Hver króna skiptir máli

Katrín Jakobsdóttir.

„Við erum í þeirri stöðu að stórir hópar öryrkja og aldraðra fá laun undir 300 þúsund krónum en lágmarkslaun í þessu landi eiga að hækka í 300 þúsund á næsta ári,“ sagði Katrín Jakobsdóttir Vg, í umræðum á Alþingi, um fátækt á Íslandi. „Þessir hópar greiða samt sína skatta og skyldur til samfélagsins. Við verðum að horfa til þess hvernig við getum bætt framfærslu þessara hópa því að við sjáum það svart á hvítu þegar við skoðum neysluviðmið, framfærsluviðmið, að það skiptir verulegu máli fyrir þessa hópa, hver króna skiptir máli. Hér eru hópar sem eiga ekki einu sinni fyrir mat þegar líður á mánuðinn. Að mínu viti er fátækt blettur á ríku samfélagi eins og Íslandi og stjórnvöld ættu að hafa skýra sýn á það hvernig útrýma megi fátækt. Stjórnvöld ættu að vera reiðubúin að sækja þá fjármuni sem þarf til að styrkja velferðarkerfi okkar og bótakerfið þannig að enginn þurfi að búa við fátækt á jafn ríku landi og Íslandi,“ sagði Katrín ennfremur.

Þorsteinn Víglundsson.

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra sagði að jöfnuður hér á landi væri meiri en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. „Á alla mælikvarða stöndum við ákaflega vel. Kaupmáttur hefur aukist verulega á undanförnum árum. Kaupmáttur lægstu launa hefur aukist umfram almennan kaupmátt og hefur kaupmáttur bóta að sama skapi fylgt lægstu launum að undanförnu. Markmiðið er að um næstu áramót hækki lágmarksfjárhæðir eða lágmarkstekjutryggingar bæði ellilífeyris og örorkulífeyris í 300 þúsund krónur eins og lágmarkslaun á vinnumarkaði. Það skiptir allt saman gríðarlega miklu máli í því að bæta stöðu þessa fátækasta hóps,“ sagði Þorsteinn.  Hér er svo hlekkur umræðuna á Alþingi um fátækt á Íslandi.

 

 

Ritstjórn maí 17, 2017 10:06