Innkaupaleiðangur á netinu

Það færist stöðugt í vöxt að fólk kaupi allt milli himins og jarðar á netinu. Að mörgu leyti er mjög þægilegt að skoða og velja það sem hugurinn girnist sitjandi heima í sófa í stað þess að æða búð úr búð. Gallinn er hins vegar sá að það tekur tíma að panta og biðin eftir því sem keypt er getur verið frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur. Ef fólk er að kaupa fatnað eða skó þá getur verið hætta á að hitta ekki á réttu stærðina eða þá að sniðið passar ekki þegar maður hefur fengið flíkina í hendur. Góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að skipta eða fá endurgreiðslu hjá nánast öllum þeim sem eru að selja á netinu. Svo þarf að muna eftir að bæta virðisaukaskattinum við verðið sem gefið er upp. Á vefnum tollur.is er reiknivél og þar er hægt að sjá á örskotsstund hvað varan kostar þegar hún er komin til landsins. Á vef dagblaðsins Independent var nýlega birtur listi yfir 50 bestu vefina að mati blaðsins sem selja fatnað og fylgihluti. Þar er hægt að finna fatnað á karla og konur í öllum verðflokkum, skartgripi, skó og töskur svo eitthvað sé nefnt. Þar er líka hægt að finna vefi sem leigja fatnað við hin ýmsu tilefni. Hér er linkur inn á umfjöllun Independent.

 

 

Ritstjórn júní 26, 2018 08:26