsmönnum í Félagi eldri borgara í Reykjavík. Kaupendur geta ekki selt íbúðirnar fyrstu þrjú árin og ef þeir vilja selja eftir það hefur félagið eftirlit með endursölu íbúðanna. Verð þeirra er framreiknað upphaflegt söluverð, bundið þróun vísitölu neysluverðs. Það verður óheimilt að leigja íbúðirnar í skammtímaleigu eða til gistiþjónustu.