Á að segja uppkomnum börnum til syndanna?

Sumar mæður eru hræddar við að gagnrýna uppkomin börn sín, segir á AARP síðunni sem er systursíða Lifðu núna í Bandaríkjunum. Í grein eftir Mary W.Quigley sem birtist á síðunni eru tilgreind dæmi um þetta og talað við Cathy Sikorski sem á dætur á þrítugsaldri. Fram kemur að fólk hiki við að gagnrýna hversdagslega hluti eins og þegar barnabörnin hagi sér illa á veitingastöðum, hvað þá að skipta sér af alvarlegri málum svo sem eins og  fjármálum barnanna þegar stefni í óefni.  Foreldrarnir hafa áhyggjur af því að slíkt geti skaðað samkomulagið við börnin og það fylgir sögunni, að þetta séu foreldrar sem séu í góðu sambandi við uppkomnu börnin sín.

Ekki láta eins og ekkert sé

En við hvað eru foreldrarnir svona hræddir? Það að börnin „muni refsa þeim með því að hætta að tala við þá og hætta að vilja umgangast þá“, segir rithöfundur og lögmaður sem rætt er við í greininni. „Það sem við óttumst mest er að missa trúnað þeirra. Sú tilhugsun er svo þungbær, að foreldrar eru tilbúnir að þola nánast hvað sem er“, segir hann. En hvað gera þá foreldrarnir? Tileinka sér þetta viðhorf „Ef þú hefur ekkert fallegt að segja, segðu þá ekki neitt“?  Raunar ekki, því rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að það sé betra að takast á við ósætti og reiði í garð uppkominna barna en láta sem ekkert sé.  Það að forðast óþægileg mál leysir engan vanda, að sögn prófessors í Michiganháskóla.

Ýmislegt sem getur valdið misklíð

Pirringur, spenningur og blendnar eða mótsagnakenndar tilfinningar eru eðlilegar í samskiptum foreldra og uppkominna barna. Þetta getur stafað af því að þau eru ólík sem persónur, eða af óuppgerðum vandamálum þeirra í milli. Fjármálaerfiðleikar og það hvernig fólk lifir lífinu og heldur heimili getur einnig valdið misklíð. Spenningur í samskiptum eykst oft þegar barnið giftist, stofnar fjölskyldu og fer að vinna langan vinnudag. Þá hætta foreldrarnir að vera þungamiðjan í lífi þeirra.

Hvernig á að koma gagnrýni á framfæri?

Vitnað er í greininni í  Ruth Nemzoff  höfund bókar sem heitir Don’t Bite Your Tongue, eða Ekki bíta í tunguna á þér og hún er sammála því að foreldrar ættu ekki að forðast það að rífast við uppkomin börn sín.  „Þegar allt kemur til alls þá höfum við rifist við þau síðan þau voru tveggja ára og við lifðum það af“, segir hún  Hún gefur eftirfarandi ráð um það hvernig best er að koma gagnrýni sinni á framfæri við uppkomin börn sín.

Finndu réttan stað og stund. Það á aldrei að gagnrýna þau fyrir framan annað fólk.  Mæltu þér mót við þau í rólegheitum eða talaðu við þau í síma þegar vel stendur á.

Taktu eigin reynslu sem dæmi.  Talaðu um svipuð mistök og þú gerðir, svo sem eins og að missa tök á fjármálunum eða vanda sem kom upp í  parsambandi.

Leitaðu aðstoðar. Ræddu vandamálið við náinn vin eða vinkonu, jafnvel við sálfræðing eða geðlækni, til að heyra hvort þeim finnst að þú sért að gera of mikið úr hlutunum. Gerðu það áður en þú talar við barnið.

Svaraðu fyrir þig. Ekki láta börnin mistúlka það sem þú segir. Minntu þau á að það hafi verið ætlan þín að koma með annað sjónarhorn á málin.

Cathy Sikorski lýsir í greininni hvernig hún tekst á við hugsanlegan ágreining við dætur sínar. Ef hana langar að ræða ákveðin mál við þær, gerir hún það umsvifalaust. „Það er best að vera heiðarlegur“, segir hún. Ef þær koma til að ræða við hana um vandamál spyr hún „Viltu að ég hjálpi þér, eða viltu bara að ég hlusti?“  Framhaldið ræðst af svarinu sem hún fær. Ef hún sér eftir á að hún hafði rangt fyrir sér, biðst hún fyrirgefningar.  Það er hennar skoðun að það sé mikilvægt að standa á rétti sínum sem móðir og halda áfram að gefa ráð og leiðbeiningar. Hún segir við þær „Þið getið verið mér reiðar og við getum rifist um ákveðin mál, en þegar upp er staðið er ég mamma ykkar og þið verðið að bera virðingu fyrir því“.

 

 

 

Ritstjórn október 31, 2016 12:20