Á berangri í gildru fátæktar

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir

„Bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækka um 9,4 prósent samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á næsta ári eða um samtals 9,6 milljarða króna. Ef að auki er litið til þeirra hækkana bóta sem hafa komið til í ársbyrjun 2014 og 2015 nemur uppsöfnuð hækkun bóta til ársins 2016, 16,6 prósentum. Því er spáð að uppsöfnuð verðbólga yfir sama tímabil verði 8,7 prósent og samkvæmt því er ljóst að kaupmáttur bótanna hefur aukist verulega,“ sagði Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu hækka bætur til ellilífeyrisþega um sem búa einir um rúmlega 20 þúsund krónur á mánuði frá áramótum, eða úr 225 þúsund krónum í 246 þúsund og til hjóna eða sambúðarfólks um rúmar 36 þúsund krónur, eða úr um 386 þúsund krónum í rúmlega 400 þúsund krónur.

Brostnar vonir

Haukur Ingibergsson

Haukur Ingibergsson

Elli- og örorkulífeyrisþegar gerðu sér vonir um að fá svipaðar hækkanir á lífeyrisgreiðslum og samið var um í kjarasamningum á árinu. „Landsfundur Landsambands eldri borgara ályktaði í vor að bætur myndu hækka eins og lægstu laun og yrðu orðnar 300 þúsund krónur árið 2018,“ segir Haukur Ingibergsson formaður LEB. Hann segir að miðað við fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út nú sé það ekki að nást.  „Við erum ekki að ná þeim markmiðum sem við settum fram í vor,“ segir hann.  „Stjórnvöld þekkja afstöðu okkar og við munum fara fram á breytingar á furmvarpinu áður en það verður endanlega samþykkt,“ segir Haukur.

Sanngjörn krafa

Katrín Júlíusdóttir

Katrín Júlíusdóttir

Þingmenn ræddu kjör lífeyrisþega lítið sem ekkert í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingu var sú nánast sú eina sem gerði þau að umtalsefni. „Í aðdraganda síðustu kjarasamninga tókum við jafnaðarmenn heils hugar undir kröfuna um 300 þúsund króna lágmarkslaun. Nú tökum við undir hana að nýju með lífeyrisþegum sem við getum ekki skilið eftir úti á berangri í gildru fátæktar. Þessi krafa um 300 þúsund króna lágmarkstekjur er ekki bara sanngjörn heldur svo fullkomlega eðlileg þegar

litið er til þess hvað það kostar að reka sig og sína í íslensku samfélagi,“ sagði Kartín. Svo spurði hún hvort einhver þingmanna treysti sér til þess að reka heimili og allt sem því fylgir fyrir 192.021 krónur í hverjum mánuði.  „Þetta eru dæmi um þær tekjur sem við bjóðum okkar elstu borgurum upp á. Til eru dæmi um hærri tekjur en til eru líka dæmi um lægri tekjur en það sem ég nefni hér,“ sagði hún og bætti við að þessu yrði að breyta. „Við viljum ekki hafa þetta svona,“ sagði Katrín.

Ritstjórn september 9, 2015 12:18