Að finna taktinn í lífinu við starfslok

 

Sigríður og eiginmaður hennar Sigurður Guðmundsson.

Sigríður Snæbjörnsdóttir hefur alla ævi verið mikill jafnréttissinni bæði í orði og á borði. Hún er hámenntuð í stjórnun og hefur unnið sem slík á stærstu heilbrigðisstofnunum landsins.  Það hefur alltaf verið mikið umleikis hjá Sigríði bæði í leik og starfi. „Ég er eiginlega hætt að vinna núna,“ segir hún og brosir glaðlega og bætir við að hún hafi tekið nokkur ár í trappa sig niður. Hún er þrátt fyrir það ekki sest í helgan stein, tók sæti í stjórn Félags eldri borgara í vetur og er virk í Rotary og í fleiri félögum.

 Spennandi, gefandi og skemmtilegt

Sigríður Snæbjörnsdóttir á farsælan feril að baki sem stjórnandi í heilbrigðiskerfinu. Hún varð stúdent frá MR 1968. Sem ung kona var hún frekar óráðin í hver ættu að vera næstu skref. Það eina sem hún var ákveðin í var að mennta sig. „Það var hálfgerð tilviljun að ég fór í hjúkrun. Við vorum tvær vinkonurnar og vorum að velta því fyrir okkur hvað við ættum að gera en á endanum ákváðum  að fara í Hjúkrunarskólann enda praktíst nám,“ segir hún.  Þaðan lauk hún svo prófi 1973 og framhaldsnámi í svæfingahjúkrun tveimur árum síðar. Á meðan hún var í námi eignaðist hún tvær dætur með eiginmanni sínum Sigurði Guðmundssyni lækni.  Árið 1978 lá leiðin til Bandaríkjanna. „Siggi maðurinn minn var á leiðinni í framhaldsnám í Madison í Wisconsin. Eftir að hafa unnið á sjúkrahúsum á meðan ég var í námi og eftir nám, var svolítill óróleiki í mér. Mér fannst að ýmislegt  mætti betur fara. Ég hafði alltaf hugsað mér að fara í frekara nám og bæta við mig.“ Þegar ungu hjónin fóru út voru börnin orðin þrjú því lítill sonur hafði bæst í fjölskylduna. „Ég fór í  BS nám í hjúkrun úti og í beinu framhaldi í meistaranám í hjúkrunarstjórnun. Ég hef oft velt því fyrir mér ef ég væri nýstúdent í dag hvort ég myndi feta þessa sömu leið. Það er miklu meira val á allskonar námsleiðum í dag en var fyrir hálfri öld. Í dag held ég að þetta hafi verið góð ákvörðun að mennta sig í heilbrigðisgeiranum. Það gaf mér allavega tækifæri til að taka þátt í mörgu sem hefur í senn verið spennandi, gefandi og umfram allt skemmtilegt. Það má með sanni segja að ég hafi í gegnum tíðina lifað átakalífi í heilbrigðisgeiranum.“

Sjö ár í Bandaríkjunum

Sigríður og Sigurður bjuggu í Bandaríkjunum í sjö ár og þetta var krefjandi tími enda bæði í erfiðu námi. „Þetta var dálítið töff stundum. Þegar maður er giftur lækni sem er í framhaldsnámi í Bandaríkjunum getur maður næstum því kvatt hann. Vaktirnar eru langar og það er krafist ómældrar vinnu af þeim. Þetta er alveg eins og þessu er lýst í læknaþáttunum í sjónvarpinu,“ segir Sigríður og hlær og bætir við að þetta hafi verið endalaust púsl að koma námi og fjölskyldulífi heim og saman  fyrst eftir að þau fluttu en orðið skaplegra eftir að börnin komust í skóla. „Stelpurnar fóru í skóla og skóladagurinn hjá þeim var samfelldur og eftir að við höfðum verið úti í smátíma komst strákurinn inn á leikskóla. En auðvitað voru þetta stanslaus hlaup og reddingar. Maður var oft dauðuppgefinn eftir daginn en þá var ekkert annað í boði en setjast yfir námsbækurnar. Ég vissi það hins vegar þegar ég kom heim eftir nám að fyrst ég komst í gegnum þetta án þess að skaða börnin á einhvern hátt, gæti ég tekist á við ýmislegt.“

Var þetta rétt ákvörðun

Hvað ungur nemur gamall temur. Í fjallgöngu með barnabörnum.

Sigríður segir að skólakerfið í Madison hafi verið mjög gott. „Ég fann það þegar við komum heim að krakkarnir voru komin lengra í námi en jafnaldrar þeirra hér. Það var miklu meiri agi í skólunum og meiri kröfur gerðar til barnanna.“ Sigríður segir að það hafi verið mikil viðbrigði fyrir börnin að flytja til Íslands. Stelpurnar komnar á unglingsárin og sonurinn á áttunda árinu. „Ég velti því fyrir rmér þá hvað ég væri eiginlega að gera börnunum með því að sækja nám á fjarlægar slóðir. Á þeim tímapunkti er maður kannski ekki að velta því fyrir sér hvað sé best fyrir þau. En þegar upp er staðið held ég að við höfum öll komið vel út úr þessu, en það var vissulega erfiður tími fyrst eftir að við komum heim.“

Sigríður segir að á tímabili hafi Sigurður verið dálítið spenntur fyrir því að setjast að í Bandaríkjunum enda hafi hann verið komin með mörg tilboð um vinnu. „Mér fannst hins vegar að við yrðum að láta á það reyna að flytja heim. Ég var hrædd um að ef við myndum taka þá ákvörðun að setjast að úti myndum við sjá eftir því alla ævi, og svo vildum við líka að börnin okkar fengju tækifæri til að alast upp á Íslandi. Fyrstu árin eftir að við fluttum aftur til Íslands veltum við því oft fyrir okkur hvort þetta hefði verið rétt ákvörðun. En svo gerir maður það bara að sinni réttu ákvörðun. Ég fékk líka allskonar tækifæri í vinnu hér heima sem ég hefði ekkert endilega fengið hefðum við sest að í Bandaríkjunum. Þetta er spurningin um að vera stór fiskur í lítilli tjörn eða lítill fiskur í úthafinu.“

Við Siggi eigum góða vini og fjölskyldu, segir Sigríður.

Að spóla í sömu hjólförunum

Tækifærin létu ekki á sér standa. Sigríður og fjölskylda komu heim sumarið 1985 og nokkrum mánuðum síðar var hún ráðin sem hjúkrunarframkvæmdastjóri á Landspítalanum og þremur árum síðar flutti hún sig um set yfir á Borgarspítalann sem hjúkrunarforstjóri. Í kjölfar sameingar Landakotsspítala og Borgarspítala nokkrum árum síðar tók hún við húkrunarforstjórastarfi á því sem þá hét Sjúkrahús Reykjavíkur.  Um aldamótin ákvað hún að söðla um og tók við starfi framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og starfaði þar í 10 ár. Fjárskortur í heilbrigðiskerfinu er gömul saga og ný. „Þetta var skemmtilegt og spennandi tímabil. En síðasta áratuginn sem ég var að vinna í heilbrigðisþjónustunni fannst mér eins og ég væri stöðugt að spóla í sömu hjólförunum. Það vantaði alltaf peninga og það varð æ erfiðara að mæta kröfum um niðurskurð og sparnað. Stundum mætti maður litlum skilningi hjá þeim sem fóru með fjárveitingavaldið. Þörf sjúklinga og kröfur ráðamanna fóru ekki saman. Krafan var alltaf sú sama að það ætti að spara meira. Mér fannst ástandið stöðugt fara versnandi og maður verður „frústreraður“ með tímanum. Maður fann svo glöggt hversu þörfin fyrir þjónustu var mikil. Þessi barátta um fjárveitingar átti það til að skapa spennu milli stofnana sem var leiðinleg. Mér leið stundum eins og Bill Murray í kvikmyndinni Groundhog Day þar sem söguhetjan vaknaði dag eftir dag við að það sama gerðist á hverjum degi. Þetta var orðin eilíf endurtekning, setja mál í nefnd, skoða þau, leita álits hinna og þessara og fá álit erlendra ráðgjafa. Það bætist lítið nýtt við og við veltum okkur upp úr sömu hugmyndunum ár eftir ár án lítilla aðgerða. Einu breytingarnar eru sameining stofnana og fækkun starfsfólks sem hefur í mörgum tilfellum haft slæmar afleiðingar á þjónustuna og val og aðgengi versnar. Eftir síðustu alþingiskosningar var gert ráð fyrir veigamikilli innspýtingu inn í kerfið en því miður var ástandið orðið svo slæmt að varla sá högg á vatni. Það eru allir að gera sitt allra besta, vinna mikið við erfiðar aðstæður. Menn verða að hafa í huga að fólki hér á landi fer fjölgandi og þjóðin er að eldast. Á sama tíma versnar ástandið í heilbrigðiskerfinu stöðugt.“

Í þróunaraðstoð í Malavi

Sigríður segir að henni finnist stundum eins og líf þeirra hjóna skiptist í ákveðin tímabil. Þar sem eitt leiði af öðru. Við ákváðum árið 2007 að taka okkur launalaust leyfi í eitt ár og fara að sinna þróunarhjálp í Malavi. „Við vorum bæði tilbúin í breytingar og orðin þreytt á ástandinu hér heima. Fyrst eftir að við komum til baka eftir gefandi ár í frumskóginum, velti maður því fyrir sér yfir hverju maður væri eiginlega að kvarta en svo aðlagast maður fljótt fyrra umhverfi eins og gengur.Malavi er eitt fátækasta land heims en þar var Þróunarsamvinnustofnun Íslands að koma upp heilsugæslustöð og sjúkrahúsi í afskekktu héraði. Við bjuggum að mestu inn í frumskóginum og þar var eðlilega allt önnur menning en við áttum að venjast. Tíminn þar var afstæður. Fyrir okkur sem vorum vön að vera á hlaupum alla daga var mjög skrítið svona fyrst í stað að eiga að mæta á fund á ákveðnum tíma en svo sat maður og beið eftir því að fólk kæmi. Þegar spurt var hvort fundurinn færi ekki að byrja var svarið „hann byrjar þegar allir eru komnir“. Það var aðdáunarvert að fylgjast með nægjusemi og lífsgleði hjá fólkinu sama á hverju gekk. Vandamálin voru mörg og allt önnur en hér, t.d. var ungbarnadauði og malaría, eitthvað sem við þekkjum ekki hér. Spilling var líka mikil og oft kom það fyrir að ýmis búnaður, lyf og fleira hvarf. Þetta þótti gjarnan merki um að fólk kunni að bjarga sér. Ég fann að maður átti svolítið erfitt með að venjast þessu svona fyrst í stað, en maður varð bara að draga andann djúpt og segja; þessu verður ekki breytt á einu ári eða fimm árum þess vegna. En fólkið var yndislegt og afar þakklátt fyrir það sem við vorum að gera. Þetta er lífsreynsla sem ég myndi aldrei hafa viljað fara á mis við. Ég róaðist tímabundið við að vera Í Malaví þar sem taktur lífsins er allt annar en á vesturlöndum. Þrátt fyrir mikla fátækt er þetta friðsælt land enda eiga þeir engar náttúruauðlindir til að berjast um. Ég hefði gaman að því að fara þangað aftur og sjá hvernig hefur miðað síðan við vorum þarna.“

Hætt í fastri vinnu

Með barnabörnum.

„Nú er ég eiginlega hætt að vinna. Ég hætti í föstu starfi 2013 eða þegar ég varð 65 ára. Það var áhugavert enda var ég búin að lifa og hrærast í heilbrigðiskerfinu alla mína starfsævi en ég fann að þetta var orðið ágætt.“ Sigríður varð fyrst kvenna formaður Krabbameinsfélagsins árið 2007 og var mjög öflugur talsmaður félagsins á meðan hún var þar í forystu. Þegar menn þar á bæ fréttu að hún væri að hætta á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var hún beðin um að taka af sér ýmis verkefni fyrir félagið og hún fór í hlutastaf þar í eitt og hálft ár. Síðan fór hún að vinna hjá Klínikinni í Ármúla. „Ég tók þátt í tilurð hennar meðan hún var að komast á laggirnar og hafði tækifæri á að koma þar hugmyndum að. Þar hætti ég svo í fyrrasumar. Ég trappaði mig niður í vinnu. Maður skransaði svolítið en ég er enn að finna taktinn í lífinu eftir starfslok. Ég skulda náttúrulega mörgum af mínum nánustu margt í tíma. Ég er í raun og veru að hefja nýtt líf.“

Hjónin á góðri stund i útlöndum.

Að halda sönsum

Þegar Sigríður er spurð að því hvernig hún hafi farið að því að halda sönsum í allari þeirri álagsvinnu sem hún hefur verið svarar hún því til að hún eigi góða fjölskyldu og vini. „Maður var oft þreyttur enda vann maður mikið og vinnudagarnir voru langir. Ég hef hins vegar alltaf átt gott með að kúpla mig frá þegar ég hef farið í frí. Við Siggi höfum ferðast mikið bæði innan lands og utan og ég hef í seinni tíð hreyft mig mikið sérstaklega eftir að ég hætti að vinna og tel það allra meina bót. Ég er sennilega í betra formi núna en þegar ég var fertug. Hreyfing er nauðsynleg til að halda sönsum í þessum stundum brjálaða heimi. Maður verður að gera það sem hægt er til að vernda heilsuna. Það verður ekki gert eftir á. Þegar fólk er um fertugt lítur það svo vel út og líkaminn vinnur með manni en eftir þann tíma fer maður að sjá hvað fólk eldist á mismunandi hátt. Hreyfing er góð fyrir bæði líkama og sál. Ekki síður er mikilvægt að þjálfa hugann, takast á við ný verkefni og ögra sjálfum sér til að halda heilabúinu gangandi.“

Illa komið fram við fólk

Sigríður situr nú í stjórn Félags eldri borgara. Henni finnst illa komið fram við margt eldra fólk hún segir að það sé slæmt að vita til þess að eldra fólk þurfi að liggja á göngum og jafnvel salernum sjúkrahúsa því það vanti pláss á húkrunarheimili. „Þetta er auðvitað ekki boðlegt og á ekki að líðast í velferðarþjóðfélagi. Það er ríkjandi ákveðið virðingarleysi í samfélaginu fyrir öldruðum og vantar að samfélagið átti sig á dýrmætri reynslu þess og vinnuframlagi á svo mörgum sviðum. Í Afríku er lærdómsríkt að sjá hversu mikil virðing er borin fyrir eldra fólki alveg sama hversu gamalt og hrumt það er. Hér er fólk sem komið er á eftirlaunaaldur og þaðan af eldra afskrifað og oft á tíðum komið fram við það af vanvirðingu. Við þurfum að breyta þessu og bæta aðbúnað þessa fólks sem hefur gefið samfélaginu allt sitt.“

Ritstjórn maí 19, 2017 11:26