Allir vilja eldast en enginn að verða gamall.
„Ég byrjaði margoft að skrifa þessa grein,“ segir Marcia Smallay í grein á vef Sixty and me. „Efni hennar átti að vera „að eldast“ og hvernig skrifar maður um það áhugaverða efni? Það mátti ekki vera of langt og ekki of stutt og í hreinskilni sagt vissi ég ekki hvernig ég átti að nálgast efnið.
Að lokum sneri ég mér til nokkurra vinkvenna minna, sem áttu það sameiginlegt að vera á aldrinum 50 til 75 ára. Ég kom þeim svolítið á óvart þegar ég orðaði viðfangsefni mitt, en þær voru allar fúsar að hugsa um hugtakið „að eldast“ og ræða það svo við mig.
Það er nefnilega þetta með að „eldast“; það á sér stað hægt og hljótt. Það læðist inn í líf okkar, nánast án þess að við tökum eftir því, þar til einn daginn að það á ekki við lengur. Við komumst allt í einu ekki hjá því að taka eftir því. Augnablikssvipur í speglinum, svolítil stuna þegar við stígum upp úr sófanum, hné sem þarf smá tíma til að aðlagast, allt þetta minnir á að árin líða.
Allir gera áætlanir um að verða eldri en ekki endilega um að verða gamlir
Orðið „öldrun“ er til að byrja með mjög gildishlaðið hugtak. Svo virðist sem við notum það aðeins í ákveðnu samhengi. Við myndum aldrei segja við þriggja ára barn: „Vá, hvað þú ert orðinn gamall en meinum: vá, hvað þú hefur stækkað“. Við myndum ekki heldur segja við 15 ára ungling: „Þú ert aldeilis orðinn gamall síðan ég sá þig síðast“ en meinum að hann hafi þroskast.
Svo að hvenær ætli hugtakið „að eldast“ byrji að lýsa fólki í stað þess „að vaxa og þroskast“? Er það við 45 ára, 65 ára eða 85 ára aldur? Og af hverju gerist þetta?
Erfitt getur reynst að svara spurningum um þetta efni, en sem betur fer voru þessar fjórar manneskjur sem ég fékk í lið með mér betri en enginn við að kafa ofan í málefnið með mér.
1. Hjálpar að hafa fyrirmyndir
Það er mikill kostur ef við höfum átt foreldra eða fjölskyldumeðlimi sem hafa sýnt okkur leiðina til hamingjusamrar öldrunar. Það er fátt sem er meira hvetjandi en að horfa á einhvern nákominn verða merkilegur „öldungur“. En jafnvel þótt einhver næst okkur hafi ekki lifað farsæl efri ár geta opinberar persónur eða fjölskylduvinir verið þessar fyrirmyndir fyrir okkur. Móðir kunningja míns náði 105 ára aldri. Þegar hún var 102 ára sat hún í farþegasætinu á bíl á alþjóðlegri kappaksturskeppni. Ég vil vera eins og Edith þegar ég verð stór!
2. Fagna skal góðri heilsu
Við þekkjum öll einhvern sem stendur frammi fyrir heilsubresti og mörg okkar gera það sjálf. Og stundum er eins og öll símtöl eða textaskilaboð beri vond tíðindi. Svo að ef við erum svo lánsöm að vera tiltölulega heilbrigð, þá er það ærið tilefni til að fagna.
Við ættum að vera þakklát fyrir að líkami okkar vinni eins og við viljum að hann geri.
Við ættum að vera þolinmóð, meðvituð um að líkami okkar er ekki eins og hann áður var.
3. Það er ekki orðið of seint
Þeir, sem ég þekki og taka á móti aldrinum með opnum huga, halda áfram að „vaxa“ og í raun blómstra.
Þeir lifa lífinu lifandi og viðurkenna að sumir draumar hafa farið framhjá en opna fyrir nýja. Þeir eru opnir fyrir nýjum og óvæntum uppákomum.
Ég á til dæmis 60 ára gamlan vin sem hóf nám í hljóðmeðferðarfræði sem notaðar eru til lækninga og hann náði miklum árangri.
Við það að eldast langar marga til að fá sér tattúið „Carpe diem“ eða gríptu daginn. Það er góð áminning um að njóta dagsins.
4. Ef ekki núna, þá hvenær?
Það var eitt leiðarstef í gegnum samtal okkar fjögurra um aldur, en það var að okkur líði öllum eins og tíminn sé dýrmætari en hann áður var. Tíminn framundan er sannarlega styttri en sá sem liðinn er og við vitum að það er áríðandi að sóa honum ekki.
Það er þessi meðvitund um „Tímann“ sem lætur okkur hugsa um það hver við erum orðin og hvað við höfum til að hlakka til.
Núna er tíminn allt sem við höfum svo við ættum að reyna að „grípa hann“.