Lífeyrisgreiðslur þúsunda geta lækkað

Sextán umsagnir um frumvarp félagsmálaráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar hafa verið sendar inn. Lifðu núna gluggaði í nokkrar þeirra.  Alþýðusamband Íslands segir í umsögun sinni að allflestir ellilífeyrisþegar fái hærri lífeyrisgreiðslur verði frumvarpið að lögum. „Breytingin er þó viðamikil og getur haft ólík áhrif á afkomu einstaklinga. Vegna hlutfallslegar hárra frítekjumarka á atvinnutekjur munu tekjur lítils hóps ellilífeyrisþega sem hefur atvinnutekjur á bilinu 105.000 – 374.000 t.a.m. lækka við breytinguna. Til þess að skapa ekki óvissu um afkomu er brýnt að tryggja með sólarlagsákvæði líkt og lagt er til í frumvarpinu að greiðslur frá almannatryggingum lækki ekki við yfirfærslu í nýtt kerfi. Í þessu samhengi má einnig benda á að með heimild til töku á hálfum ellilífeyri sem verður án tekjutengingar líkt og lagt er til í frumvarpinu mun hvati og sveigjanleiki til atvinnuþátttöku lífeyrisþega aukast til muna.“

Björgvin Guðmundsson gerir tvennar athugasemdir við frumvarpið. Hann segir að ekki sé gert ráð fyrir, að lífeyrir hækki neitt frá því sem nú er. „Hækka þarf lífeyrinn verulega, þar eð ekki er unnt að framfæra sig af þeim lífeyri, sem þeir fá í dag, sem ekki hafa neinar greiðslur úr lífeyrissjóði, af atvinnutekjum eða fjármagnstekjum.“  Þá segir Björgvin að „skerðing lífeyris almannatrygginga eykst vegna atvinnutekna.Draga þarf úr þessari skerðingu til þess að auðvelda eftirlaunafólki að fara út á vinnumarkaðinn og vinna sér inn einhverjar aukatekjur.Best væri að afnema tekjutengingar með öllu.“

Félag eldri borgara í Reykjavík segist ekki geta samþykkt frumvarpið óbreytt. „Þó mörg atriði frumvarpsins séu vissulega til bóta frá því kerfi sem nú er í gildi varðandi almannatryggingarnar, eru of mörg önnur atriði í frumvarpinu sem ekki eru ásættanleg í óbreyttri mynd. Þar má helst nefna:afnám frítekjumarka, m.a. á launatekjur, sem mun virkja letjandi á eldra fólk að halda áfram störfum á vinnumarkaði og vinna þannig gegn því markmiði sem fram kemur í drögunum að hækka eftirlaunaaldur manna og fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs. Eðlilegt er að gæta samræmis í meðhöndlun allra tegunda af tekjum eftir því sem kostur er, svo sem vegna fjármagnstekna.  Breytingar samkvæmt frumvarpinu munu valda því að um 4.200 manns munu sæta lækkun eða fá engan lífeyri frá TR, ef frumvarpið nær fram að ganga í óbreyttri mynd. Það er óviðunandi að leggja niður grunnlífeyri til allra í almannatryggingum, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Það væri eðlilegra að hækka hann verulega, þannig að hann verði viðunandi og lífeyrir frá lífeyrissjóðunum komi svo til viðbótar.“

Tryggingastofnun ríkisins leggur áherslu á að upplýsingagjöf verð tryggð. Í umsögn TR segir „í frumvarpinu eru ákvæði um flutning úr núgildandi kerfi í nýtt kerfi sem mikilvægt er að fara vel yfir m.a. m.t.t. jafnræðis borgaranna. Allir sem hafa náð 67 ára aidri við gildistöku laganna og hafa sótt um töku lífeyris fá notið samanburðareglu milli kerfanna. Fá að hluta eða öllu leyti greiddan mismun á réttindum samkvæmt nýju og gömlu kerfi í þeim tilfellum sem gamla kerfið gæfi betri rétt. Um átta þúsund manns sem nú eru eldri en 67 ára hafa ekki sótt um lífeyri frá Tryggingastofnun og munu því ekki njóta hugsanlegs ávinnings þessarar samanburðarreglu kæmu þeir sem nýir umsækjendur inn í kerfið eftir gildistöku laganna. Mikilvægt er að hafa hraðar hendur og koma upp einstaklingsbundinni þjónustu við þessa einstaklinga hjá Tryggingastofnun svo þeir geti notið til fulls réttinda sinna. í einhverjum tilvikum mun ekki skapast réttur hjá þeim og í einhverjum tilvikum gæti borgað sig fyrir þau að draga enn að sækja um lífeyri til þess að njóta hækkunar vegna frestunar töku lífeyris, en mikilvægt er að veita þeim tækifæri til innkomu í kerfið fyrir gildistöku þess bæti það rétt þeirra til lífeyris.  Þeir sem vilja kynna sér nánar þær umsagnir um frumvarpið sem fram eru komnar geta lesið þær í heild hér.

Ritstjórn september 20, 2016 09:59